Dagar Sigurðar Inga taldir í Framsókn

Fylgi Framsóknarflokksins nær ekki 8 prósentum. Ekki seinna en annað vor verður kosið til alþingis og framsóknarmenn verða löngu áður búnir að kalla Lilju Alfreðs til forystu. 

Gæfuskipti hafa orðið á núverandi og fyrrverandi formanni Framsóknar, Sigmundi Davíð. Miðflokkurinn undir forystu Sigmundar Davíðs sækir fram sem borgaralegur flokkur skynsemishyggju og meðalhófs. Þrátt fyrir samræmt átak vinstrimanna og hælbíta úr öðrum flokkum er Miðflokkurinn kominn með jafnt og stöðugt fylgi sem stendur núna í 12 prósentum en 15-20 prósent þegar nær dregur kosningum.

Miðflokkurinn mun sækja á Sjálfstæðisflokkinn, sem vinnur varnarsigur í þessari könnun. Innan Sjálfstæðisflokksins standa hreinsanir, sem fara hljótt en eru afleiðingar klofnings vegna orkupakkamálsins. Eyþóri er fórnað í borginni fyrir nálægð við ritstjóra Morgunblaðsins. Hreini Loftssyni er lyft til að gylla viðreisnarfólki með hrunskömm gamla ættaróðalið.

Málgagn er til reiðu handa Sjálfstæðisviðreisn, Fréttablaðið, í eigu auðmanns sem stofnaði Viðreisn. Á leiðaraopnu Fréttablaðsins í dag er Eyþór gagnrýndur fyrir davíðsku; þingmaður Viðreisnar og aðstoðarmaður Gulla utanríkis eru meðhöfundar að grein og dómstólar eru teknir til bæna fyrir að dæma hrunfólk.  

Þegar rennur upp fyrir borgaralega sinnuðum og þeim sem annt er um fullveldið vegferð Sjálfstæðisflokks Bjarna, Gulla og Áslaugar Örnu verður Miðflokkurinn æ ákjósanlegri. ESB-kratismi og glópahlýnun undir merki fálkans gerir sig einfaldlega ekki. Brussel brennur,  Bretar flýja meginlandið og sænskur unglingur er merkisberi alþjóðavæðingar. Hægriflokkarnir í stjórnmálamenningunni sem Íslendingar miða sig við, þeirri engilsaxnesku, eru undir forystu Donald Trump og Boris Johnson. Hvorugur er pissudúkka. 

Vandræði Sjálfstæðisflokksins aukast enn  þegar Lilja tekur við Framsókn. Hún á sóknarfæri í höfuðborginni og þéttbýlinu sem Sigurður Ingi átti ekki. Verðandi formaður sagðist í sjónvarpsviðtali nýverið ekki vera lengur í klaustri. Liljan er hraðlæs á pólitík.

Tveir mið-hægripólitískir öxlar eru í sjónmáli. Sjálfstæðisflokkur-Viðreisn annars vegar og hins vegar Miðflokkur-Framsókn. Í einn stað hamfaraknúinn esb-ismi en í annan stað þjóðhyggja meðalhófsins.

Samfylkingin er náttúrulegur bandamaður miðhægri ESB-útgáfunnar en það er ekki í kortunum að ESB-flokkar nái meirihluta á alþingi Íslendinga. 

Næsta ríkisstjórn gæti orðið undir forystu Sigmundar Davíðs. Kok Vg-íhaldsins gín frekar við þjóðlegum metnaði en peningasekkjum. 


mbl.is Tæplega 51 prósent segist styðja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband