Miðvikudagur, 26. janúar 2022
Ísland: spilltustu fjölmiðlar í Evrópu
Á Íslandi eru spilltustu fjölmiðlar í Evrópu, jafnvel þótt víðar væri leitað. Ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær, býr að vitneskju um spillinguna og hefur af henni ábata. En hann notar smjörklípu til að draga athyglina frá ósómanum.
Þórður Snær situr á upplýsingum um eitrun og gagnastuld frá Páli skipstjóra Steingrímssyni. Ritstjórinn viðurkennir vitneskju um glæpinn. Hlutverk blaðamanna er að upplýsa. En ekki í blaðamannaheimi Þórðar Snæs. Þar er hlutverk blaðamannsins að hylma yfir og gott betur; sýna brotaþola sem geranda og hvítþvo illræðismenn.
Þrír fjölmiðlar RÚV, Kjarninn og Stundin eiga aðild að glæpnum, ýmist sem skipuleggjendur eða þjófsnautar. Fjölmiðlarnir þrír stunduðu samræmdar aðgerðir er fólu í sér eitrun, gagnastuld og birtingu á stolnum gögnum. Það liggur fyrir og þarf ekki lögreglurannsókn til. Lögreglurannsókn mun aftur sakbenda á einstaklinga er áttu í hlut. Þar verða blaðamenn afhjúpaðir sem afbrotamenn. Allt er þetta vitað. Á Glæpaleiti standa yfir meiri mannabreytingar en í háa herrans tíð. Stormur er í aðsigi.
Í stað þess að upplýsa almenning um alvarlega glæpi og spillingu reiðir Þórður Snær fram smjörklípu frá Pírötum. Ísland er spillt, segir Þórður Snær, af því að Páll skipstjóri og samstarfsfélagi hans hjá Samherja báru blak af fyrirtækinu. Samherji, vel að merkja, hefur ekki verið ákærður fyrir eitt eða neitt, hvorki hér eða í Namibíu. Ritstjóri Kjarnans sér flísina í auga Páls skipstjóra en ekki bjálkann í eigin auga.
Þórður Snær er gangandi auglýsing fyrir ósvífnustu gerð blaðamanna. Þeirra sem telja almenningi trú um að hvítt sé svart og svart hvítt. Eintök eins og Þórður Snær munu alltaf finnast. Verra er að meira og minna öll blaðamannastéttin þegir með Dodda.
Spilling fjölmiðla vex og dafnar en það heyrist hvorki hósti né stuna. Jú, afsakið, alþingi Íslendinga samþykkti ríkisstyrki til spilltustu fjölmiðla Evrópu. Það er álíka og ríkið skaffaði innbrotsþjófum verkfæri.
Þegar lögreglurannsókn á máli Páls skipstjóra lýkur loksins, loksins eiga samanlagðir fjölmiðlar landsins almenningi ýmsu ósvarað. Fjölmiðlar sem starfa í þágu lögbrjóta í röðum blaðamanna eru ekki á vetur setjandi. Enn síður á fjárlög.
Athugasemdir
Algjörlega sammála.
Þessir ríkisstyrkir áttu aldrei að verða til.
Enda ávísun á meiri spillingu.
Sigurður Kristján Hjaltested, 26.1.2022 kl. 09:33
Einföld spurning til höfundar: Er Julian Assange spilltur blaðamaður ?
Sigfús Ómar Höskuldsson, 26.1.2022 kl. 11:24
Geturðu giskað á hvenær lögreglurannsókn á máli Páls lýkur?
Hversvegna ríkir nær alger þögn um málið?
Heimir Lárusson Fjeldsted, 26.1.2022 kl. 11:54
Lögreglan heldur þétt að sér spilunum í þessu máli, Heimir. Eftir því sem ég kemst næst tók rannsóknin nýja vendingu mánaðarmótin okt./nóv. Þessi vending kallaði á frekari vinnu, sem dregur málið. Tilfinning mín er að nú styttist í niðurstöður. Ég giska fyrir 10. feb.
Páll Vilhjálmsson, 26.1.2022 kl. 12:04
Heimir- Hollt og gott að sjá þig hér tjá þig um ávirðingar höfundar.
Sá nebblega til þín gerandi athugasemdir um sambærilega ávirðingar á hendur þekkts lyfsala hér í borg, þar vildir þú fá skýr svör um staðfestingu þeirra ávirðinga og spurðir um heimldir.
Leikur svo annan leik hér og hoppar á svívirðingavagn höfundar.
Er þá ekki sama hver er ?
Sigfús Ómar Höskuldsson, 26.1.2022 kl. 12:21
Sigfús! Er færsla þín bara ávirðing um meinta ávirðingu Heimis? Sjaldan eins greinileg líkindi og "að fara í manninn ekki boltann".
Helga Kristjánsdóttir, 26.1.2022 kl. 18:21
Alltaf þarf að gera eitthvað fyrir Dodda, fyrst vantaði honum skúbb svo pening hvoru tveggja var reddað, hvað verður næst?
NonniV, 26.1.2022 kl. 18:37
Ég giska á 9.febrúar kl. 10.45
Gunnar Hólmsteinn Ársælsson, 26.1.2022 kl. 19:13
Helga, líkt og ég hef hvatt höfund hér ítrekað að koma fram með sínar heimildir og/eða beint okkur til þess aðila sem veitir höfundi þær upplýsingar sem hann telur sig hafa undir höndum um "meinta" rannsókn. Auðvitað án árangurs.
Það sama ætti þá mjólkufræðingurinn Heimir að gera, hann spyr um heimildir v/ alvarlegra ásakanna v/ lyfsala hér í borg en efast einskis þegar höfundur hér veður á súðum.
Það er ekki að fara í "manninn", það er biðja menn, Heimi og höfund um að gæta samræmis. Það er nefnilega til nafn yfir þá sem gera það ekki.
P.S Höfundur góður, enn er ósvarað hér hvort höfundur meti ritstjórann og blaðamanninn Julian Assange sem spilltan blaðamann.
Sigfús Ómar Höskuldsson, 26.1.2022 kl. 19:45
Sigfús finnst þér þá að það eigi það sama gilda um Stundina, Kjarnann og RÚV? Að þessir aðilar staðfesti ávirðingar sínar og upplýsi um heimildir og hvernig þessar heimildir voru fengnar?
Stefán Örn Valdimarsson, 26.1.2022 kl. 20:13
Það sem ég vil er ekki það sama og ég fæ.
Ég veit að blaðamenn gefa ekki upp sína heimildarmenn, þó svo að ég vildi stundum að þannig væri.
Ég veit líka ef ég fengi það sem ég vildi, kæmust sum mál ekki í hámæli, því þá færu upplýsíngar eða vitneskja ekki af stað og enduðu í fréttum.
Það að blaðamenn viti af e-u, hafi upplýsingar um e-ð, mögulega um mál sem kunna varða við lög, gera þá ekki endilega að glæpamönnum, þó svo að höfundur telji svo og telli sig vera betri [les: Góða fólkið}.
Því hef ég spurt höfund ítrekað um álit hans á Julian Assange sem virðist þurfa þjást fyrir það að hafa frætt okkur mörg um misgjörðir Bandaríska hersins í Írak.
Að mínu viti er téður Julian ekki sá glæpamaður, né þjófsnautur, sem höfundur kallar nokkra íslenska blaðamenn, ítrekað.
Höfundur er svo að mínu viti sá sami "þjofsnautur" og hann vill saka aðra um, því hann heldur úti hér ítrekuðum skrifum um meinta rannsókn, lögbrot og annað, upplýsingar sem ég né þú sjálfur Stefán Örn fáum upplýsingar um.
Höfundur hefur hinsvegar haldið því fram að þær "heimildir" eða upplýsingar sem hann ber fyrir sig , séu ekki stolnar heldur honum afhentar. Ef það reynist vera rétt, þá ætti höfundi að vera í lófa lagi að greina hvaða hann fær sínar heimildir.
Hvort það sé munur á þeim upplýsingum sem Julian Assange fékk, höfundur, téðir blaðamenn á Kjarna eða RÚV fengu veit ég ekki.
Ég veit það allavega til þess að vera marktækur verður einn að vera samkvæmur sjálfum sér.
Það tel ég hvorki höfund eða kórfélaga hans, Heimi vera.
Sigfús Ómar Höskuldsson, 26.1.2022 kl. 20:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.