Föstudagur, 7. júlí 2017
Þjóðernishyggja, bandarísk og rússnesk
Forsetarnir Trump og Pútín eru hvor sín útgáfa af þjóðernishyggju. Trump sýndi það í gær að pólsk og bandarísk þjóðernishyggja fara ágætlega saman. Hvers vegna ekki bandarísk og rússnesk?
Áður en Trump varð forseti stóðu Bandaríkin fyrir útþenslustefnu, bæði í Evrópu og miðausturlöndum. Í samvinnu við Evrópusambandið og með Nató sem verkfæri byggðu Bandaríkin upp herstöðvar eftir endilöngum vesturlandamærum Rússlands, frá Eystrasalti niður til Svartahafs. Ríkin sem Nató innbyrti voru áður í hernaðarbandalagi með Rússum, á tímum Sovétríkjanna.
Eftir fall Sovétríkjanna 1991 vöruðu Rússar ítrekað við útþenslu Bandaríkjanna í Austur-Evrópu. Hernaðaruppbygging Nató var ógn við þjóðaröryggi Rússa. Á þá var ekki hlustað. Þegar til stóð að gera Úkraínu að áhrifasvæði Nató 2013 sögðu Rússar hingað og ekki lengra.
Útþensla Bandaríkjanna í miðausturlöndum komst á nýtt stig með innrásinni í Írak 2003. Bandaríkin ætluðu að umbreyta miðausturlöndum í vestræn þjóðríki. Það mistókst og 14 árum seinna er heimshlutinn nánast samfellt ófriðarsvæði. Ófriðurinn teygir sig til vesturlanda og birtist í hryðjuverkum.
Lykillinn að friðsamlegri sambúð Bandaríkjanna og Rússlands er að skilja muninn á milli þjóðernishyggju og heimsvaldastefnu. Sumum er það ofviða.
Allra augu á Trump og Pútín | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.