RSK-sakamálið: tvær lexíur fjölmiðla

Blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla, bíða ákæru vegna aðildar að alvarlegum afbrotum. Ákærur verða að líkindum birtar í september. Við birtingu verður ljóst hvaða blaðamaður er talinn hafa brotið gegn tilgreindum ákvæðum hegningarlaga. Fyrir dómstólum verður tekist á um sekt og sýknu.

Eftir dómsuppkvaðningu í sakamálinu eiga sekir blaðamenn yfir höfði sér miska- og skaðabótamál brotaþola, sem eru í það minnsta tveir, mögulega fleiri.

Síðustu daga hafa tilfallandi athugasemdir fjallað um RSK-sakamálið. Heimildir fyrir umfjölluninni hafa að stórum hluta verið opinberar, s.s. dómsgögn og fréttir, en sumpart einkaheimildir ónafngreindar. 

Enginn fjölmiðill hefur fjallað sjálfstætt um sakamálið. Fréttin, svo því sé til skila haldið, hefur þó verið dugleg að birta tilfallandi blogg og færslu Páls skipstjóra Steingrímssonar. Fjölmiðlar þegja fréttmál sem ætti að standa þeim nærri.

Tvenna lærdóma má draga af RSK-sakamálinu er snúa beint að fjölmiðlum. Sá fyrri er svo sjálfsagður að ekki þarf að hafa um hann mörg orð. Blaðamenn eiga ekki að stela gögnum, enn síður að byrla og alls ekki brjóta á friðhelgi fólks með stafrænu kynferðisofbeldi. Blaðamenn og fjömiðlar sem stunda glæpi við fréttaöflun eru tilræði við samfélagið sem þeir í orði kveðnu þykjast þjóna.  Af ástæðum, sem ekki liggja í augum uppi, er mannvalið á RSK-miðlum slíkt að varnaðarorðin þarf að segja upphátt.

Seinni lexían er forsenda fyrir tilvist fjölmiðla. Lærdómurinn er sá að fjölmiðlar eiga að segja fréttir en ekki hanna atburðarás til að knýja fram niðurstöðu að skapi fjölmiðla.

RSK-fjölmiðlar hönnuðu atburðarás í maí á síðasta ári. Í byrjun mánaðar stóðu þeir fyrir stuldi á gögnum, sem fengust með byrlun. Í rúmar tvær vikur sátu þeir á gögnunum, til að fela slóðina. Þann 21. maí birtu Stundin og Kjarninn samhljóða fréttir um skæruliðadeild Samherja. Ekki til að upplýsa, heldur afvegaleiða. 

RÚV stóð álengdar, þóttist ekkert vita, þó að miðstöð glæpsins væri á Efstaleiti. Eftir að reiðibylgja reis á samfélagsmiðlum, eins og til var stofnað, voru fréttamenn RÚV gerðir út af örkinni. Þeir ráku hljóðnema upp í mann og annan, ráðherra og þingmenn, og spurðu: finnst þér ekki hræðilegt þetta með skæruliðadeild Samherja?

Öll atburðarásin er hönnuð, blekking. Stóra fréttin í málinu er að þrír fjölmiðlar sameinuðust um að klekkja á einstaklingi, Páli skipstjóra, sem hafði það eitt til saka unnið að bera blak af atvinnuveitanda sínum, Samherja, með tölvupóstum hér og greinaskrifum þar.

Tilvist fjölmiðla er réttlætt með þeim rökum að þeir segi frá atburðum en búi þá ekki til. Fjömiðlar sem leggja á ráðin um að breyta heiminum eru stjórnmálaafl, ekki fréttamiðlar.

RÚV sem stjórnmálaafl er hvorki í samræmi við lög né starfsreglur ríkisfjölmiðilsins. Munurinn á RÚV og stjórnmálaflokkum á alþingi er að þeir síðartöldu eru með umboð almennings. Stjórnmálaaflið RÚV er án umboðs og algerlega ábyrgðarlaust gagnvart almenningi.

Í stað þess að horfast í augu við veruleika RSK-sakamálsins eru viðbrögð yfirstjórnar RÚV flótti, feluleikur og afneitun. Forherðingin viðheldur ómenningunni. Glæpaleiti verður réttnefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragna Birgisdóttir

Hver stal síma Páls Steingrímssonar?

Ragna Birgisdóttir, 23.8.2022 kl. 14:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband