Sunnudagur, 13. október 2019
Siðferði, raunsæi og bandarískur fávitaháttur
Var siðferðilega rétt að ráðast inn í Írak 2003? Ef svarið er já, og rökin þau að Hussein Íraksforseti hafi verið harðstjóri, þá var einnig rétt að efna til ófriðar við Assad í Sýrlandi og Gaddaffi í Líbíu. Og, vel að merkja, sömu rök dygðu til að fara með hernað gegn Sádí-Arabíu og Kína, svo dæmi séu tekin.
Siðferðisrökin fyrir stríði, þau einu gildu, eru sjálfsvörn.
Í tilfelli Kúrda er málið snúnara. Landið sem Kúrdar ráða er ekki þeirra, samkvæmt alþjóðarétti, heldur Sýrlands. Kúrdar eru þjóð án þjóðríkis. Ástæðan fyrir því að Kúrdar voru komnir í þá stöðu að stjórna búsetusvæðum sínumm í Sýrlandi og Írak er að Ríki íslams kom sér þar fyrir eftir að vesturlönd, Bandaríkin með stuðningi Evrópuríkja, ónýttu ríki Assads og Hussein.
Kúrdar unnu með Bandaríkjunum að kveða Ríki íslams í kútinn og gera í framhaldi kröfu um að stofna sitt eigið þjóðríki er fæli sjálfkrafa í sér landakröfu á hendur Tyrkjum. Erdogan Tyrkjaforseti tekur upp hernað á sýrlensku landssvæði til að hindra stofnun Kúrdistan. Assad í Sýrlandi lætur sér það vel líka, enn sem komið er, og bíður átekta að fyrirskipun Rússa sem hafa öll ráð Assad í hendi sér. Allar líkur eru á að áætlanir um framtíð landamærahéraðanna séu sameiginleg niðurstaða Erdogan, Assad og Pútín.
Bandaríkjamenn eru þreyttir á krossferðum í framandi heimshlutum og kalla stefnu Clinton, Bush og Obama fávitahátt. Fyrir kjör Trump árið 2016 var samstaða í Washington að krossfarastríð í nafni lýðræðis og mannréttinda væru af hinu góða, jafnvel þótt slóðin væri stráð líkum, ónýtum samfélögum og væri lífgjöf Ríkis íslams og álíka hópa.
Í Washington er stefnubreyting í utanríkismálum, sú fyrsta frá lokum kalda stríðsins. Bókin sem er besta greiningin heitir Helvíti vinsamlegs ásetnings eftir Stephen M Walt.
Trump er friðarhöfðingi í samanburði við forvera sína. Bandarískar friðarhreyfingar eru í siðaklemmu, sérstaklega þær á vinstri kantinum, sem almennt líta á Trump sem afl hins illa.
Í umsköpun bandarískrar utanríkisstefnu er Trump fulltrúi raunsæis. Mörgum finnst erfitt að kyngja því.
Bandaríkjamenn uppfylli siðferðislegar skyldur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.