Fimmtudagur, 30. ágúst 2018
Brexit: fjötrar en ekki fríverslun
Breska þjóðin ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir tveim árum að ganga úr Evrópusambandinu. Ef sambandið væri félagsskapur fullvalda þjóðríkja ætti lýðræðislegur vilji að fá eðlilegan framgang.
En ESB er ekki samtök fullvalda ríkja heldur yfirþjóðlegt valdabandalag sem beitir fullvalda ríki þvingunum og refsingum til að viðhalda einingu sambandsins. Lýðræðislegur vilji aðildarríkja ESB er aukaatriði, fyrst og fremst til skrauts.
ESB hefur hótað Bretum efnahagslegum refsiaðgerðum annars vegar og hins vegar að stórspilla samskiptum innan Bretlands, milli Skota og Englendinga, og milli Bretlands og Írlands.
Í stuttu máli: ESB reynir í lengstu lög að leggja fjötra á Bretland fyrir það eitt að breska þjóðin telur hag sínum betur borgið utan sambandsins en innan þess.
Bretar, á hinn bóginn, sækjast eftir fríverslun við Evrópusambandið á grundvelli jafnræðis. Að það skuli vera vandamál sýnir betur en nokkuð annað að ESB er ekki samband fullvalda þjóðríkja heldur ágengt stórveldi sem situr yfir hlut lýðfrjálsra landa.
Hyggst bjóða Bretum einstakan samning | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hvaða kjaftæði er þetta í þér? Það er verið að bjóða Bretum sérsamning sem öðrum býðst ekki. Jafnvel þó það væri ekki gert þá væri ekki hægt að kalla það refsiaðgerðir. Annað hvort eru Bretar í ESB eða ekki og ef þeir kjósa að vera ekki í ESB þá geta þeir ekki vænst því að hafa nein af þeim fríðindum sem fylgja því að vera aðili að ESB. Það er ekki bæði haldið og sleppt
Í hverju telur þú refsiaðgerðir ESB gagn Bretum felast.
En mesta kjaftæðið í þessari grein þinni er að halda því fram að ESB sé ekki samtök fullvalda ríkja. Það er ESB svo sannarlega.
Sigurður M Grétarsson, 30.8.2018 kl. 09:22
Englendingar sem eru um 80% af Bretlandi kusu Bretland naumlega út. Skotar og N-Írar þar sem niðurstaðan var afgerandi INN, geta ekki hugsað sér að vera undir valdi Englendinga og munu fara fram á sjálfstæði (Skotar sjálfstæðir og N-Írar sameinast Írlandi) ef engir samningar við ESB nást.
Og til gamans má geta að ég flutti frá Bretlandi til Spánar fyrir nokkrum vikum og hér rétt hjá mér er Írskur bar. Ég spjallaði við eigandann meðan ég sötraði Guinnesinn og sagði honum að ég hefði verið að flytja frá UK. Hann benti mér góðfúslega á að orðið UK fyrir N-Íra eins og hann er væri móðgun, hann vildi ekki og teldi sig ekki vera part af UK heldur Írlandi.
Ef einhverjir eru að spilla samskiptum Englendinga, Skota og N-Íra þá eru það Englendingar....
Snorri Arnar Þórisson, 30.8.2018 kl. 14:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.