Danir íhuguðu að selja Ísland, síðast 1864

Danakonungur reyndi að selja Ísland, eins og Hannes Hólmsteinn rekur, árin 1518, 1524 og 1535 til Hinriks VIII Englandskonungs. Hansakaupmönnum var boðið Ísland 1645. Dönsk stjórnvöld létu ekki þar staðar numið.

Eftir að Danakonungar létu af einveldi um miðja 19. öld stríddu dönsk stjórnvöld við þýsk um hvar landamæri Danmerkur og þýska ríkisins, sem þá var í mótun, ættu að liggja. Hertogadæmin Slésvík og Holstein eru umdeildu landamærahéruðin.

Stríðið 1864, sem samnefnd sjónvarpsþáttarröð var gerð um, snerist um landamærin. Danir töpuðu og urðu að leita friðarsamninga. Í bók sagnfræðingsins Tom Buk-Swienty, Dommedag Als, segir að danski forsætisráðherrann, Blumhe, hafi viljað bjóða Ísland í skiptum fyrir ,,smávegis af slésvískri jörð." Á máli Dana: 

Hvor stor desperationen var efter blot at vinde en smule af Slesvigs jord, fremgik af, at Bluhme på en af statsrådsmöderne foreslog, at danskerne byttede Island for et stykke af det nordlige Slesvig. (Dýpt örvæntingarinnar um að fá til tilbaka smávegis af slésvískri jörð sést á því að Bluhme lagði til á einum ríkisráðsfundi að Danir skiptu á Íslandi og hluta af Norður-Slésvík). (Dommedag Als, 370).

Tillagan fékk ekki meðbyr hjá konungi, sem þrátt fyrir afnám einveldis, átti nokkur völd. Ekki síst eftir að borgaralegir stjórnmálamenn höfðu klúðrað málum jafn hressilega og þeir dönsku í stríðinu við Prússa.

Ef Þjóðverjar hefðu sóst eftir Íslandi 1864 er líklegt að Danir hefðu gefið landið eftir. Þjóðverjar einblíndu á hinn bóginn að treysta stöðuna innanlands, líkt og Hinrik VIII á Englandi á 16. öld, og höfðu ekki áhuga á eyju á miðju Atlantshafi.

England varð heimsveldi á 17. öld og Þjóðverjar reyndu að verða það á 20. öld. Ef Ísland hefði verið undir öðru hvoru ríkinu væri saga okkar önnur.

Lærdómur: hugsum hlýlega til þess að hafa verið undir dönsku yfirvaldi. Þökkum þeim glæðum þjóðerniskenndar sem Fjölnismenn og Jón Sig. blésu í um miðja 19. öld og leiddu til fullveldis 1. desember 1918 - rétt eftir að Englendingar og Þjóðverjar voru nýbúnir að slátra hvorum öðrum í milljónavís í fyrri heimsstyrjöld.


mbl.is Ísland ítrekað falboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband