Þriðjudagur, 21. maí 2019
Bryndis orkupakkasinni: Ísland kann ekki, getur ekki
Bryndís Haraldsdóttir einn þingmanna Sjálfstæðisflokksins, sem keppast við að þegja um orkupakkann í þágu djúpríkisins, bregður út af vana sínum og skrifar grein í Morgunblaðið. Lykilsetning:
Innleiðing þriðja orkupakkans í íslenskan landsrétt, á þann hátt sem lagt er upp með, er ekki aðeins hættulaus, heldur eru reglur hans til hagsbóta fyrir Íslendinga vegna aukinnar neytendaverndar og reglna sem stuðla að aukinni samkeppni og jafnræði milli aðila, sem ætti almennt að stuðla að lægra verði.
Ef við gefum okkur, orðræðunnar vegna, að málflutningur þingmannsins standist vaknar spurning; af hverju þurfum við evrópskar reglur til að vernda íslenska rafmagnsnotendur?
Íslenskur almenningur býr við lægra verð og meira öryggi við afhendingu rafmagns en margur Evrópubúinn. Getur Bryndís, eða aðrir orkupakkasinnar, bent á hvar skórinn kreppir hjá íslenskum heimilum vegna rafmagnsmála? Nei, vitanlega ekki, enda eru rafmagnsmál okkar í góðu lagi - ólíkt Evrópu þar sem þau eru í ólagi.
Samkeppni mun ekki lækka raforkuverð á Íslandi. Enginn fjárfestir mun virkja og dreifa rafmagni til almennings á Íslandi. Íslensk heimili nota um 20% af þeirri raforku sem framleidd er hér landi. Það er ekki eftir neinu að slægjast fyrir fjárfesta á meðan Ísland er ekki með sæstreng tengdan við Evrópu. En 3. orkupakkinn eykur líkur á sæstreng enda Ísland þá komið með samevrópskt regluverk. Byndis þegir um þessa óþægilegu staðreynd.
Annað tveggja tileinkar Bryndís sér valkvæða heimsku þingmanna Sjálfstæðisflokksins eða hún veit ekki betur.
Hvort heldur sem er ætti hún að skammast sín fyrir jafn aumkunarverðan málflutning. Manni sundlar við tilhugsunina að hafa greitt Sjálfstæðisflokknum atkvæði sitt við síðustu kosningar.
Umræða um orkupakkann aftur hafin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Lykilsetning Bryndísar, sem þú bendir réttilega á Páll, segir allt sem segja þarf um þennan blessaða O3. Ekki nóg með að valdaafsal eigi sér stað, heldur bætist við einkavæðing á orkunni. Skýrar er eiginlega ekki hægt að komast að orði um þennan ófögnuð, en Bryndís gerir í sinni grein. Mig grunar að hér sé ekki um valkvæða heimsku að ræða hjá þingkonunni, heldur hreinræktaða og meðfædda.
Þú ert svo sannarlega ekki sá eini með óbragð í munni yfir eigin skelfilegum mistökum í síðustu kosningum. Þau verða ekki endurtekin, svo mikið er víst.
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 21.5.2019 kl. 22:18
Það er gott, að Bryndís fái hér málefnaleg svör við ekki aðeins hæpnum, heldur fráleitum fullyrðingum hennar um meinta nauðsyn þessarar löggjafar eða öllu heldur innleiðingar "vegna aukinnar neytendaverndar og reglna sem stuðla að aukinni samkeppni og jafnræði milli aðila, sem ætti almennt að stuðla að lægra verði."
Vitaskuld getum við haft okkar eigin raforkulög og ákvæði um þessi mál (sem eru þó í býsna góðu ástandi hér!), án þess að taka á okkur þunglamalegan orkubálk frá Evrópusambandinu með mörgum gildrum fyrir okkar landstjórn og stjórnsýslu. Næsti orkupakki, sem myndi svo verða nr.4 og myndi "leiða af þessum" að mati ýmissa flokka á Alþingi nú þegar --- sá 4.OP er um 1000 blaðsíðna regluverk, vesgú, íslenzka þjóð!!!
NEI, höfnum þessum Brussel-reglum öllum frá upphafi, það er rétta svarið. Og Bryndís á ekkert með að rægja Miðflokks-þingmennina vegna hinnar ágætu varnar þeirra fyrir landið síðustu daga. Því sló þó Rúvið upp (RÓGNUM, með uppgerðar-reiðitöktum hennar) í aðalfréttatíma sínum í kvöld, en gaf hinum hófsama og háttvísa Þorsteini Sæmundssyni, alþm. Miðflokksins, aðeins ca. þriðjungstíma til andsvara við rangfærslum hennar. Ég get borið því vitni, að vandaður er málflutningur þeirra og oft unaður að sjá þar beitt góðum rökstuðningi og upplýsandi um málið allt (sjá pistla og rapporti um ræðurnar á mínu bloggi) -- ólíkt þöggunartilburðum hinna, þá sjaldan þeir sjást í pontu, ásamt fráleitum ásökunum um "einangrunarhyggju" og annað enn verra.
Jón Valur Jensson, 21.5.2019 kl. 22:52
Undirskrift utanríkisráðherra í Marokkó var að sögn bara formsatriði sem engu máli skipti og hefði engin áhrif! En hann skrifaði undir 16 þúsund orða samning. Af hverju? Þjóðin fékk engar skýringar aðrar en að hinir skrifuðu undir og svo var vísað til ársins 2016. Þá fór víst ákveðin utanríkisbolti að rúlla sem ekki er hægt að stöðva.
Nokkrum mánuðum seinna endurtekur sagan sig. Samþykkt orkupakkans átti ekki að breyta neinu og skiptu engu máli. Og aftur var bent á sökudólginn - árið 2016 og á önnur ártöl enn lengra aftur i tímann. Það er eins gott að þjóðin fari varlega í að samþykkja eitthvað sem gæti orðið að óstöðvandi utanríkissnjóbolta sem ekki er hægt að stöðva.
Auðvitað voru margir með ákveðnar skoðanir með að á móti en ég held að stór hluti fólks sem er nú á móti orkapakkanum hafi einfaldlega ekki litist á blikuna og prófað að segja lítið nei, svona til að tékka á viðbrögðunum og kalla á svör.
Ef vel hefði verið tekið í auma neiið hefðu margir hugsanlega samþykkt orkupakkann með semingi seinna. En menn létu eins og yfirgangsseggir sem þola ekki nei. Það væri sko búið að hugsa málið til enda fyrir hönd þjóðarinnar - gjörið þið svo vel.
En fólk lætur ekki bjóða sér yfirgang og neiið stækkaði með hverjum deginum og það stækkar enn.
Núna eru allir upplýstir en oftast setur lítill hluti þjóðarinnar sig vel inn í einstök mál, flestir samþykkja það sem flokkurinn sem það treystir mælir með. Það er breytt.
Fólk er svo sem ekki sérfræðingar í orkumálum eða öðrum flóknum málum en við skynjum þegar fólk sem við teljum okkur "þekkja" fer að haga sér öðruvísi en vanalega.
Kannski er ekkert á bakvið tjöldin sem við þurfum að hafa miklar áhyggjur af? En það eru efasemdir. Þess vegna ber að fresta orkupakkanum þar til öll kurl eru kominn til grafar.
Benedikt Halldórsson, 22.5.2019 kl. 00:36
Furðulegt hlýtur að teljast hve "umhverfisástvinirnir" í vg og hin auðselda portkona framsóknarmaddaman koma sér hjá því að ræða þetta mál á opinberum vettvangi. Aumkunnarverðari gerast pólitíkusar varla. Auðteymt og hugsjónagelt þingmannalið stjórnarflokkanna fylgir foringjum sínum fram af björgum, svo lengi sem bitlingar, búsetustyrkir, flugferðir og aksturspeningar renna þeim í greipar án mikillar fyrirhafnar, á kostnað umbjóðenda þeirra. Gætið ykkar gott fólk. Íslendingar eru ekki lengur jarðsettir aumingjar í torfkofum, sem treysta á haustskip með rotnu mjöli. Falsið er hverjum hugsandi manni orðið ljóst og koma mun að skuldadögum! Hafið skömm fyrir, "stefnubrestir" ríkisstjórnar Íslands!
Góðar stundir, með kveðju að sunnan.
Halldór Egill Guðnason, 22.5.2019 kl. 00:57
Sæll! Ligg yfir varnarræðum Miðflokks fyrir land okkar sent út frá Alþingi barattuglaðir þar á meðal ein kona; Svakalega seturðu rækilega verðskuldað ofaní þetta orkupakka lið orðheppinn með afbrigðum.
Helga Kristjánsdóttir, 22.5.2019 kl. 03:16
Bryndís var ekki á Alþingi þegar Sjálfstæðismenn héldu maraþon ræður til varnar íslensku þjóðinnni í tíð Jóhönnustjórnar. Þá var enn töggur í flokksmönnum. Nú eru þeir tilbúnir að hunsa tveggja stoða samkomulagið og afhenda ESB orkuna okkar. Sakleysinginn Bryndís er svo send út á völlinn til að verja flóttann.
Ragnhildur Kolka, 22.5.2019 kl. 07:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.