Föstudagur, 11. desember 2015
Skrílræði góða fólksins
Skrílræði nútímans gengur út á að virkja frumstæðar kenndir fólks til að kýla á ákvörðun sem ekki væri tekin af yfirlögðu ráði. Kenndirnar eru virkjaðar í samfélagsmiðlum og fá þar útrás.
Hvatirnar sem gera fólk að skríl eru í grunninn sjálfselskar. Fólk leitar að sjálfsupphafningu á kostnað útvalins skotmarks. Í umræðunni um albönsku flóttamennina kemur þetta eigingjarna eðli skrílsins skýrt fram.
Eggert Skúlason skrifar leiðara sem byrjar á fyrstu persónu eintölu: ,,Flesta daga er ég sáttur við að vera Íslendingur. Svo koma dagar þar sem ég er stoltur af því. En í gær, 10. desember, skammaðist ég mín..." Frey Bjarnason byrjar líka á sjálfum sér: ,,Ég þykist oft vera grjótharður..."
Eggert og Freyr krefjast þess að samfélagið taki breytingum út frá persónulegum hvötum þeirra sjálfra. Þeirra vanlíðan skal vera mælikvarði á opinbera stefnu. Eggert og Freyr leysa úr læðingi eigingjarnar frumhvatir til að vera með í bylgju á fjölmiðlum og samfélagsmiðlum sem á að breyta opinberri stefnu í málefnum flóttamanna.
Skrílræði er andstæða ígrundunar og yfirvegunar. Samfélag skrílræðis er uppskrift að óeiningu og sundurlyndi.
![]() |
Um 5.500 krefjast afsagnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vel mælt.
Þorgeir Ragnarsson, 11.12.2015 kl. 10:22
Heyr heyr kæri Páll.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 11.12.2015 kl. 11:31
Hafi miskunnsami Samverjinn verið til var hann þá bara að upphefja sjálfan sig og setja fordæmi um skrílræði?
Ómar Ragnarsson, 11.12.2015 kl. 13:19
Omar
Hvernig í ósköpunum færðu þessa niðurstöðu ??
Samverjinn gerði allt án nokkurrar kvaðar, greiddi leigu og uummmönnunarkostnað fram í tímann fyrir gyðinginn og vænti engrar upphafningar né auglýsti hann góðmennsku sína á götuhornum eins og „góða fólkið“ gerir nánast undantekningarlaust.
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 11.12.2015 kl. 15:50
Það er ekki hægt að krefjast þess að leðarahöfundum blaða að þeir megi ekki tjá skoðanir sínar né ljá þeim málum stuðning, sem þeim finnst mikilsverð.
Ómar Ragnarsson, 11.12.2015 kl. 16:02
Verð að taka undir með Prédikara. Það stoppar enginn miskunnsömu samverjana í að hjálpa litla stráknum. Við erum bara ekki með botnlausan ríkissjóð fyrir heiminn og Landspítalinn fær ekki fjármagn sem læknar þar segja að hann vanti.
Elle_, 11.12.2015 kl. 18:30
Fær litli strákurinn ekki læknishjálp þaðan sem hann kom? Það eru læknar og spítalar þaðan sem faðirinn kom með litla strákinn og þar er ekki stríð.
Elle_, 11.12.2015 kl. 19:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.