Föstudagur, 5. ágúst 2022
Slit Evrópufriðar, Stoltenberg og Pútín
Pútín forseti réðst á saklausa þjóð til að ná pólitískum markmiðum. Hann skorar á hólm heiminn sem við trúum á, að öll ríki, stór og smá, eigi rétt á að velja sér félagsskap og bandalög, sagði Jens Stoltenberg aðalritari Nató á fundi í Útey í Noregi í gær.
Stoltenberg túlkar hér afstöðu helstu valdablokka vesturlanda til Úkraínustríðsins.
Talsmaður Pútín forseta, Dmitry Peskov, brást við ræðu norska aðalritarans og sagði að vesturlönd hefðu í reynd slitið friðnum 2014 með stjórnarbyltingu í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu. Í Kænugarði situr leppstjórn vesturlanda. Þetta er rússneska línan.
Mælikvarði á málstað er hversu mikið þarf að ýkja, fella burt og sópa undir teppið til að frásögnin um réttmæti málstaðarins haldi vatni.
Stoltenberg flutti ræðuna á norsku og notar orðið ,,fellesskap", félagsskap, um Nató. Það er fallegt orð um vopnavald.
Eftir lok kalda stríðsins hefur nær öllum ríkjum og skjólstæðingum fyrrum Sovétríkja verið boðin aðild að Nató. Nema Rússum. Ef félagsskapurinn væri leikskóli yrði þetta talið skýrt dæmi um grimmt einelti.
Hernaðarbandalag er samkvæmt skilgreiningu félagsskapur um hernaðarmátt. Hernaður er stjórnmál með valdi, eins og Stoltenberg viðurkennir, og endurómar 200 ára gamla kenningu Clausewitz. Hverjir í Evrópu sættu pólitískum hótunum um að verða fyrir hernaðarmætti Nató? Eingöngu Rússar.
Með Úkraínu sem Nató-ríki yrðu Rússum allar bjargir bannaðar brytist út stríð milli Nató og Rússlands. Yfirþyrmandi hernaðarmáttur Nató á vesturlandamærum Rússlands gerði ómögulegt að verjast innrás. Rússar eru læsir á sögu og vita að Napoleón ráðst á þá snemma á 19. öld og Hitler skömmu fyrir miðja 20. öld. Varnir í vestri eru Rússum mikilvægar.
Í stuttu máli: Úkraínustríðið var undirbúið í Washington og Brussel en hrint í framkvæmd af Pútín Kremlarbónda.
Pútín virðist með hernaðarpólitíska áætlun, að hirða nægt land af Úkraínu til að ríkið sem stendur eftir ógni ekki öryggishagsmunum Rússlands.
Stoltenberg útskýrir áætlun Nató með þeim orðum að Pútín megi ekki vinna stríðið en samt ætla Nató-ríkin ekki að leggja til hermenn. Þá sé mikilvægt að stríðið breiðist ekki út til annarra landa. Það liggur í orðum Norðmannsins að vesturveldin ætlist til að Úkraínumenn verði fallbyssufóður.
Útey, þar sem Stoltenberg flutti ræðu sína, er vettvangur hryllilegs glæps Anders Behring Breivik sem myrti þar 69 manns með köldu blóði fyrir ellefu árum. Stoltenberg hefði mátt flytja mannúðlegri boðskap en þann að úkraínsk ungmenni eigi að deyja fyrir vöxt og viðgang Nató.
Athugasemdir
God grein. Takk Påll.
Ólafur Árni Thorarensen, 5.8.2022 kl. 12:57
Ef skoðaður er ferill Nato þá lítur út fyrir að þetta varnarsamstarf hafi breyst einhvers staðar á leiðinni í hryðjuverkasamtök. Úkraínustríðið hefði aldrei átt að eiga sér stað án þess að samningar hefðu verið þrautreyndir. Ég varð ekki var við neinar viðræður. Pútín safnaði saman hernum á landamærunum og beið eftir að einhverjir vildu tala við hann sem bara gerðist ekki.
Það hljóta allir með eitthvað á milli eyrnanna að sjá að þetta var nauðvörn hjá Rússum að ráðast inn í Úkraínu. Þetta stríð er alfarið á ábyrgð vesturlanda.
Kristinn Bjarnason, 5.8.2022 kl. 13:11
Einmitt,í valdatíð Trumps minnti hann Þjóðverja oft á að þeir borguðu ekkert í varnarsamtök Nató. Eina þjóðin í Evrópu sem sætti hótunum um að verð fyrir
hernaðarmætti(hernaðarbandalags Nató) voru Rússar,segir í pistli Páls. Hvað gerðist við USA-forsetaskiptin. -- En af þessu tilefni hefði ræða Stoltenberg,s að mínum dómi mátt sleppa öllu í ræðu sinni utan samúðar til ættingja og norsku þjóðarinnar.
Helga Kristjánsdóttir, 5.8.2022 kl. 16:30
það líður varla á löngu að NATO (BNA, heimspressan og ÞKRG) segi skilið við Zelensky og Úkraínu. CIA hefur gefið veiðileyfið og NYT og Amnesty bitu strax á agnið. AI skýrslan segir Úkraínumenn hafa falið vopn og hermenn ínnan um almenna íbúabyggð. þetta hefur lengi verið vitað en ekki fyrr en NYT og AI segja það hefur heimspressan mátt taka undir. Fljótlega fer þá að falla á geislabaug dýrlingsins.
Ragnhildur Kolka, 5.8.2022 kl. 19:34
Þú ert alveg einstakur Páll. Skrifar margar góðar gr3inar, ekki síst um réttlæti og sjálfstæði til orða og verka.
Síðan, rétt eins og skrattinn úr sauðaleggnum, stekkur þú á vagn harðstjóra og einræðisherra og flytur hans mál af miklum móð. Hvað skeði?
Sögutúlkun Pútíns um að vesturlönd hafi staðið að stjórnarskiptum í Úkraínu, árið 2014 er röng. Það eru ekki nema átta ár síðan úkraínska þjóðin fékk sig fullsadda af leppstjórn Rússa í landi sínu og þeirri spillingu sem henni fylgdi. Því var gerð uppreisn gegn þeirri leppstjórn. Þetta vita þeir sem muna einn áratug aftur í tímann og þetta vita þeir sem hafa rætt við Úkraínumenn, ekki síst þá sem eru af rússnesku bergi brotnir.
Hinu átta ég mig ekki á í þínum pistli hvernig Rússar hafi verið ásóttir af NATO síðastliðin 200 ár! Þetta er algjörlega ný fræði fyrir mér og reyndar óskiljanleg.
Kveðja með von um bata
Gunnar Heiðarsson, 6.8.2022 kl. 06:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.