Þriðjudagur, 29. mars 2022
Vestur-Evrópa skammast sín fyrir Biden
Nýlenduveldi Evrópu komu sér upp leppstjórnum í þriðja heiminum á 18. öld, t.d. Bretar á Índlandi. Fram eftir 20. öld, þegar nýlendustefnan var komin í ónáð, voru þvinguð stjórnarskipti, t.d. í Chile 1973, réttlætt með kalda stríðinu, baráttu borgaralegs lýðræðis gegn kommúnisma/sósíalisma. Þegar Hussein forseta Írak og stjórn hans var steypt af stóli 2003 voru rökin ,,stríð gegn hryðjuverkum".
Þegar Biden Bandaríkjaforseti kallar Pútín starfsbróður sinn í Rússlandi ,,fjöldamorðingja" og ,,slátrara" er rökrétt að krefjast þess að Pútín láti af völdum með góðu eða illu. Látið var að því liggja að um mismæli Bandaríkjaforseta væri að ræða. Nei, segir Alexander Mercouris, krafan um stjórnarskipti í Rússlandi er rauður þráður í ræðunni. Lokaorðin eru niðurstaða þess sem á undan var sagt. Biden kemur sjálfur í kjölfarið og staðhæfir að hann vilji Pútín á braut. Washington skal ráða hver situr Moskvu.
Vestræn ríki sem krefjast stjórnarskipta í langt-í-burtu-ríkjum setja sig á háan hest. Viðhorfið er, að breyttu breytanda, sama og í ljóði Rudyard Kipling um byrði hvíta mannsins. Efnislega segir Kipling að aðrir en hvítir vestrænir séu til helminga villimenn og börn. Sögulegt hlutverk vestrænna þjóða sé að koma skikki á bernsku villimennina sem byggja heiminn utan Vestur-Evrópu og Ameríku. Breski sagnfræðingurinn David Starkey ræðir framlag Biden í samhengi við vestrænan hroka samtímans. Rússar eru á sigurbraut í hugmyndabaráttunni, segir sá breski.
Evrópuríki eru næmari á blæbrigði sögunnar en valdaelítan í Bandaríkjunum. Valdamenn í Evrópu hrukku í kút við orð Biden um stjórnarskipti í Rússlandi. Evrópskir þvo hendur sínar af leiðtoga hins frjálsa heims.
En skaðinn er skeður. Alþjóð utan vesturlanda lítur á Úkraínudeiluna, eftir ummæli Biden, sem heimsvaldastríð Bandaríkjanna og Nató gegn þeim ekki-vestrænu. Það er óvart um 75 prósent heimsbyggðarinnar.
Eins og kerlingin sagði, tvennt verður ekki aftur tekið, tapaður meydómur og töluð orð.
Athugasemdir
Ef Pútín hrykki úr skaftinu þá er næsta víst að Rússar drægu sig til baka úr þessu fáránlega Úkraínustríði sínu.
Ósjaldan hefur í sögunni verið eins ljóst að aðeins einum manni er um að kenna.
Að telja Rússa á einhverri sigurbraut í þessu stríði eða móralskt gagnvart Evrópu er alveg óvanalega langt um seilst, eiginlega bara súrealísk nálgun á veruleikann.
Ja misjafnlega hamparðu eiturbyrlurum Páll!
Bjarni Gunnlaugur Bjarnason, 29.3.2022 kl. 09:07
Þú leggur semsagt að jöfnu Páll, orð eins við hernaðarlegar aðgerðir annars. Nokkuð undarlegt mat!
Gunnar Heiðarsson, 29.3.2022 kl. 23:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.