Föstudagur, 8. desember 2017
Ragnar Þór viðurkennir ósannindi: segir hann af sér?
Nýkjörinn formaður Kennarasambands Íslands birtir gögn um málsvörn sína við ásökunum um kynferðislegt ofbeldi gagnvart nemanda. Skjalið, sem er bréf frá lögmönnum Ragnars Þórs, staðfestir að málsvörn Ragnars Þórs er ein stór lygi.
Í bréfinu, sem Ragnar Þór vísar til á bloggi, segir í einni efnisgrein:
Með tölvubréfi til SFS 20. október 2013 óskaði umbjóðandi okkar enn og aftur eftir upplýsingum. [...] Fimm dögum seinna barst honum lokasvar frá SFS. Þá var í fyrsta skipti gefið í skyn að málið væri ólíkt fyrri lýsingum ekki almennt heldur sértækt og að ekki væri um að ræða nafnleysi heldur nafnleynd.
Ragnar Þór vissi sem sagt 25. október 2013 að hann væri til rannsóknar vegna sértæks máls. Fram að þeim tíma var málið ekki opinbert, aðeins til meðferðar hjá stofnunum.
Ragnar Þór gerir málið sjálfur opinbert 11. desember 2013 með bloggfærslu á Eyjunni, rúmum mánuði eftir að hafa fengið að vita að málið snerist um ákveðið tilvik. Þar leggur hann upp með að vera ofsóttur vegna bloggskrifa og segir vont fólk sækjast eftir æru sinni. Hann skrifar: ,,Það er nefnilega frekar mikið til af frekar sjúku fólki og óstöðugu."
Æ síðan klappar Ragnar Þór þann stein að hann sé fórnarlamb ofsókna.
Eftir að Ragnar Þór opinberar málið, mætir í Kastljós og segist ofsóttur, ákveður nemandi hans að kæra málið til lögreglu. Nemandinn mætir á lögreglustöð og kærir Ragnar Þór 7. janúar 2014. Nemandinn stígur fram í fjölmiðlum fyrir nokkrum dögum, vegna umræðu um kynferðislegt ofbeldi í samfélaginu, og segir sína sögu á visir.is
Ragnar Þór er vitanlega saklaus af meintu broti nema það sannast á hann. En hann er sekur eins og syndin í málsvörn sinni. Sekt Ragnars Þórs er að fara opinberlega með lygar um málatilbúnaðinn.
Í bloggfærslunni á Eyjunni 11. desember 2013 skrifar Ragnar Þór:
Einhver fársjúk og illgjörn sál ákvað að svona skyldi enginn komast upp með að segja án afleiðinga. Svo hún tók sig til og tilkynnti vinnuveitanda mínum að ekki aðeins væri óþokki að kenna börnum við skóla í Reykjavík, heldur væri full ástæða til að ætla að hann væri barnaníðingur.
Það vill svo til að Reykjavíkurborg hefur útbúið vettvang þar sem hægt er að bera starfsmenn slíkum sökum, undir nafnleynd ef því er að skipta. Í raun getur hver sem er sakað hvern sem er um hvað sem er án þess að skilja eftir svo mikið sem símanúmer. Þú ferð bara inn á tiltekna síðu og skilur viðbjóðinn eftir.
Þegar hann skrifar þessi orð vissi Ragnar Þór, og hafði vitað í rúman mánuð, að tiltekinn einstaklingur hafði komið fram með ábendingu um að Ragnar Þór væri sekur um kynferðisbrot gagnvart nemanda.
Ragnar Þór taldi sig standa betur að vígi ef hann gerði ásökun á hendur sér að fjölmiðlamáli. Það var hans val. Öllu verra er að hann byrjaði málsvörnina á lygi. Verst er þó að Ragnar Þór er orðinn formaður Kennarasambands Íslands. Maður sem gengur fram með þessum hætti á opinberum vettvangi er á siðferðisstigi sem ekki er sæmandi formanni KÍ.
Ekki hægt að sitja undir þessu rugli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.