Fimmtudagur, 20. apríl 2017
Ísland, Færeyjar og 50 þúsund sálna þröskuldurinn
Íslendingar voru 50 þúsund eða þar um bil allar aldir frá því þegar landið var fullbyggt og fram á 19. öld. Ef þjóðinni fjölgaði að ráði yfir 50 þúsund var stutt í næsta mannfellir vegna sjúkdóma eða náttúruhamfara. Í góðærinu á fyrri hluta aldarinnar sköpuðust forsendur fyrir stígandi fólksfjölgun.
Þrátt fyrir harðindakafla eftir miðja 19. öld og kreppu heiðarbýlanna á seinni hluta aldarinnar var þjóðin búin að ná sér á strik - komin yfir 50 þúsund sálna þröskuldinn.
Samhliða stígandi fólksfjölda urðu Íslendingar sannfærðir að þeir gætu búið í fullvalda þjóðríki. Sjálfstæðisbarátta í hundrað ár skilaði okkur lýðveldi.
Frændur okkar Færeyingar eru nýorðnir 50 þúsund. Til hamingju.
Athugasemdir
Sæll
Voru Íslendingar ekki nálægt því að vera 100 þúsund áður en harðna fór á dalnum seint á miðöldum og Norðmenn aðeins þrisvar sinnum fleiri? Jón biskup Arason sat í ríkisráði Noregs þar eð Ísland var öflugur hluti konungsveldisins sem þá heyrði orðið undir konung Dana.
Einar Sveinn Hálfdánarson, 20.4.2017 kl. 10:50
Sæll,
Gunnar Karlsson sagnfræðingur fer yfir mannfjöldapælingar á miðöldum í Lífsbjörg Íslendinga, sem kom út í 2009. Lágmarksfjöldi Íslendinga segir hann vera 30 þús. og hámarksfjöldi 60 þús. Á þessum tíma hlutfall Íslendinga á móti Norðmönnum um einn á móti 10 til 15. Gunnar nefnir 45 þúsund sem líklegan fjölda.
Pælingar um mannfjölda á miðöldum eru ágiskanir út frá lögbýlum, en þeirra tala er nokkuð ljós. Í manntalinu 1703 erum við rétt liðlega 50 þúsund og það þykir nokkuð traust heimild.
Það er fremur ólíklegt að fjöldi Íslendinga hafi verið nokkru sinni verulega meiri en í kringum 50 þúsund - fyrr en á 19. öld.
Páll Vilhjálmsson, 20.4.2017 kl. 12:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.