Laugardagur, 12. mars 2016
Sigurpólitík vorið 2017: bankar og sjúkrahús
Sigurvegarar næstu þingkosninga verðar þeir stjórnmálaflokkar sem bjóða milliveg tveggja öfga í fjármálakerfi þjóðarinnar. Öfgarnar eru ríkiseign á stærsta hluta fjármálastofnana ríkisins annars vegar og hins vegar að einkaaðilar fái bankana í hendurnar með tilheyrandi græðgisvæddum öfgum.
Umræða síðustu vikna um arðgreiðslur tryggingafélaga sýna að almenningur er næmur á fréttir af óhófi ættuðu úr 2007-hugarfarinu.
Líkt og ríkisstjórn vinstriflokkanna 2009-2013 komst að raun um er ekki nóg að efnahagslífið rétti úr kútnum og velmegun blasi við til að stjórnarflokkar fái meðbyr í kosningum. Þótt hér sé bullandi góðæri sjást þess ekki merki í fylgi við stjórnarflokkanna.
Stjórnmálaflokkar verða að bjóða trúverðuga stefnu í meginmálum til að fá stuðning. Auk fjármálastofnana er heilbrigðiskerfið, einkum sjúkrahúshluti þess, í brennidepli umræðunnar.
Ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, gerðu vel í því að sammælast um stefnu í þessum tveim málaflokkum. Veigamesta einstaka ákvörðunin, sem þarf að liggja fyrir á næstu vikum ef ekki dögum, er hvar nýtt hátæknisjúkrahús á að rísa. Án fullrar samstöðu stjórnarflokkanna um staðsetningu sjúkrahússins er málið runnið þeim úr greipum. Garðabæjar-útspilið í liðinni viku gæti skipt sköpum. Ef það er lífvænleg hugmynd þarf að myndast um hana samstaða á æðstu stöðum ekki seinna en strax. Ef ekki þá er að setja aukinn kraft í uppbygginguna á Landsspítalasvæðinu.
Ríkisstjórnarflokkarnir eiga alla möguleika að ná vopnum sínum fyrir kosningarnar að ári. Vinstriflokkarnir eru í upplausn og Píratar hanga uppi í skoðanakönnunum án þess að styðjast við neinar málefnalegar undirstöður.
En ríkisstjórnarflokkarnir geta líka klúðrað sínum málum, t.d. með því að ganga ekki í takt í málefnum sem sannanlega eru þjóðinni ofarlega í huga.
Heimila yfirtöku á Íslandsbanka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það skiptir ekki nokkru máli hvort einhverjir stjórnmálaflokkar eru hér, þar, allsstaðar, eða hvergi.
Þótt það væri ekki einn einasti stjórnmála-klíku-flokkur á Íslandi, þá þarf fólk húsnæði og lifibrauð á verði sem er í samræmi við ÚTBORGUÐ laun verkafólks og fyrirtækja eftir skattaokur, lífeyrissjóðsokur og allt annað ríkisskyldað útgjaldaokur!
Er ekki möguleiki á að það birti aðeins til í siðrofi og óskýru hugar-sýkisfari einhverra, af öllum þessum lögfræðistýrðu sjálftökuforstjórna-kjararáðs-valdníðingum þessa lands?
Hvað þarf að gerast stórt og alvarlegt samfélags-slys, til að faldavalds-varðfólk vakni til meðvitundar í raunheimum, og skilji einföldustu staðreyndir mannúðar-mennskunnar og verjandi siðferðishegðunar?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 12.3.2016 kl. 12:57
Þú vilt taka upp stefnu Katrínar Jakobsdóttur í menntamálum, fyrir þessa 2 flokka! Flokka án aðgreiningar Tilboð: 2 fyrir 1
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 12.3.2016 kl. 13:47
"Píratar hanga uppi í skoðanakönnunum án þess að styðjast við neinar málefnalegar undirstöður"
Þessi athugasemd á sér engar málefnalegar undirstöður.
Guðmundur Ásgeirsson, 12.3.2016 kl. 17:29
Mig langar ekki að særa Guðmund en finnst lýsing Páls passa hæfilega við Pírataflokkinn. Skil alls ekki fylgið við flokkinn en það má alltaf finna einn og einn hæfan stjórnmálamann í óskiljanlegum flokki.
Elle_, 12.3.2016 kl. 19:31
Elle. Það særir mig ekkert þó fólk fari með rangt mál, heldur er það þeirra vandamál sem slíkt gera, og dæma sjálfa sig þannig ómarktæka.
Hér má kynna sér málefnalegar undirstöður Pírata:
http://www.piratar.is/stefnumal/grunnstefna/
http://www.piratar.is/stefnumal/
Kosningakerfi Pírata - Píratar
Eins og þar má sjá er það hrein lygi að þær séu engar.
Það er jafn mikið að marka slíkan málflutning eins og að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi engar málefnalegar undirstöður, eða Samfylkingin, eða hvaða annar stjórnmálaflokkur sem er.
Ef fólki finnst það þurfa að hafa skoðun á tilteknum flokki eða stefnumálum hans, væri mun gagnlegra að taka þá umræðu um þau, heldur en að reisa strámenn og beina lygum að þeim, sem er barnaleg hegðun í besta falli.
Sem betur fer skilur flest skynsamt fólk þetta ágætlega.
Guðmundur Ásgeirsson, 12.3.2016 kl. 19:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.