Fimmtudagur, 28. júlí 2022
Ekkert Úkraínustríð væri Trump forseti
Pútin hefði ekki ráðist á Úkraínu ef Trump hefði verið forseti, segir skoski sagnfræðingurinn Njáll Ferguson. Njáll er eini núlifandi sagnfræðingurinn sem er alþjóðleg stórstjarna, kennir í Harvard og er gestafyrirlesari í elítuháskólum.
Í viðtali í Die Welt vitnar Njáll í samtal Trump og golfarans John Daly, sem er skrautlegur maður líkt og forsetinn fyrrverandi. Símtalið er frá byrjun mars. Trump segir efnislega að honum hafi líkað vel við Pútín en samt sagt honum: Valdi minn, ef þú ræðst á Úkraínu sendi ég kjarnorkusprengju á Moskvu. Trump segir í framhaldi við Daly: Pútín trúði mér 5 prósent, kannski tíu prósent, en það er nóg.
Þannig vill til að þessi hluti símtalsins er á youtube. Þar sýpur drykkfelldi kylfingurinn á guðaveigum og spjallar við bindindismanninn Trump. Forsetinn fyrrverandi segir tilvitnuð orð.
,,Ég er þeirrar skoðunar," segir skoski sagnfræðingurinn í viðtalinu við Die Welt, ,,að ef Trump hefði náð endurkjöri sem forseti hefði Pútín líklega haldið að sér höndum í Úkraínu."
Njáll sagnfræðingur er enginn aðdáandi Trump, finnur honum flest til foráttu. En segir samt að Trump væri til muna líklegri að ráða við heimsmálin en vafagemsinn Biden er kunni fátt og geti enn minna.
Saga í viðtengingarhætti er vitanlega ágiskun. Hvað ef Hitler hefði ekki fæðst? En skoðun sagnfræðingsins er áhugaverður vitnisburður um hvernig alþjóðaelítan greinir Úkraínustríðið.
Njáll er ekki stuðningsmaður Pútín - en segir að Rússar muni sigra. Tækifærið til að binda endi á átökin var í upphafi stríðs þegar Rússum gekk illa. Nú standa leikar þannig að Rússar eru á sigurbraut. Vesturlöndum er farið að leiðast að halda Kænugarðsstjórninni á floti með fjármagni og vopnum. Án vestræns stuðnings er Úkraína búin að vera.
Trump snúinn aftur til Washington | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Með þessum hefðbundna (og stundum skemmtilega) digurbarka
meinti Trump (kannski) að hann væri til viðtals um áhyggjur
Rússa.
Baldur Gunnarsson, 28.7.2022 kl. 20:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.