Sunnudagur, 29. október 2017
Tjaldbúinn í Laugardal er sigurvegarinn
Sigurvegari kosninganna er tjaldbúinn í Laugardal sem fór á mis við mannúð og mildi góðærisins. Tjaldbúinn í Laugardal stal kosningasigri Vinstri grænna og Samfylkingar og færði Miðflokknum og Flokki fólksins.
Á yfirborðinu virðist flókið mál að mynda ríkisstjórn. En ef flokkarnir skilja hverjum klukkan glymur er einboðið hverjir vinni saman.
Enginn möguleiki er á vinstristjórn. Aðeins eitt annað er útilokað og það er ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins.
Að þessum forsendum gefnum er einn raunhæfur möguleiki á ríkisstjórn. Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir taki höndum saman með Framsóknarflokknum og myndi meirihluta með 35 þingmönnum. Tveir aðrir flokkar kæmu til greina í stað Framsóknar, Miðflokkur eða Samfylkingin, en þá yrði meirihlutinn 34 þingmenn.
Sjálfstæðisflokkurinn mun vilja Miðflokkinn fremur en Samfylkingu en því er öfugt farið hjá Vinstri grænum. Málamiðlunin er Framsókn, sem einnig tryggir aukinn meirihluta.
Tjaldbúinn í Laugardal gæti sæst á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks. Tjaldbúinn er raunsærri en margur heldur.
Ríkisstjórnin tapar 12 þingsætum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú ert að misskilja, sennilega viljandi. Síst af öllu myndi tjaldbúinn blessaður að flokkurinn sem svipti hann mannsæmandi lífi og sendi hann í tjaldbúðirnar, Sjálfstæðisflokkurinn, færi áfram með völd í landinu svo hann gæti aukið misskiptinguna. Hann er það raunsær.
Réttsýni, 29.10.2017 kl. 10:57
Næsta Ríkistjórn verður Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur, Framsókn og Flokkur Fólksins, þetta væri eina vitið eftir því sem kom upp úr kjörkössunum.
Þingmenn verða bara að skilja egóið eftir heima þegar farið er í umræður um samstarf í Ríkisstjórn og hugsa um að gera gott fyrir land og þjóð.
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 29.10.2017 kl. 15:40
Jóhann, það er samt aldrei að vita hvaða gloríur Sigurði Inga dettur í hug. Hann gæti allt eins farið í ríkisstjórn með vinstraliðinu með tæpum meirihluta. Það er þrennt sem gæti bent til þess: 1. Hann og Sigmundur eru engir ástvinir, b) hann var eins og mótunarleir í slímugum lúkum stjórnarandstöðunnar eftir að hann varð forsætisráðherra og iii) hann hefur ekki fyrirgefið Bjarna Ben eftir að sá síðarnefndi knúði fram (skv. framsóknarmönnum) kosningarnar 2016, sem sendi Framsókn út í kuldann.
Annars skil ég ekki að Páll skrifar ákaft um Tjaldbúann í færslu sinni, en minnist ekkert á Flokk fólksins, sem tjaldbúinn kaus, sem mögulegan stjórnarflokk. Tjaldbúinn vill helzt hvorki sjá Sjálfstæðisflokkinn né VG, sem aldrei hafa gert neitt fyrir hann í ríkisstjórn. En fyrst ekki verður hjá því komizt, þá í öllu falli ekki báða í einu (double trouble), en vill sjá Flokkinn sinn og fólksins í ríkisstjórn.
Aztec, 29.10.2017 kl. 16:31
Flokkur fólksins á pólitískt tilkall til stjórnaraðildar og Miðflokkurinn þó miklu heldur. En við verðum að vera raunsæ. Flokkar með veikt/nýtt bakland eru ekki heppilegir í ríkisstjórn, sbr. Björt framtíð. Aftur eru Framsókn og Vg, að ekki sé talað um móðurflokkinn, með sterkt bakland og þaulreynt í lífsins ólgusjó.
Páll Vilhjálmsson, 29.10.2017 kl. 16:59
Tjaldbúinn í Laugardalnum er á ábyrgð Samfylkingar, Vinstri Grænna, Pírata og Bjartrar Framtíðar, sem halda húsnæðismarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu í heljargreipum.
Sigríður Jósefsdóttir, 30.10.2017 kl. 15:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.