Sunnudagur, 7. nóvember 2021
Sólveig Anna og dýptin í sósíalismanum
Í uppgjör Sólveigar Önnu við vinnustað sinn, Eflingu, þar sem hún var formaður, segir hún um starfsfólk Eflingar:
þau viðurkenna ekki og skilja þann samfélagslega raunveruleika sem við búum við. Þau viðurkenna ekki og skilja ekki það eignarhald sem auðstéttin hefur á þessu samfélagi og þar með viðurkenna þau og skilja ekki að til þess að ná árangri þá þarf að sýna þrek og þor og hugrekki og kappsemi.
Þetta er þunnur sósíalískur þrettándi hjá Sólveigu Önnu. Samkvæmt vísindalegum sósíalisma Marx er það byltingin ein sem skiptir máli, en ekki mannlegir eiginleikar eins og þrek, þor og kappsemi. Með byltingunni eru framleiðslutækin tekin úr höndum ,,auðstéttarinnar" og færð launþegum, sem Marx kallaði ýmist verkmenn eða öreiga. Sósíalistaævintýrið er að launþegar skapi í framhaldi paradís á jörð.
Tilraunir með sósíalisma í Sovétríkjunum og A-Evrópu á síðustu öld og Venesúela á þessari skiluðu almenningi fátækt og kúgun.
Launþegar hafa það harla gott nú um stundir, betra en nokkru sinni í sögunni. Það er ekki þrátt fyrir kapítalisma og auðstétt heldur einmitt vegna þeirra.
Sósíalismi er ævintýri sem verður að steintrölli um leið og hann hittir fyrir veruleikann. Sólveig Anna segir starfsfólk Eflingar aldrei sett sig inn sósíalísku baráttuna af ,,þeirri dýpt sem þarf til að skilja hana." ,,Dýptin" í ævintýrum er blekkingin.
Ævintýri er eitt en veruleikinn annað. Hversdagsleikinn er blátt áfram en ævintýrin hugarflug um lönd og heima sem hvergi finnast. Börn vaxa úr grasi og læra að aðgreina reynd frá skáldskap. En sumir verða alltaf börn með höfuðið á kafi í ,,dýpt" blekkingarinnar.
![]() |
Þau skildu aldrei þessa baráttu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.