Þriðjudagur, 1. maí 2018
Marx meðal okkar - og Orwell
Fyrsti maí er baráttudagur verkalýðsins. Karl Marx túlkaði róttæka framtíð verkalýðsins en 200 ár eru frá fæðingu hans eftir fjóra daga. Í New York Times segir að millistéttin hafi gert Marx að spámanni sínum, sem vel kann að vera rétt.
Spurningin er hvers konar framtíð. Ekki fagra nýja veröld segir Yuval Harari sem skaust á stjörnuhiminn fyrir fáeinum misserum með bók um sögu mannkyns.
Sögukenning Harari er þriggja þrepa. Á miðöldum klauf landareign fólk í aðalsmenn og almúga; frá 19. öld greindi eignarhald á framleiðslutækjunum kapítalista frá öreigum; í framtíðinni er það aðgangur að gögnum sem býr til stafrænt einræði fárra yfir fjöldanum.
Gögn, líftækni og gervigreind vita á endalok tegundarinnar homo sapiens. Miðstýrð gagnasöfn veita aðgang að innstu kimum sálarlífsins - það verður hægt að hakka heilann.
Harari boðar samruna Marx og Orwell. Öllum þörfum okkar verður sinnt enda ákveður yfirvaldið þarfirnar. Lífið verður algóritmi.
Athugasemdir
Hvort myndir þú segja að Gylfi forseti ASÍ væri JAFNAÐARMAÐUR eða Marxisti ?
Jón Þórhallsson, 1.5.2018 kl. 09:35
Ég ætla að taka að mér að svara þessari spurningu Jón. Hvorugt. Hann er tækifærissinni sem hafnaði því að taka vísitöluna tímabundið úr sambandi eftir Hrunið. Og rakaði svo af sér skeggið, til að tefla fram nýjum Gylfa, til að ná endurkjöri á forsetastólinn.
Ragnhildur Kolka, 1.5.2018 kl. 14:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.