Laugardagur, 17. desember 2016
RÚV býr til fréttir en ekkert réttlæti: Framsókn og Samherji
RÚV er bæði ákærandi og dómari í málefnum Framsóknarflokksins og Sigmundar Davíðs, sem kennd eru við Panamaskjölin. Aðrir fjölmiðlar, sem höfðu sama aðgang og RÚV að skjölunum, t.d. Guardian, komust að allt annarri niðurstöðu en fréttamenn á Efstaleiti
Guardian hefur ekki sé neinar sannanir fyrir skattaundanskotum, undabrögðum eða óheiðarlegum ávinningi Sigmundar Davíðs, Önnu Sigurlaugar eða Wintris.(The Guardian has seen no evidence to suggest tax avoidance, evasion or any dishonest financial gain on the part of Gunnlaugsson, Pálsdóttir or Wintris.)
RÚV stakk undir stól fréttum sem staðfestu að engu vanhæfi var til að dreifa hjá Sigmundi Davíð sem forsætisráðherra. Þetta heitir að ljúga með þögninni.
RÚV lítur á sig sem ríki í ríkinu og þess megnugt að deila út sekt og sýknu í stórum málum og smáum. Eyjan segir frá sérkennilegri aðkomu RÚV, svo ekki sé meira sagt, að málefnum sem tengjast rannsókn á meintum gjaldeyrisbrotum Samherja. Útsendari RÚV gengur á milli opinberra embætta með gögn og hvetur til rannsókna á meintum glæpum.
Í aðferðafræði RÚV felst tvöföld hótun. Í fyrsta lagi hótun gagnvart opinberum stofnunum, sem lúta ekki vilja RÚV að rannsaka mál sem fréttamenn á Efstaleiti vilja að verði rannsökuð. Opinberar stofnanir gætu átt á hættu að vera teknar fyrir af RÚV ef þær spila ekki með. Í öðru lagi hótar RÚV þeim sem eru til rannsóknar að beita sér til að virkja almenningsálitið gegn viðkomandi - rétt eins og í tilfelli Sigmundar Davíðs og Framsóknarflokksins.
Allsherjarvantraust almennings eftir hrun á stjórnmálum og stofnunum nýtti RÚV og tók sér stöðu sem Stóridómur almannahagsmuna. RÚV þykist starfa í þágu réttlætis en notar hálfsannleik, ýkjur og lygar til að berja á þeim sem komast í skotlínu Gróu á Efstaleiti. Stóridómur RÚV er siðferðilegt, pólitískt og réttarfarslegt stórslys.
Sigmundur Davíð í samráð við RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef fréttamenn RUV (eða aðrir fjölmiðlamenn) telja sig hafa mál í höndum sem eru rannsókarverð, þá er það auðvitað grunsamlegt ef viðeigandi aðilar neita að skoða málin.
Ef viðkomandi fjölmiðill eða fjölmiðlamenn er ítrekað að koma fram með einhverja vitleysu sem eru bæði fjár og tímaeyðsla, þá missa þeir trúverðugleika sinn. Það er best að slíkt komi í ljós frekar en að opinberar stofnanir reyni að þagga niður í fjölmiðlum eða hunsi athugasemdir þeirra.
Gunnar Th. Gunnarsson, 17.12.2016 kl. 16:04
Hygg að í náinni framtíð verði vinnubrögð RÚV notuð sem kennslugögn um óhæf vinnubrögð.
Heimir Lárusson Fjeldsted, 17.12.2016 kl. 22:24
Þarna er sannleikurinn sagður um þessar einstöku fréttapersónur á RÚV sagður umbúðalaust. Einhver mannleg illgirni og/eða pólitík ríður þar húsum, ekki hlutlægni eins og erlendis tíðkast hjá vönduðum fréttahaukum.
Halldór Jónsson, 18.12.2016 kl. 06:16
Málið snerist um að forsætisráðherrann þáverandi þrætti í sjónvarpsviðtali fyrir að eiga aðild að aflandsfélaginu Wintris á Tortóla. Neyddist síðan til að viðurkenna tilvist Wintris og staðfesta með því að það, sem "lekið" var í Panamaskjölunum var rétt.
Fór síðan einstæða sneypuför til Bessastaða á bak við sinn eigin þingflokk og þingflokk samstarfsflokksins til þess að fá forseta Íslands til að skrifa upp á heimild til þingrofs.
Byrjaði síðan kosningabaráttuna í Sjónvarpi með því að afneita því að hafa gert neitt rangt og fullyrða að Tortóla væri alþjóðlega ekki álitin skattaskjól.
Ómar Ragnarsson, 18.12.2016 kl. 09:13
Mikið eiga menn eins og Ómar Ragnarsson sem ennþá reyna hanga i illsku og ósannindum bágt !
rhansen, 18.12.2016 kl. 15:06
Ómar bendir á staðreyndir, það særir valdasleikjurnar.
Jón Ragnarsson, 18.12.2016 kl. 18:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.