Tjáning, kyn og frelsi

Kennarar eiga á hættu ofsóknir ef þeir ræða kynjamál við nemendur sína, segir í frétt Telegraph. Tilefnið er lagafrumvarp á breska þinginu um kynvitund, sem ætlað er að uppræta mismunun.

Snúið mál atarna. Ástæðan er sú að þrennu ólíku er slegið saman; kynhneigð, kynvitund og hvort kynin séu tvö, þrjú, fimm eða seytján.

Til að flækja mál enn frekar eru undir í umræðunni frelsi einstaklingsins annars vegar og hins vegar almenn þekking okkar á veruleikanum.

Fyrst orðabókarskilgreiningar:

a. Kynhneigð snýst um að hvaða kyni fólk laðast. Flestir eru gagnkynhneigðir, sumir samkynhneigðir og einhverjir færri tvíkynhneigðir.

b. Kynvitund er sannfæring um af hvoru kyni fólk er. Sumir vilja segja af hvaða kyni, eins og kynin gætu verið 3, 5, 17 eða 300.

Tiltölulega breið samstaða er um að fólk sé einrátt um kynhneigð sína. Það kemur engum öðrum við en einstaklingnum sjálfum hvort hann sé gagn-, sam- eða tvíkynhneigður. Mannréttindi eru að sérhver hafi rétt til að þjóna sinni hneigð.

Kynvitund er réttindamál í þeim skilningi að ég hef fullkominn rétt til að vera í huga mér Páll fyrir hádegi en Guðrún eftir hádegi. Karl að morgni en kerling að kveldi. Málið verður snúnara ef ég ætlast til þess að samfélagið lagi sig að tvöfaldri kynvitund minni.

Lítilfjörlegt dæmi eru kyngreind salerni. Samfélagið samþykkir ekki að ég noti sem Páll karlasalerni fyrir hádegi en ég sem Guðrún fari á kvennaklóið eftir hádegi. Ókyngreind salerni eru lausn sem mælt er með en erfitt að hrinda í framkvæmd. Ókyngreindir búningsklefar á sundstöðum og íþróttahúsum eru ekki á dagskrá vegna inngróinnar blygðunarsemi kynjanna.

Og það er einmitt heila málið. Kynin eru tvö en ekki þrjú, fimm eða seytján. Þótt ég hafi fullan rétt á að vera í huga mér Páll fyrir hádegi en Guðrún síðdegis þá breytir sá réttur ekki þeirri hlutlægu staðreynd að kynin eru tvö. Einhverjir örfáir, um 0,05%, fæðast með tvíræð kyneinkenni. Stöku einstaklingar telja sig karl í konulíkama og öfugt. En þessir örfáu breyta ekki almennri líffræðilegri staðreynd.

Í Bretlandi sagði þingmaður að kynin væru tvö og óbreytanleg. Hann bætti við: ég fæ haturspóst fyrir að segja þetta upphátt.

Öll þessi vandræði með kynjaumræðuna má rekja til háskóla sem hættu að leita skilnings á heiminum og tóku upp þá kenningu síðmarxista að verkefnið væri að breyta heiminum. Bernska háskólafólks er enn ekki orðin stórvandi á Fróni. Höldum því þannig. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þetta er allt saman rétt hjá þér.

Sitjandi ríkisstjórn íslands virðist mylja undir þennan vitleysisgang

sem að þú ert að segja frá í þinni grein

og einmitt þess vegna styð ég hana ekki:

https://www.althingi.is/lagas/nuna/2019080.html

Jón Þórhallsson, 5.12.2021 kl. 10:24

2 Smámynd: Grímur Kjartansson

Horfum til hvernig ástandið er í Svíþjóð þar sem tíunda hvert barn sem Barnavernd skiptir sér af er vegna trúarlegs kynofbeldis
Þar nægir greinilega ekki að segjast vera strákur til að sleppa

Fler än vart tionde barn som omhändertas är hedersvåldsutsatta | SVT Nyheter

Grímur Kjartansson, 5.12.2021 kl. 18:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband