Þriðjudagur, 27. desember 2022
Eins árs Úkraínustríð?
Úkraínsk yfirvöld boða friðarsamninga eftir tvo mánuði, á ársafmæli stríðsins. Orð eru til alls fyrst. Engin veit hver staðan verður á vígvellinum eftir átta vikur. Rússar bæta um 300 þús. hermönnum við lið sitt um þessar mundir. Úkraínumenn geta ekki svarað í sömu mynt. Þeir eru ekki nógu margir.
Síðasta stóra fréttin um betri vígstöðu Úkraínu er Patriot-eldflaugakerfin sem ekki verða tekin í þjónustu fyrr en í sumar. Kannski að úkraínsk herkænska sé meiri en rússnesk og það bæti upp liðsmun. Ekki hefur það hingað til raungerst á vígvellinum
Í sumar sagði Selenskí Úkraínuforseti að stríðinu yrði að ljúka fyrir veturinn. Köldustu mánuðirnir þar eystra eru janúar og febrúar. Í byrjun desember sagði forsetinn að þjóðin yrði að þrauka veturinn.
Stríðið í Garðaríki er það fyrsta frá lokum seinna stríðs þar sem nútímaríki sem a.m.k. er vestrænt að hluta berst fyrir tilveru sinni. Engar hliðstæður eru til að styðjast við er gefa vísbendingar um þanþol úkraínska samfélagsins. Hitt er vitað að án vestræns stuðnings, einkum Bandaríkjanna og ESB-ríkja, væru úrslit löngu ráðin, Rússum í vil. Í þeim skilningi er sléttustríðið átök tveggja heima. Vestrænn einpólaheimur stendur gegn austrænum margpóla heimi. Með öðrum orðum: Bandaríkin gegn Rússlandi studdu af Kína.
Stjórnin í Kænugarði er milli tveggja elda. Í einn stað getur hún ekki samið á meðan rússneskur her situr stórt úkraínskt landssvæði. Eftirgjöf lands þýddi stjórnarbyltingu í Kænugarði. Í annan stað eru bæði innviðir Úkraínu og herinn á heljarþröm. Friðarsamningar eru þó hótinu skárri en uppgjöf.
Rússar ætluðu sér stutt stríð í fyrstu. Þegar það brást bjuggu þeir sig undir langt stríð, jafnvel mælt í árum.
Ef gefið er að á vígvellinum gerist fátt stórvægilegt næstu vikurnar verða það heimavígstöðvarnar í Úkraínu annars vegar og hins vegar Rússlandi sem ráða úrslitum um hvort annar stríðsaðilinn sé tilbúinn að gefa nóg eftir til að friður verði saminn.
Þar stendur Úkraína verulega verr að vígi. Stríðið er háð á úkraínsku landi þar sem eldflaugaárásir á innviði, s.s. raforkudreifingu, leggur daglegt líf í rúst. Innviðir Rússlands eru að mestu utan skotfæris.
Efnahagskerfi Rússlands er þó í skotlínu. Vestrænar þjóðir hafa allt frá innlimun Krímskaga 2014 beitt Rússa margvíslegum efnahagsþvingunum. Þýska útgáfan Die Welt, sem eins og þorri vestrænna fjölmiðla er andsnúin Rússum, fór yfir áhrif refsiaðgerðanna.
Samkvæmt þýsku útgáfunni hefur efnahagskerfi Rússlands staðið af sér refsiaðgerðir. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn spáði Rússlandi 8,5% samdrætti í apríl, 6% í júlí og 3,4% í október. Fyrir næsta ár hefur spá um samdrátt verið breytt úr 3,5% í 2,3%. Ekki beinlínis hamfarir. Staðan í Rússlandi er betri en víðast á vesturlöndum.
Þýska útgáfan telur meginástæðuna fyrir aðlögun Rússlands að verri efnahagsskilyrðum vera tvíþætta. Í fyrsta lagi hafi lítil og meðalstór fyrirtæki fundið nýja markaði og nýja birgja. Í öðru lagi að rússneska tækni- og sérfræðingaelítan, sem er vestræn í hugsun og háttum, féllst á réttmæti stríðsins.
Á vesturlöndum var búist við að Pútín myndi í stríðsrekstrinum einangrast og yrði jafnvel steypt af stóli. Engin teikn eru um annað en að forseti Rússlands búi að traustum stuðningi, bæði elítu og almennings. Rússar virðast líta svo á að sléttuátökin séu seinna ættjarðarstríðið. Það fyrra var gegn þýskum herjum fyrir miðbik síðustu aldar.
Stríðið í Úkraínu heldur áfram á meðan hvor um sig stríðsaðilinn telur sig geta bætt stöðu sína á orustum og heimavígstöðvarnar halda sjó. Á meðan er ungum karlmönnum fórnað í þúsundavís. Hryggilegt.
Vonast eftir friðarviðræðum í febrúar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þegar og ef Patriot kerfið kemur loks til Úkraínu verður það skotið niður af Rússum. Spurningin er - hvað fleira hefur Kaninn í vopnabúri sínu? Fyrst voru það javeli flaugar sem áttu að ráða úrslitum. Þeim var að mestu eytt. Þá áttu m777 að ráða úrslitum en allt fór á sama veg. Þá komu HIMARS eldflaugapallarnir og brúnin lyftist á Zelensky. Nú hafa þeir flestir verið skotnir í tætlur og þá binda þeir vonir við Patriot. En Patriot kerfin eru af skornum skammti og ekki víst að fleiri en eitt faist sent til Úkraínu. Það fer að hylla undir að Kaninn hafi ekkert eftir í vopnabúrinu til að senda Zelensky annað en kjarnorkusprengju. Var það það sem ESB var með í huga þegar það lét teyma sig út í þessa vegferð?
Ragnhildur Kolka, 27.12.2022 kl. 23:09
Blessaður Páll.
Sem sagnfræðikennari hefur þú greinilega ekki lesið um heykvíslarnar og beitingu þeirra við að verja hæðir og hóla, sem og hlöður.
Það er reyndar afrek hjá þér að hafa rangt fyrir þér í hverjum einasta skoðanapislti þínum sem þú hefur birt um þetta stríð, svo illa rangt að það má efast um sagnfræðikennsluna í Garðaskóla hinum nýja.
Í alvöru, hvenær hefur hráefnisinnflytjandi sigrað tæknivædda birgja?
Svarið við því er einfalt, þess vegna fara Bandaríkin ekki í stríð við Kína, íhlutir þeirra stjórna tækni heimsins í dag.
En hvað rekur þig áfram Páll, það er önnur Ella, sem aðeins þú getur svarað.
En þú átt fyrirmyndir, Laxness skrifaði jú sitt sálaruppgjör, en veistu, hann varð ekki meiri maður fyrir vikið.
En það má lengi söguna reyna.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 1.1.2023 kl. 01:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.