Blóðþyrstir fræðimenn, takmörk kennivalds

Nokkrir blóðþyrstir fræðimenn vestrænir krefjast sigurs á vígvellinum yfir Rússum. Pútín er af sama sauðahúsi og Hitler, segja þeir, ekkert nema hrátt ofbeldið stöðvar hann.

Yfirlýsing fræðimannanna er birt í góðborgaralegri þýskri útgáfu, Die Welt, sem andsvar við ákalli annarra fræði- og listamanna um vopnahlé í Úkraínu og birtist í Die Zeit.

Fræðimenn hafa kennivald, sem kallað er, mismikið eftir efnunum og ástæðum. Kennivald býr í menningunni, er einkum miðlað með orðum . Hervald, á hinn bóginn, er hrátt ofbeldi og lætur sig menningu engu skipta; tjáir sig með dauða og tortímingu.

Í kalda stríðinu, 1945-1991, háðu tvenn hugmyndakerfi baráttu um kennivaldið, með ákveðnum greini, á heimsvísu. Borgaralegur kapítalismi annars vegar og hins vegar sósíalismi/kommúnismi. Borgaralegur kapítalismi sigraði með falli Sovétríkjanna.

Vestrænt kennivald freistaði þess, eftir sigurinn í kalda stríðinu, að móta heiminn í sinni mynd, fyrst Austur-Evrópu. Í alþjóðastjórnmálum er hugtakið mjúkt vald (soft power) notað um kennivald þegar það er blandað efnahagshagsmunum.

Með þessari blöndu sigruðu vesturlönd Austur-Evrópu sem allt kalda stríðið var áhrifasvæði Sovétríkjanna/Rússlands. Varsjárbandalagið var lagt niður en Nató óx og dafnaði. 

Ráðandi vestræn ríki, Bandaríkin, Þýskaland og Frakkland, lögðu mjúklega undir sig Pólland, Eystrasaltslöndin, Ungverjaland, Rúmeníu og Búlgaríu. Ríki Balkanskaga komu í humátt á eftir, þegar þau höfðu jafnað sig á Júgóslavíustríðunum. Með vestrænu forræði komu stofnanir, ESB og Nató, er mótuðu ramma og regluverk kennivaldsins.

Rússland stóð eftir, utan vestræns kennivalds og gekk ekki vestrænum stofnunum á hönd. Tilgátur og túlkanir eru um hvers vegna sú varð raunin, en látum þær liggja á milli hluta.

Gömul lýðveldi Sovétríkjanna, t.d. Úkraína og Georgía, höfðu, ekki frekar en Rússland, gengist undir vestrænt kennivald þegar Pútín forseta Rússlands var boðið 2007 að ávarpa öryggisráðstefnuna í Munchen, Þýskalandi. Þar afþakkaði forsetinn pólitíska leiðsögn vesturlanda, sem hann kenndi við einpóla heim er fengi ekki staðist til lengdar. Pútín bauð upp á samtal í anda jafnræðis, þar sem undir væru öryggishagsmunir, afvopnun, efnahagsmál og pólitískur stöðugleiki.

Vestræna kennivaldið lét andmæli forseta Rússlands sem vind um eyru þjóta. Á Nató-fundi í Búkarest, Rúmeníu, nokkrum mánuðum eftir ávarp Pútín í Munchen var bæði Georgíu og Úkraínu boðin aðild að Nató. Rússar brugðust hart við, réðust inn í Georgíu sumarið 2008 og höfðu betur á nokkrum dögum frekar en vikum.

Tapað Georgíustríð hamlaði ekki framrás vestræna kennivaldsins. Stjórnarbyltingin í Úkraínu 2014, hertaka Rússa á Krímskaga og stuðningur við uppreisn í Donbass ekki heldur.

Vestræna kennivaldið steytti á skeri 24. febrúar í ár þegar Rússar hófu hernað eftir að hafa verið sniðgengnir um samtal í 15 ár - frá öryggisráðstefnunni í Munchen að telja.

Vestrænu blóðþyrstu fræðimennirnir sem krefjast sigurs á vígvellinum yfir Rússum viðurkenna, óbeint að vísu, sannleika í alþjóðsamskiptum allt frá dögum Forn-Grikkja. Kennivald getur aðeins sannfært hlustir sem vilja heyra. Sannfæringarmáttur kennivalds án vopna er takmarkaður. 

Vesturlönd höfnuðu samtali 2007-2022. Það stóð alltf til að láta sverfa til stáls. Nató byggði upp úkraínuher frá 2014, eftir stjórnarbyltinguna sem var gerð með vestrænum stuðningi.

Úkraínu er fórnað fyrir framgang vestræns kennivalds. Blóðþyrstu kennimennirnir vilja berjast til síðasta Úkraínumannsins. Að hætti heimsendaspámanna boða þeir ragnarök falli Úkraína. Næst á rússneskum matseðli séu Eystrasaltsríkin og Pólland.

Svo eru til fræðimenn, sem ekki líta á sig sem boðbera fagnaðarerindis. Einn þeirra er sagnfræðingurinn Christopher Clark, höfundur Svefngengla, sem útskýrir á sannfærandi hátt ástæður fyrra stríðs. ,,Pútín er ekki Hitler," segir sagnfræðingurinn og hvetur til yfirvegunar, samtals.

Á sléttum Garðaríkis er háð staðgenglastríð. Vestrið fórnar slavnesku blóði fyrir kennivald sem fær ekki áheyrn í austrinu. Kennivaldið hafði alltaf á bakvið sig Nató, sem hvorki er skátafélag né saumaklúbbur, heldur hernaðarbandalag.  

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Árni Thorarensen

Takk Pall.  Ønnur god grein sem eg er því miður algjörlega sammála. Kalda stríðinu lauk fyrir tilstuðlan Gorbasjov og Rússa fyrir tugum árum síðan. Merkilegt að vestrið hafi ekki náð a þessum tíma að efla og hafa goð samskipti við Þá. Mer finnst við hafa staðið okkur virkilega illa og skil vel áhyggjur 

Russa av útþenslu stefnu Nato.  Hefðum við brugðist öðruvísi við ef hernaðarleg útþensla hefði öll verið af hendi Rússa?  Eg veit það ekki.

Ólafur Árni Thorarensen, 16.7.2022 kl. 20:52

2 Smámynd: Gunnlaugur Hólm Sigurðsson

Rússar gerðu innrás í fullvalda ríki og það á að svara því með öllum ráðum! Að réttlæta gerðir Rússa er það sama og að afneita sjálfstæði Íslands. 

Gunnlaugur Hólm Sigurðsson, 17.7.2022 kl. 06:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband