Sölva saga Tryggvasonar og réttlætið

Maður er nefndur Sölvi Tryggvason. Hann kemur fram opinberlega og segir sóst eftir mannorði sínu með tilhæfulausum ásökunum um kynferðisbrot. Líða svo tveir til þrír dagar. Kemur þá fram ákæra og vitnisburður um að Sölvi sé ekki jafn saklaus og hann vill vera láta. Sölvi tékkar inn á geðdeild en sölvískur stormur skekur samfélagið.

Sölva saga Tryggvasonar er um tilraun til að afla sér samúðar sem snýst upp í andhverfu sína, leiðir til fordæmingar. Í upphafi sögu er Sölvi fórnarlamb en varla er tveim blaðsíðum flett og sá grátbólgni er orðinn gerandi. Sagan er sögð í fjölmiðlum og á félagsmiðlum. Sölvi er nafnkenndur í aðalhlutverki, ónefndar konur í stórum hlutverkum og heil hrúga af fólki í aukahlutverki; þeir sem studdu aðalleikarann í upphafi, sneru síðan við honum baki og svo hinir sem keyptu ekki fyrstu útgáfu fórnarlambsfrásagnarinnar en biðu færis.

Á yfirborðinu virðist sagan um réttlæti og ranglæti, sakleysi og sekt, tilræðismann og fórnarlamb. En undir niðri er önnur frásögn um samfélagið okkar. Þar takast á tvö meginsjónarmið. Í fyrsta lagi að hér þrífist stórglæpamenn í kynferðismálum sem að mestu óáreittir komast upp með að leggja líf kvenna í rúst með nauðgunum og ofbeldi. Í öðru lagi að við búum í réttarríki þar sem sekt þarf að sanna áður en menn eru dæmdir. 

Í orði kveðnu eiga fylkingar meginsjónarmiðanna það sameiginlegt að krefjast réttlætis. En sá misskilningur svífur yfir vötnum að ásakanir og gagnásakanir í fjölmiðlum og félagsmiðlum skili sér í réttlæti. Forsenda réttlætis er íhygli og yfirvegun um málsatvik, atvikalýsing og sönnunarfærsla. Sú málsmeðferð er ekki í boði á félagsfjölmiðlum.

Hliðarafurð yfirstandandi frásagnar er að fólk fær tækifæri að játa syndir sínar á altari félagsfjölmiðla. Trúarleg stef er þar að finna. Sölvi er til dæmis ekki nefndur á nafn í viðtengdri frétt. Í frumstæðri trúariðkun er djöfullinn svo alltumlykjandi að það eitt að nefna hann er synd.

Lærdómurinn í Sölva sögu Tryggvasonar er að trúa frekar hægt en hratt. Jafn freistandi og það er að stökkva á fordæmingarvagninn þegar hann fer framhjá verður óþægilegt að sitja eftir með sárt ennið þegar annar vagn sýnu stærri og margmennari þýtur í gagnstæða átt.

Svo er það þetta lítilræði með samfélagið okkar. Það er ekki fullkomið en í samanburði við flest ef ekki öll önnur þá er það harla gott. Gleymum því ekki.


mbl.is „Ég gerðist skólabókardæmi um meðvirkni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Alltaf best að leiða hjá sér annarra manna persónudrama ef mögulegt er. 

Ragnhildur Kolka, 9.5.2021 kl. 13:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband