Meðvirkir fjölmiðlar spyrja ekki um glæp

Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður hætti skyndilega á RÚV föstudaginn 30. apríl sl. Sama dag tilkynnti Stundin að Aðalsteinn væri mættur til leiks. Þetta er 4 dögum áður en eitrað var fyrir Páli skipstjóra. Hvers vegna spyr enginn Aðalstein um þessi snöggu vistaskipti?

Aðalsteinn á Stundinni og Þórður Snær á Kjarnanum birtu fréttir upp úr stolnum síma Páls skipstjóra sama morguninn, þann 21. maí. Hvers vegna spyr enginn Aðalstein og Þórð Snæ um þessa samræmdu tímasetningu? Stundin og Kjarninn eiga að heita sjálfstæðir fjölmiðlar og fá út á það ríkisstyrk. Augljóst er að einhver þriðji aðili stýrir báðum miðlunum. Miðstýringin er svo ítarleg og nákvæm að daginn fyrir birtingu stolnu gagnanna hringdu félagarnir, Aðalsteinn og Þórður Snær, með tíu mín. millibili í Pál skipstjóra. Hvers vegna eru þeir félagar ekki þýfgaðir um þessi atriði?

Þórður Snær, sem er eigandi og ritstjóri Kjarnans, segir allt í lagi að fjölmiðlar hagnist á glæpum. Hvers vegna er hann ekki spurður út í fullyrðinguna? Telja blaða- og fréttamenn sig hafa rétt að stuðla að glæpum og hafa ábata af þeim? Hvað segir formaður Blaðamannafélagsins?

Vitað er að Helgi Seljan kærði nafngreindan mann til lögreglunnar fyrir að elta sig. Maðurinn var úti á rúmsjó, á togara, þegar hann átti að vera elta fréttamanninn. Hvers vegna er Helgi Seljan ekki spurður um niðurstöðu lögreglurannsóknarinnar? 

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra staðfesti lögreglurannsókn á eitrun og gagnastuldi frá Páli skipstjóra þann 19. nóvember. Heil glás af fréttamönnum hættir á RÚV í haust. Hvers vegna spyrja fjölmiðlar ekki Stefán útvarpsstjóra og RÚV-ara á flótta um samhengið þarna á milli?

Hvers vegna er ekki spurt um ársgamla falsfrétt RÚV sem nafngreinir 3 Íslendinga og segir þá ákærða í Namibíu? Enginn Íslendingur og engin íslensk fyrirtæki voru ákærð. En RÚV lætur falsfréttina standa. Eru falsfréttir réttlættar í siðareglum RÚV?

Svarið við spurningunum hér að ofan er að fjölmiðlar eru meðvirkir. Þrír fjölmiðlar RÚV, Kjarninn og Stundin tengjast alvarlegum glæp. Vinir og kunningjar á öðrum fjölmiðlum þegja í meðvirkri samstöðu.

Í þessari viku var stórt fréttamál, á RÚV og víðar, að skipstjóri Herjólfs endurnýjaði ekki réttindi sín í tæka tíð og sigldi einhverjar ferðir til og frá landi réttindalaus. Ítarlegar fréttir voru sagðar af málinu og menn kallaðir í þriðju gráðu yfirheyrslu fréttamanna vegna atviksins.

Þegar miklu alvarlegra mál, eitrun og stuldur, kemur upp skríður samanlögð blaðamannastétt landsins undir stein og þykist ekkert vita, skilja eða heyra. Það er aumur tilfallandi bloggari sem heldur málinu lifandi. Þetta er fáheyrð frammistaða fjölmiðla heillar þjóðar.

Almenningur hlýtur að spyrja sig til hvers er að halda uppi fjölmiðlum sem skipulega hylma yfir glæpi og siðleysi blaðamanna. Varðmenn almannahags liggja út í móa í fósturstellingum og sjúga þumalinn. Blaðamannastéttin í heild sinni er brandari. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Blaðamannastéttin lætur sem hún hvorki geti né vilji skilja alvarleika málsins.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 27.1.2022 kl. 07:30

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Páll.

Hér er kutinn víða brýndur svo seinna meir verður hægt að vitna í þennan pistil sem beittan.

En það er sagt að oflof sé oft á grein hæðninnar, en hvað kallast það að smækka sjálfan sig??

"Það er aumur tilfallandi bloggari sem heldur málinu lifandi".

Sjaldnast er kvartað yfir þeim sem ná ekki að rísa upp yfir flatneskju meðalmennskunnar.  Mér sýnist að jafnvel þessir pistlar þínir hafi náð að vekja gamlan samfylkingarmann af Þyrnirósasvefni sínum, það þarf mikla skyldu til að sofandi menn rumski og taki til varna.

Sjálfur kannast ég við að skammast þegar mér mislíkar, manni mislíkar ekki við auman tilfallandi bloggara, en kannski Tilfallandi athugasemdir.

Það fyndna er að staðreyndir málsins liggja fyrir, þær eru alvarlegar, og þær á að þegja í hel.

Þá er það þetta með Tilfallandi athugasemdir, neyðarráðið er að skíta þær út.

Ekkert aumt við það, það er að segja, menn skíta ekki út það sem aumt er, það er fullfært um það sjálft.

En ég held að þú hafir alveg getað brýnt hnífana í saltfisknum í gamla daga Páll, góðir brýnarar eru alltaf auðþekktir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 27.1.2022 kl. 19:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband