Þjóðhöfðingjar og valdarán; engar einfaldar lausnir

Ísraelska leyniþjónustan drepur ekki þjóðhöfðingja, kemur fram í heimildamynd á Netflix, og byggir viðtölum við innherja Mossad.

Hvers vegna er Maduro forseti Venesúela ekki einfaldlega drepinn? Málið dautt, bókstaflega, og Guaidó tæki við.

Svarið liggur að hluta í greiningu ísraelsku leyniþjónustumannanna: ef einn þjóðhöfðingi er drepinn er komið fordæmi fyrir drápi á þeim næsta. Það vissi á ófyrirséð vandræði. Víst má stytta líf þjóðhöfðingja, en aðeins undir réttum kringumstæðum.  Hussein fékk þykjusturéttarhöld í Írak og Gadaffi var tekinn afsíðis af löndum sínum í Líbýu og afgreiddur. En skipulegt morð á þjóðhöfðingja er bannorð.

Dýpri ástæða liggur að baki. Þjóðhöfðingjar, hvort heldur kjörnir eða ekki, eru fulltrúar þjóðarinnar. Assad í Sýrlandi var þægilegt skotmark bandaríska hersins en hann hélt lífi þótt sýrlenski herinn fengi í hausinn bandarískar snjallsprengjur. Hvers vegna? Jú, hann er sem forseti æðsti fulltrúi þjóðarinnar. Þjóðir bera ábyrgð á leiðtogum sínum og þeir á þjóðum sínum. 

Maduro forseti Venesúela leggur efnahagskerfi þjóðarinnar í rúst í nafni sósíalisma. Það er ekki næg ástæða til að erlend ríki ræni völdum. Í Norður-Kóreu er kommúnismi og í Sádí-Arabíu ríkir trúarhugmyndafræði frá miðöldum. Engir tilburðir eru til að steypa af stóli valdhöfum með þeim rökum að ráðandi öfl séu ótæk.

Maduro segist vera leiðtogi byltingar. En jafnvel einörðustu stuðningsmenn hans, eins og Ken Livingstone, verða kjaftstopp að reyna að verja eymd almennings í byltingarlandinu.

Engu að síður er Maduro forseti í fullvalda þjóðríki. Og er sem slíkur á ábyrgð þjóðar sinnar. Best er að halda lokinu niðri á öskju Pandóru og leyfa samlöndum Maduro að ráð fram úr vandanum. Annars verður fjandinn laus.

 

 

 

 


mbl.is Íslensk stjórnvöld styðja Guaidó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Það er eiginlega ekki hægt að tala um Venesúela án þess að tala fyrst um Caudillos-kerfið og 27 stjórnarskrár landsins frá því að það varð sjálfstætt ríki frá Spáni og Stór-Kólumbíu 1830.

Það eru engar stofnanir í landinu sem íbúarnir treysta og trúa á. Landið er rekið með Caudillos-mútukerfi og sá sem hefur aðgang að mestu fé kaupir sér flesta fylgjendur.

Núsitjandi valdamenn hafa aðgang að olíufé til að kaupa sér fylgendur svo lengi sem það eru erlendir kaupendur af olíunni.

Kína er komið inn í landið og Rússland og Norður-Kórea líka. Öll verstu element jarðar eru komin inn. Rússland lenti í síðustu viku Boeing 777 til að sækja gull landsins upp í skuld og flytja heim til Rússlands. 

Ég get varla séð að aðkoma Vesturlanda sé til skaða. En maður veit þó aldrei. En hún er að minnsta kosti betri en aðkoma Rússlands, Kína og Norður-Kóreu.

Við þurfum ekki að vera fullkomin, heldur einungis betri en Rússlands,- Kína,- og Norður-Kóreu kosturinn. Og það erum við.

Útópía færir sem regla fólki ekkert. Það besta er oft slæmt, en samt ekki helvíti útópíu.

Gunnar Rögnvaldsson, 6.2.2019 kl. 08:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband