Frjálslyndir vinstrimenn í nýju köldu stríði

Seinna kalda stríðið á milli Bandaríkjanna og Rússa er rekið áfram af vinstrimönnum eins og Obama forseta og Clinton-hjónunum, Bill og Hillary. Í gamla kalda stríðinu, sem lauk fyrir aldarfjórðungi, tíðkuðu stórveldin að reka heim sendiráðsfólk hvors annars. Sá leikur er endurtekinn með brottrekstri 35 Rússa frá Bandaríkjunum að skipun forseta sem lætur af störfum eftir þrjár vikur.

Í Bandaríkjunum takast á tveir hópar um utanríkisstefnuna: hugmyndafræðingar og raunsæismenn. Hugmyndafræðingarnir vilja útflutning á bandarískum gildum og sjá óvini í öllum þeim sem efast um yfirburði bandarískra lífshátta. Raunsæismenn telja heiminn aðeins of flókinn fyrir svart-hvíta heimsmynd hugmyndafræðingana.

Bandarískir hugmyndafræðingar í alþjóðamálum stóðu fyrir innrásinni í Írak 2003 þar sem fornu menningarríki skyldi breyta í skjólstæðing Bandaríkjanna með því einfaldlega að skipta um stjórnvald. Það mistókst og Írak er ónýtt ríki. Sömu öfl stóðu fyrir tilrauninni í Úkraínu 2014, í bandalagi við Evrópusambandið, þar sem Úkraína skyldi gerð vestræn. Í dag er landið klofið í tvo hluta. Sýrland er þriðji vettvangurinn og það ríki er í molum.

Hugmyndafræðingarnir bandarísku eru af tveim stofnum, kaldastríðshægrimenn eins og John McCain og frjálslyndir vinstrimenn á borð við Obama forseta og Clinton-hjónin. Íhaldssamir hægrimenn, t.d. Patrick J. Buchanan, og vinstrimenn af gamla skólanum, Stephen F. Cohen, eru í liði raunsæismanna.

Ástæða þess að frjálslyndir vinstrimenn eru orðnir ákafir í herskárri utanríkisstefnu hugmyndafræðinganna er sú að heima fyrir gengur illa. Erfiðleikar bandaríska fjölmenningarsamfélagsins, með kynþáttaóeirðum og vaxandi efnahagslegri misskiptingu, verða minna áberandi þegar barist er fyrir bandarískum gildum á alþjóðavettvangi - sérstaklega þegar óvinurinn er stór og máttugur.

Raunsæismenn skilja heiminn betur en hugmyndafræðingar. Dæmi um yfirvegaða og skýra greiningu á sambúðarvanda Bandaríkjanna og Rússlands er eftir Raymond Smith. Hann bendir á hið augljósa, að sérhver þjóð skilgreinir sína eigin öryggishagsmuni, og rekur utanríkisstefnu á þeim forsendum.

Donald Trump endurskilgreinir bandaríska hagsmuni og telur þá liggja heima fyrir en síður í útlöndum. Endurskilgreiningin kippir fótunum undan utanríkisstefnu hugmyndafræðinganna. Svar frjálslyndra vinstrimanna er að Trump hljóti að vera höfundarverk Pútíns Rússlandsforseta.

 


mbl.is Ráku 35 Rússa úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrossabrestur

Þetta segir okkur það sem allir vissu, vinstra fólk eru ekki skörpustu hnífarnir í skúffunni.

Hrossabrestur, 30.12.2016 kl. 12:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband