Miðvikudagur, 7. júlí 2021
Meydómur og mannorð
Feðraveldið fyrrum gerði kröfu um að stúlka væri óspjölluð er hún gekk í hjónasæng. Meira en hálf öld er síðan að konur á vesturlöndum gátu stjórnað getnaði, með pillunni, og samhliða varð sú þróun giska hröð að bæði kynin stunduðu kynlíf án þess að festa ráð sitt og þykir ekki tiltökumál. Frelsið til að fara með líkama sinn eins og hverjum hentar er rótfast í menningunni.
Á þetta ber að minnast í samhengi við umræðu um að þessi eða hinn nafngreindi einstaklingur hafi ekki hagað sé sem skyldi við kynlífsathafnir. Áður en lengra er haldið: kynlíf þar sem ofbeldi, þvinganir og hótanir koma við sögu köllum við nauðgun og er réttilega fordæmt af samfélaginu. Hegningarlög og dómavenjur mæla fyrir um refsingu. Jú, það getur verið erfitt að koma við sönnun og fyrir fórnarlamb nauðgunar er þrautin þyngri að kæra og beygja sig undir lögreglurannsókn og mögulega saksókn eða jafnvel frávísun vegna skorts á sönnunargögnum. En það flýtur af eðli máls. Kynlíf, hvort heldur það er með samþykki þátttakenda eða nauðgun, fer ekki fram fyrir opnum tjöldum. Vanalega eru aðeins tveir til frásagnar.
Þegar nauðgun sleppir fer kynlíf fram með ýmsu móti. Það getur verið stuttur aðdragandi eða langur. Þátttakendur þekkjast stundum vel, en til er í dæminu að kunnugleiki sé lítill eða alls enginn þegar athöfnin fer fram. Engin opinber skilgreining er til á eðlilegu kynlífi nema hvað að útlimir og kirtlar koma oftast við sögu, frá munnvatnskirtlum niður í æxlunarfæri. Sjálft fyrirbærið, kynlíf, er teygt og loðið þótt líffærin séu þekkt.
Það gefur auga leið að margvíslegur misskilningur er mögulegur í aðdraganda, framkvæmd og eftirmála kynlífs. Tilfinningar eru í spilinu, ástarorð höfð í frammi sem hafa ólíka merkingu í huga þeirra er gefa sig til hvílubragða. Þegar þeir sem kynlífið stunda þekkjast lítið má gefa sér að þeir leggi gagnólíka merkingu í það sem fram fór. Sá sem býr að reynslu tekur allt annað frá athöfninni en nýgræðingur. Það liggur í hlutarins eðli. Það sem einum finnst léttvægt er öðrum háalvarlegt. Frásögn sem gefin er síðar er auðveldlega lituð af væntingum og vonbrigðum.
Samt er tómt mál að tala um forskrift að kynlífi eða gera kröfu um undirbúning væntanlegra iðkenda. Foreldrar ættu að útskýra þetta með býflugurnar og blómin, og helst eitthvað ítarlegra en það, en lengra nær það ekki. Ekkert opinbert vald getur lagt línur um hvað sé við hæfi og hvað ekki. Nema, auðvitað, það sem sagði um nauðgun hér að ofan.
Í viðtengdri frétt er sagt frá manni sem borinn er sökun um alvarleg kynlífsbrot og jafnvel nauðgun. Tilfallandi athugasemdir fundu að því hvernig staðið var að málinu. Nafnlausum sögum var safnað, e.t.v. ritstýrt, og þeim komið á framfæri af samtökum sem heita Öfgar - réttnefni það.
Nú er hafin undirskriftarsöfnun til stuðnings Ingó veðurguð, eftir að staðarhaldarar þjóðhátíðar í Eyjum ákváðu að hann skyldi ekki leiða brekkusöng vegna málatilbúnaðar Öfga.
Liðakeppni milli stuðningsmanna Öfga og aðdáenda veðurguðsins er leikur án reglna og fyrirséð að allir tapa. Höfundur Tilfallandi athugasemda þekkir ekkert til Ingó veðurguðs og aðeins eitt dægurlaga hans, Í kvöld er gigg (harla skemmtilegur smellur það). Hvernig á maður að bera sig að til að gera upp hug sinn? Stúdera nafnlausu sögurnar eða hringa í vini og vandamenn veðurguðsins? Og ef maður gerir hvorutveggja, yrði maður einhvers vísari?
Það sjá vonandi allir heilir á dómgreind að við getum ekki búið í samfélagi í sæmilegum friði þegar liðakeppni er um æru og mannorð manns og annars og einu málsgögnin nafnlausar sögur. Í villta vestrinu var auglýst eftir útlögum lifandi eða dauðum en aðeins að undangengnum formlegum úrskurði opinbers aðila. Á félagsmiðlum eru aftökusveitir gerðar út í lokaðri spjallrás. Mannorðsmorðið er fullframið þegar það kemur fyrir sjónir almennings.
Um 130 konur skrifuðu undir aftökutilskipun á manni sem ekki fékk færi á að svara ásökunum um alvarleg afbrot áður en aftakan fór fram. Allar eiga konurnar væntanlega föður, einhverjar eiga bræður, eiginmenn og syni. Ef þessi aðferð til að ná fram réttlæti verður viðurkennd og tíðkuð munu margir saklausir eiga um sárt að binda áður en yfir lýkur.
Yfir þúsund manns skrifað undir til stuðnings Ingó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er með ólíkindum hvað fólk er tilbúið til að taka afstøðu til mála sem það hefur engan grundvøll til að standa á.
Ragnhildur Kolka, 7.7.2021 kl. 12:25
"og fyrirséð að allir tapa"
Við skulum samt reyna að sameinast í gleði við brekkusöng á þjóðhátíð
Grímur Kjartansson, 7.7.2021 kl. 12:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.