Sunnudagur, 4. ágúst 2019
Björn: orkupakkinn er pólitísk óvissa
Einn helsti talsmaður 3. orkupakkans, Björn Bjarnason fyrrv. ráðherra, viðurkennir að pólitísk óvissa sé fylgifiskur pakkans. Fjöldahreyfing er stofnuð til að stöðva innleiðingu pakkans, almennir sjálfstæðismenn andmæla stefnu forystunnar, þjóðin er á móti og fylgið hrynur af flokknum.
Óvissa er vægt til orða tekið, nær væri að tala um pólitískar hamfarir. Móðurflokkurinn er í sömu stöðu og strax eftir hrun, bjargarlaus og rökþrota.
Sjálfstæðisflokkurinn er við það að tapa forystuhlutverki sínu í íslenskum stjórnmálum. Himinn og haf er á milli ráðherra flokksins sem kalla orkupakkann þýðingarlaust smámál en er stórhættulegt valdaframsal á fullveldi þjóðarinnar í augum andstæðinga pakkans.
Forysta Sjálfstæðisflokksins er einangruð í málinu. Öll rök falla til Dýrafjarðar og sá fjörður er í fullvalda Íslandi.
Eftir það sem á undan er gengið yrði versta niðurstaða Sjálfstæðisflokksins að fá orkupakkann samþykktan. Á yfirborðinu liti samþykkt út eins og stórsigur. En þegar sæstrengsumræðan fer á fullt í kjölfarið mun opinberast að varnir Íslands eru stórum veikari, einmitt vegna orkupakkans. Sjálfstæðisflokkur sem skipulega veikir fullveldi landsins er skrímsli sem eyðir sjálfu sér.
Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur fáeina daga að vakna og bregðast við áður en óbætanlegt tjón hlýst af. Annars verður ,,smámálið", orkupakkinn, litla þúfan sem veltir fylgishlassi Sjálfstæðisflokksins og dreifir því um víðan völl.
Athugasemdir
Ég held að þetta snúist ekkert um O3 heldur að SDG hafi ekki sigur og hans flokkur, en vonandi hef ég rangt fyrir mér.
Sigurður I B Guðmundsson, 4.8.2019 kl. 11:54
Deijavú, svei mér þá! Ísland lifi húrra húrra húrra húrra!
Helga Kristjánsdóttir, 4.8.2019 kl. 12:21
Staðan er eitthvað svona eins og þú lýsir.
Halldór Jónsson, 5.8.2019 kl. 09:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.