Búsáhöld, Trump og lýðræðið

Árásin á þinghúsið í Washington og búsáhaldabyltingin í Reykjavík fá samanburð í umræðu sem vísir.is tekur saman.

Í báðum tilvikum ræðst æstur múgur á þjóðþing. Atlagan á Austurvelli var svæsin og ofbeldisfull, eins og fram hefur komið hjá fórnarlömbum atgangsins.

Ef lýðræðið er frjáls skoðanaskipti en árás lýðs á þjóðþing tilraun til valdaráns, tja, þá er morgunljóst að byltingartilraunin, sem kennd er við búsáhöld, er engu skárri en atlagan að Þinghól þar vestra.

Þeir sem helst höfðu sig í frammi í búsáhaldabyltingunni með ofbeldi og látum ættu að kannast við gjörðir sínar, stíga fram og biðjast afsökunar. Það væri falleg athöfn auðmýktar fólks sem einatt sér flísina í auga náungans en ekki bjálkann í eigin auga.

En, auðvitað, það mun enginn biðjast afsökunar á ofbeldisverkum í búsáhaldabyltingunni. Risið er ekki hærra á sumu fólki. Meira en áratug síðar stritast það við að úthúða samborgurum sínum fyrir skort á lýðræðiskennd en brennur sjálft í skinninu eftir tækifæri að taka upp grjót á alþingi götunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Í þessari svokallaðri "fréttaskýringu" á vísi er mikið lagt upp úr rót mótmælanna og vissulega er þar mikill munur á. Eðli þeirra er þó það sama, fjölmenni mætir til mótmæla og fámennur hluti þess beitir ofbeldi.

Vissulega má líkja því ofbeldi sem framið var í bandaríska þinghúsinu við það ofbeldi sem framið var við hið íslenska. Þó íslenska ofbeldisfólkið hafi ekki borið skotvopn, eins og það bandaríska, þá voru íslensku löggæslumennirnir heldur ekki búnir skotvopnum. Því var vopnaburðurinn sannarlega ólíkur, en að öðru leyti atburðirnir sambærilegir. Hér var ráðist inn í þinghúsið, rétt eins og ytra.

Þegar mótmæli fara fram eru alltaf einhverjir tilbúnir að beita ofbeldi og verkefni löggæslu er að hefta það eftir bestu getu. Þó enginn hafi látið lífið í mótmælunum hér á landi er ljóst að þar stóð tæpt. Þegar fólk er farið að rífa upp gangstéttarsteina og kasta þeim til löggæslunnar, er stutt í stórslysin.

Gunnar Heiðarsson, 12.1.2021 kl. 08:47

2 Smámynd: Halldór Jónsson

Var ekki kopmmúnistaþingmaðurinn Álfheiður Ingadóttir, Inga R. Helgasonar, með símann á eyranu inni í þingsalnum að hvetja liðið fyrir utan til áhlaupa? Hvað gerði Steingrímur Jóhann þá?

Halldór Jónsson, 12.1.2021 kl. 15:47

3 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Liklega ekkert,þvi hann var ekki orðinn þingforseti þá.

Helga Kristjánsdóttir, 13.1.2021 kl. 02:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband