Föstudagur, 19. mars 2021
Orsök og afleiðing í náttúrunni
Til að A orsaki B i rökfræðilegum skilningi þarf A að koma á undan B og knýja fram afleiðinguna, B. Rök á hinn bóginn eru tilbúningur manna, þau eru ekki í náttúrunni.
Einkenni náttúrunnar er óreiða sem lýtur ekki rökum. Síðdegis 3. mars, fyrir rúmum tveim vikum, var tilkynnt að eldgos hæfist á Reykjanesi innan fárra klukkustunda. Yfirlýsingin var byggð á vinnu, athugunum, rannsóknum og sérfræðiþekkingu færustu jarðvísindamanna. En, sum sé, enn er ekkert gos. Nú er gos talið ólíklegt á næstunni. Spálíkön um hegðun óreiðu eru alltaf ágiskanir.
Víkjum sögunni að loftslagi. Sérfræðingar, veðurfræðingar, geta ekki spáð fyrir um veðrið nema nokkra daga fram í tímann. Sæmilega áreiðanlegar veðurspár eru ekki gefnar út nema fyrir næstu fimm til sjö daga. Engu að síður segja sumir sérfræðingar, áherslan er á sumir, að eftir 20 ár verði hlýrra á jörðinni ef koltvísýringur eykst af mannavöldum.
Koltvísýringur er 0,04% af andrúmsloftinu. Mælieiningin er ppm sem þýðir einingar af milljón. Þess vegna er sagt að magn koltvísýrings, CO2, sé 400 ppm. Gögn sýna að á jarðsögulegum tíma er þetta hlutfall lágt. Hlutfallið hefur farið upp í nær 8000 ppm. Lífi á jörðinni væri hætta búin ef hlutfallið færi niður í 150 ppm.
Koltvísýringur er náttúruleg lofttegund, ekki uppfinning mannsins. Áhrif hennar á loftslag jarðar eru óþekkt. Til að mynda er ekki vitað hvort hlýnun orsaki hærra hlutfall CO2 í andrúmslofti eða hvort CO2 valdi hlýnun.
Óreiða ofan í jörðinni og óreiða í loftslagi. Náttúran má eiga það að hún er spaugsöm, gerir grín að ,,fræðingum" sem sjá röklegt samhengi í óreiðu.
Ólíklegt að kvika muni koma upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Í árdaga var útgeislun sólarinnar miklu minni heldur en nú. En þá var styrkur gróðurhúsalofttegunda líka margfalt meiri. Þessi styrkur var forsenda lífsins á jörðinni. Þessi gróðurhúsaáhrif væru hins vegar allt ennað en æskileg nú. Þetta er m.a. umfjöllunarefni stjarneðlisfræðingsins, Haralds Lesch í þessum þætti (nálgast má tölvuþýddan texta á þættinum, m.a. á Íslensku): Missverständnisse zum Klimawandel aufgeklärt | Harald Lesch
Hörður Þormar, 19.3.2021 kl. 12:40
Takk fyrir ábendinguna, Hörður. Ég horfði á það sem Lesh sagði um meinta samstöðu vísindamanna um loftslagsbreytingar. Hann fer þar með rangt mál. Allir eru sammála um að loftslag breytist frá einum tíma til annars. En það er engin samstaða meðal vísindamanna að maðurinn breyti loftslagi á jörðinni. Svo ég nefni fáeina sem hafna manngerðu loftslagi: Richard Lindzen, Roy Spencer og Judith Curry. Þau þrjú eru þrælsjóuð í sínum fræðum. Fyrirlestrar þeirra og greinar á heimasíðum liggja frammi.
Páll Vilhjálmsson, 19.3.2021 kl. 13:29
Páll.
Harald Lesch vísar til svokallaðrar "Oregon Petition" þar sem um 31 þús. manns mótmæltu með undirskriftum að loftslagsbreytingar stöfuðu af mannavöldum. Hann segir að 39 úr þessum hópi hafi unnið að loftslagsvísindum. Enn fremur segir hann að því meiri þekkingu sem menn hafi á þessum vísindum, því meiri fullvissu hafi þeir um mannleg áhrif á loftslagið.
Mér finnst að sönnunarbyrði hljóti að hvíla á þessum mótmælendum. Þeim ber að sanna að loftslagið sé ekki að ofhitna af mannavöldum. Ef minnsti grunur er um hið gagnstæða og ef mannlegur máttur getur eitthvað þar við gert, þá ber að gera það. Of mikið er í húfi.
Hvernig það er framkvæmt, er svo allt annað mál. Ég efast um að Íslendingar eigi að taka sér þar forystu, það stæði öðrum þjóðum nær, t.d. Kínverjum eða Bandaríkjamönnum. The 30,000 Global Warming Petition Is Easily-Debunked ...www.huffpost.com › entry › the-30000-global-warmin...
Hörður Þormar, 19.3.2021 kl. 15:39
Nei, Hörður. Þegar við vitum fyrir satt að loftslag tekur breytingum af náttúrulegum ástæðum er það þeirra að sanna mál sitt sem staðhæfa að loftslag lúti mannlegum athöfnum.
Setjum þína röksemdafærslu í annað samhengi. Ef almennt samkomulag væri um að guð sé til, sem það löngum var, stæði það upp á þá sem ekki tryðu á tilvist guðs að afsanna guð? Vitanlega ekki.
Þeir sem staðhæfa eitthvað um heiminn, t.d. að loftslag sé manngert, verða að sanna staðhæfinguna.
Það er ekki hægt að sanna að draugar séu ekki til. Ótilvist, ímyndun, verður ekki afsönnuð. Ímyndunaraflið er fjörugra en svo. Það gerir mannskepnuna skemmtilega en líka óútreiknanlega. Svona eins og veðrið.
Páll Vilhjálmsson, 19.3.2021 kl. 16:00
Æ, ætli ég verði ekki bara að fara með æðruleysisbænina.
Hörður Þormar, 19.3.2021 kl. 18:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.