Þóra við byrlara Páls: skrifaðu sem mest

,,Við getum líka hist á Yndisaukakaffihúsinu hér í Efstaleiti 25b," skrifar Þóra Arnórsdóttir ritstjóri á RÚV i fésbókarspjalli við byrlara Páls skipstjóra Steingrímsson 25. ágúst í fyrra. Fimm dögum seinna er Þóra aftur í samskiptum við byrlarann og biður að viðkomandi skrifi ,,sem mest" til sín. Byrlarinn segir að um sé að ræða upplýsingar ,,sem ekki mega fara í fjölmiðla að svo stöddu." Meðal upplýsinga sem fara þeim á milli er skjáskot af bankareikningi Páls skipstjóra.

Byrlarinn er andlega veik kona, nátengd Páli skipstjóra. Tæpum fjórum mánuðum áður en ofangreind samskipti fóru fram var skipstjóranum byrlað og síma hans stolið og hann afritaður af blaðamönnum. Eftir stuld og afritun var símanum skilað á sjúkrabeð Páls þar sem hann var meðvitundarlaus.

Byrlarinn var starfssamur þessa ágústdaga í fyrra. Hann heimsótti m.a. ættingja æðstu manna Samherja og gaf Þóru til kynna að hafa í fórum sínum áhugaverðar upplýsingar. ,,Skrifaðu sem mest," svaraði Þóra. Regluleg símtöl fóru á milli Þóru og byrlara samhliða spjalli þeirra á fésbók. Þá liggur einnig fyrir að tvímenningarnir hittust á kaffihúsi í grennd við starfsstöð Þóru á Efstaleiti.

Samskipti Þóru og byrlara eru tekin úr gögnum lögreglu. Þau eru athyglisverð fyrir þær sakir að þau sýna veruleg tengsl yfir langan tíma á milli Þóru og byrlara. Páli var byrlað 4. maí í fyrra. Tilvitnað spjall fór fram í ágúst. Í gögnum lögreglu kemur einnig fram að daginn sem byrlarinn fór í sína fyrstu yfirheyrslu, 5. október í fyrra, var skráð rúmlega 6 mín. símtal milli þeirra tveggja.

Þegar Þóra mætti til yfirheyrslu í ágúst í ár, rúmlega ári eftir byrlun og þjófnað, var hún spurð um samskipti sín við byrlarann. ,,Aðspurð sagðist Þóra kjósa að tjá sig ekki um það hvort" byrlarinn hafi gagngert verið gerður út af örkinni til að sækja heim ættingja yfirmanna Samherja og fá frá þeim upplýsingar. Nær öll svör Þóru eru á þennan veg: ég kýs að tjá mig ekki.

Þóra og RÚV birtu aldrei neinar fréttir upp úr síma Páls skipstjóra eða öðrum gögnum sem byrlarinn skaffaði. Stundin og Kjarninn sáu um að birta fréttirnar. Engin dæmi eru um að fréttamenn á þrem fjölmiðlum, sem eiga að heita sjálfstæðir, vinni fréttaefni á þennan hátt. RÚV, sem er ríkisfjölmiðill, þverbrýtur allar skráðar og óskráðar siða- og vinnureglur um starfshætti fjölmiðla með aðild að lögbrotum og baktjaldamakki.

Í lögreglurannsókninni er Þóra sakborningur ásamt Þórði Snæ og Arnari Þór á Kjarnanum og Aðalsteini Kjartanssyni á Stundinni. Aðalsteinn var undirmaður Þóru á RÚV en söðlaði skyndilega um vinnustað - fjórum dögum áður en Páli skipstjóra var byrlað.

Byrlarinn kunni lítið fyrir sér að opna forritin í síma Páls sem geymdu gögn og upplýsingar. Blaðamenn RSK-miðla tóku að sér að sækja þessi gögn úr afritaða símanum. Þeir sendu byrlaranum gögnin í tölvupósti. Þar á meðal er myndskeið af skipstjóranum á ástarfundi með jafnöldru sinni.

Gögnin sem lögregla hefur látið í hendur lögmanna málsaðila eru ekki tæmandi. Elstu gögnin eru frá ágúst 2021. Gögn sem varpa ljósi á atburðarásina í lok apríl og byrjun maí í fyrra, þegar Páli skipstjóra var byrlað, hafa ekki verið lögð fram.

Spurningar lögreglu til sakborninga gefa vísbendingu um hvers sé að vænta. Þannig er Þórður Snær spurður hvort hann hafi fengið í hendur síma Páls skipstjóra. ,,Þórður segist aldrei hafa séð símtæki í eigu Páls Steingrímssonar," er haft eftir ritstjóra Kjarnans í lögregluskýrslu.

Sími skipstjórans geymdi bæði staðsetningarforrit og smitrakningarforrit. Hafi Þórður Snær verið nærri síma Páls þann rúma sólarhring, sem síminn var í þjófahöndum, er sú nærvera skráð í gagnagrunn. En, auðvitað, ekki hvort ritstjórinn hafi verið með augun opin eða lokuð.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Ef tekið er mið út frá þætti Þóru sem hér er rakinn, þá hlýtur maður að spyrja: hver var aðkoma þeirra sem látnir voru fjúka? Hún hélt þó starfinu.

Ragnhildur Kolka, 21.11.2022 kl. 00:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband