Sunnudagur, 21. ágúst 2022
RSK-sakamálið: brotaþolum fjölgar
Páll skipstjóri Steingrímsson er ekki eini brotaþolinn í RSK-sakamálinu þar sem blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans eru sakborningar. Tilfallandi athugasemdir geta staðfest að a.m.k. einn annar einstaklingur en skipstjórinn er með stöðu brotaþola í sakmálinu.
Páli var byrluð ólyfjan 3. maí í fyrra. Á meðan hann lá á gjörgæslu var síma hans stolið og innihaldið afritað á Efstaleiti, höfuðstöðvum RÚV. Símanum var skilað á sjúkrabeð Páls. Efni úr símanum birtist 21. maí í Stundinni og Kjarnanum.
Í greinargerð lögreglu frá 23. febrúar sl. segir að rannsóknin beinist að gagnastuldi, líkamsárás með byrlun, friðhelgisbroti og stafrænu kynferðisofbeldi.
Blaðamenn RSK-miðla sendu á milli sín einkagögn úr síma Páls þegar þeir lögðu á ráðin með að knýja hann til að falla frá kæru sem hann lagði fram 14. maí í fyrra, viku áður en Stundin og Kjarninn birtu fréttir unnar upp úr einkagögnum skipstjórans.
Óþekkti brotaþolinn var í samskiptum við Pál. Gögn um þau samskipti hafa blaðamenn RSK-miðla sent sín á milli og e.t.v. til fleiri aðila. Gögn lögreglu, sem verða lögð fyrir dóm, gætu sýnt að blaðamennirnir hafi ætlað að niðurlægja viðkomandi opinberlega með því að leka einkamálum til annarra, t.d. fjölmiðla.
Þegar Páll kærði byrlun og gagnastuld til lögreglu afhenti hann síma sinn. Staðsetningarbúnaður símans sýndi hvar tækið var á meðan það var í þjófahöndum. Þá var smitrakningarforrit í símanum er gaf upplýsingar um þá síma er nálægir voru snjallsíma Páls þann tíma sem blaðamenn handléku tólið. Á þessum grunni fékk lögreglan heimild til að hlera síma grunaðra blaðamanna.
Lögreglan safnaði gögnum sl. sumar og fram á haust. Fyrstu yfirheyrslur voru í október. Þann 14. febrúar var a.m.k. fjórum blaðamönnum tilkynnt að þeir hefðu stöðu sakborninga og boðaðir í yfirheyrslu. Einn blaðamannanna, Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni, kærði til dómstóla að hann hefði fengið boðun í yfirheyrslu. Málið fór bæði fyrir héraðsdóm og landsrétt en hæstiréttur vísaði málinu frá. Blaðamennirnir gerðu með sér samkomulag um að einhver þeirra skyldi hverju sinni vera í útlöndum síðvetrar og fram á sumar til að tefja rannsókn málsins.
Á bakvið tjöldin reyndu RSK-miðlar og lögmenn þeirra að fá lögreglurannsóknina fellda niður. Í því skyni var m.a. haft samband við stjórnmálamenn og þeir beðnir að beita sér í málinu.
Um verslunarmannahelgina var útséð með tilraunir að hefta framgang réttvísinnar. Blaðamenn RSK-miðla mættu til lögreglu í byrjun ágúst. Í beinu framhaldi var Páli skipstjóra skipaður réttargæslumaður.
Saksóknari mun gefa út ákæru á hendur blaðamönnum RSK-miðla, líklega í september. Sennilegt er að Páll og e.t.v. óþekkti brotaþolinn muni höfða mál og krefjast miska- og skaðabóta.
Nær ekkert af ofansögðum fréttum birtist í fjölmiðlum. Þar starfa blaðamenn í anda samtryggingar. Yngsti fjölmiðillinn, Fréttin, er undantekningin sem sannar regluna. Í fjölmiðlum er ekkert misjafnt sagt um blaðamenn, þótt þeir séu sakborningar í alvarlegu sakamáli. Samt á svo að heita að blaðamenn og fjölmiðlar séu lýðræðinu mikilvægir. Hljóð og mynd fara ekki saman.
Athugasemdir
Það sem gerir þetta mál enn ógeðfelldara er eð fólkið sem nú hefur stöðu sakbornings er almennt talið fyrirmyndar fólk. Einn sakborninga þótti um tíma líklegur til að verða forseti Íslands. Aðferðafræðin sem þau beittu þykir þó minna frekar á vinnubrögð í undirheimum.
Ragnhildur Kolka, 21.8.2022 kl. 11:50
Hver stal síma Páls Steingrímssonar?
Ragna Birgisdóttir, 21.8.2022 kl. 12:31
Takk fyrir Páll að halda þessum fréttum á lofti.
Held meira að segja að helstu glæpasögu höfundar á Íslandi
dytti ekki þessi flétta í hug.
En ef þetta hefði verið litli Jón og litla Gunna
væri þetta á forsíðum blaða alla daga.
Sigurður Kristján Hjaltested, 21.8.2022 kl. 13:42
Voru upplýsingar úr smitrakningarforriti notaðar til að rekja ferðir fólks og farsíma vegna lögreglurannsóknar?
Þegar smitrakningarforritið var upphaflega kynnt fylgdu því hástemmd loforð um að ekkert væri að óttast, upplýsingar úr því yrðu aldrei notaðar til annars en smitrakningar og alls ekki til neins annars eftirlits með hegðun og háttsemi almennra borgara.
Þegar við sem höfum heilbrigða tortryggni gaggnvart sífelldri viðleitni stjórnvalda til eftirlits með almennum borgurum viðruðum efasemdir, vorum við samstundis úthrópuð sem samsæringar, álhattar, bendluð við svokallaða "andstæðinga" bóluefna og ýmislegt fleira ljótt sagt um okkur.
Núna eru upplýsingar úr smitrakningarforritinu orðnar andlag rannsóknar lögreglu á sakamáli sem er alls ótengt smitrakningu.
Við sem höfðum rétt fyrir okkur bíðum eftir afsökunarbeiðni.
Guðmundur Ásgeirsson, 21.8.2022 kl. 17:17
Annað þessu tengt:
Þegar smitrakningarforritið var kynnt var því líka haldið fram að það geymdi engar rekjanlegar upplýsingar um aðra síma sem hefðu komið nálægt, þær væru dulkóðaðar svo ekki væri hægt að tengja þær við einstaka notendur.
Ef það er hins vegar rétt sem pistlahöfundur heldur fram, að hægt hafi verið að nota upplýsingar úr forritinu til að tengja þær við nafngreinda einstaklinga, er ljóst að ofangreint loforð var haugalygi.
Hér er því tölvuöryggis og persónuverndar- ráðlegging:
Ef þið hafið einhverntíma gleypt við ofangreindum lygum og látið gabbast til að setja upp smitrakningarforrit á símunum ykkar, væri skynsamlegast að eyða því nú þegar ásamt öllum gögnum sem það hefur safnað.
Guðmundur Ásgeirsson, 21.8.2022 kl. 17:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.