Þriðjudagur, 19. desember 2017
Íslendingabók tekur við af Facebook
Facebook var einu sinni nýmæli en er orðin að almannarými. Ef Facebook yrði lögð niður myndu einhverjir setja upp sambærilegt almannarými. Innihaldið á Facebook kemur frá notendum. Miðillinn sjálfur leggur ekkert til, aðeins vettvanginn þar sem fólk skiptist á texta, hljóði og myndum.
Facebook var að alþjóðlegu risafyrirtæki vegna þess að miðillinn þjónaði í senn nærsamfélaginu og veraldarsamfélaginu. En það er nærsamfélagið sem knýr vöxtinn, ekki aðgangurinn að heimsmenningunni. Fólk notar Facebook til samskipta við þá sem það þegar þekkir. Það er kjarni miðilsins, sem hóf göngu sína sem samskiptavettvangur háskólanema.
Vörumerkið Facebook er sennilega með dýrðardaga sína að baki. En tæknin sem skóp miðilinn er orðin almannaeign. Innan tíðar verða til margar útgáfur af frummyndinni sem þjóna sínum nærsamfélögum.
Það er ástæða fyrir því að BBC er breskur fjölmiðill en ekki alþjóðlegur og CNN bandarískt sjónvarp en ekki heimsveldi. Ástæðan er takmörkuð geta mannsins til að tengjast öðrum menningarheimum en sínum eigin. Sumir eiga reyndar fullt í fangi með að ná áttum í náttúrlegum heimkynnum sínum.
Tækni flyst auðveldlega á milli menningarheima. En það gildir ekki um menninguna sjálfa. Og Facebook er aðeins tækni.
Horfurnar dökkar fyrir Facebook | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.