Fimmtudagur, 20. júlí 2017
Benedikt efast um sjálfan sig
Enginn gjaldmiðill í heiminum er stöðugur. Gjaldmiðlar sveiflast eftir stöðu og horfum hagkerfa. Ef gjaldmiðlar ná yfir mörg hagkerfi, eins og evran, mælist óstöðugleikinn í atvinnuleysi. Þjóðverjar búa við lítið atvinnuleysi en Spánverjar og Grikkir stórfellt atvinnuleysi.
Evran er uppskrift að vandræðum. Þess vegna vilja sumar þjóðir í Evrópusambandinu, t.d. Danir, Svíar og Pólverjar, ekki taka upp evru.
En Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra Íslands vill ólmur taka upp evru til að ,,auka stöðugleika." Frændur okkar í Noregi, Danmörku og Svíþjóð eru þekktir fyrir að velja samfélagslegan stöðugleika. En það hvarflar ekki að þeim að taka upp evru.
Benedikt er formaður Viðreisnar, flokks sem stofnaður var til að gera ísland að ESB-ríki. Viðreisn mælist ítrekað utan þings í skoðanakönnunum. Formanninum er nokkur vorkunn að búa sér til draumsýn um Ísland í ESB og vinsæla Viðreisn. Draumóramaður sem reynir að selja þjóðinni ESB-aðild út á lægri vexti er kominn út í móa.
Sennilega grunar Benedikt að dagar hans eru taldir í pólitík. Fyrirsögnin á greininni í Fréttablaðinu er: Má fjármálaráðherra hafna krónunni?
Þegar menn tala við sjálfa sig í þriðju persónu á opinberum vettvangi er komin sterk vísbending um að tengingin við raunveruleikann sé farin að trosna.
Benedikt: ber skylda til að hafna krónunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Aðgerðir og aðgerðarleysi Seðlabankans hafa mikið um það að segja hver staða íslensku krónunnar er. Allt og hátt vaxtastig og gífurleg kaup á erlendum gjaldeyri gera það að verkum að krónan er allt of sterk sem getur að lokum valdið hruni í stað mjúkrar lendingar, eins og stundum er talað um. Maður gæti haldið að þetta sé allt með ráðum gert, samspil Seðlabanka og fjármálaráðuneytis.
Tómas Ibsen Halldórsson, 20.7.2017 kl. 13:26
Evran er ekki stöðugur gjaldmiðill. Til dæmis hefur hún veikst um rúm 20% gagnvart krónunni á undanförnum 3 árum. Gengið er þó aðeins einn mælikvarði af mörgum. Stærsti vandi evrunnar er nefninlega pólitískur óstöðugleiki, sem er útilokað að staðsetja á einhverjum tölulegum mælikvarða, en dylst þó engum að er engu að síður stærsta ógnin við stöðugleika evrunnar.
Það er rangt að enginn gjaldmiðill í heiminum sé stöðugur. Á Íslandi er einmitt í umferð gjaldmiðill sem er klettstöðugur, en það eru umbúðir undan gosdrykkjum. Ástæðan er sú að þær eru innleysanlegar gegn skilagjaldi sem er verðtryggt þannig að það hækkar árlega í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs. Fyrir vikið hefur hver eining af umbúðum nákvæmlega sama kaupmátt og hún hafði á fyrsta deginum eftir að skilagjaldið var fyrst innleitt hér á landi. Nú kann einhverjum að þykja þessi samlíking fáránleg en hún er það alls ekki ef betur er að gáð. Fyrst hægt er að setja lög sem kveða á um að innlausnargjald gosdrykkjaumbúða sé verðtryggt, er ekkert því til fyrirstöðu að setja lög sem kveða á um að innlausnarverð peninga skuli vera verðtryggt á nákvæmlega sama hátt. Hvort inneignarnótan sé í formi áldósar eða pappírsmiða skiptir ekki máli í því sambandi.
Þannig væri ekkert því til fyrirstöðu að taka upp sem lögeyri, stöðugasta gjaldmiðil í heimi: verðtryggðu krónuna. Það er að segja ef mönnum þykir slíkur stöðugleiki á annað borð vera eftirsóknarverður.
Guðmundur Ásgeirsson, 20.7.2017 kl. 13:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.