Fimmtudagur, 23. ágúst 2018
Falli Trump, falla Bandaríkin
Peningagreiðslur til að þagga niður í ástarmálum Bandaríkjaforseta leiða ekki til ákæru og embættismissi. Bill Clinton stundaði kynlíf með lærlingi í Hvíta húsinu og komst upp með það.
Aftur yrði það Trump að falli ef á hann sannast landráð. Óopinber ákæra pólitískra andstæðinga forsetans er að Trump hafi framið landráð með samstarfi við Rússland um að tryggja sér sigur í forsetakosningunum 2016.
Yfirvegaðir stjórnmálaskýrendur, t.d. Jack Matlock, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna í Sovétríkjunum, benda á hliðstæður falls Sovétríkjanna fyrir 30 árum og umræðunnar í Bandaríkjunum.
Leyniþjónusta Sovétríkjanna, KGB, kenndi vesturveldunum um pólitísku ókyrrðina sem leiddi til upplausnar og endaloka ríkisins. Að breyttu breytanda stunda bandarískar leyniþjónustur, CIA og FBI, sama leikinn gagnvart Bandaríkjunum: það er Rússum að kenna að Trump varð forseti.
Í báðum tilfellum, KGB annars vegar og hins vegar CIA/FBI, eru leyniþjónustur í samstarfi við ráðandi öfl sem eru úr tengslum við veruleikann, Kommúnistaflokk Sovétríkjanna og Demókrata í Bandaríkjunum.
Sovétríkin féllu vegna þess að almenningur í lýðveldunum var búinn að fá nóg af ráðandi öflum; Trump var kjörinn forseti af almenningi sem vill gagngera uppstokkun á kerfi sem þjónaði almannahagsmunum illa.
Löngu áður en ástarmál Trump verða að landráðum, sem leiða til ákæru og embættismissis, munu nægilega margir pólitískir andstæðingar forsetans átta sig á að falsrökin sem gætu fellt Trump færu óðara í endurvinnslu og yrði beitt á eftirmann hans - hver svo sem hann yrði.
Pólitískir andstæðingar Trump vita, a.n.k. sumir hverjir, að aðferðirnar til að velja og afsetja stjórnvald eru það sem aðskilur lýðræði og annað miður geðþekkara stjórnarfyrirkomulag.
Þess vegna verður Trump ekki ákærður til embættismissis.
Segir þagnargreiðslurnar ekki ólöglegar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.