Laugardagur, 5. september 2015
Sókrates, Samherji og meginstofnanir samfélagsins
Forn-gríski heimspekingurinn Sókrates var dæmdur að ósekju til dauða í Aþenu. Vinir hans gerðu flóttaáætlun. Sókrates hafnaði flótta með þeim rökum að þótt hann væri saklaus af ákærum komst dómstóll 500 Aþenumanna að niðurstöðu. Það væri ekki Sókratesar að vefengja æðsta dómstól borgarinnar sem ól hann og skóp aðstæður fyrir gjöfult líf. Sókrates drakk eiturbikar Aþenumanna af virðingu fyrir heildarhagsmunum.
Seðlabanki Íslands er ásamt alþingi, stjórnarráði og dómstólum meginstofnun samfélagsins. Eftir hrun voru sett á gjaldeyrishöft í þágu almannahagsmuna. Gjaldeyrishöftin urðu ekki til alsköpuð í einu vetfangi heldur þurfti nokkrar tilraunir. Meginmarkmiðið var skýrt. Almenningur skyldi finna sem minnst fyrir höftunum en stórnotendur gjaldeyris skyldu bera hitann og þungann af þeim. Þetta er sanngjarnt sjónarmið og í þágu heildarhagsmuna.
Seðlabankinn beindi sjónum sínum að nokkrum grunsamlegum atvikum um meðferð gjaldeyris, m.a. að einu öflugasta fyrirtæki landsins, Samherja. Mál Samherja fór í rannsókn hjá embætti sérstaks saksóknara, sem þýðir að aðili óháður Seðlabankanum mat málsatvik þannig að þau réttlættu framhald málsins. Nú hefur réttmæt málsmeðferð í lýðræðisríki leitt til þeirrar niðurstöðu að mál gegn Samherja og stjórnendum skuli felld niður.
Eigendur og talsmenn Samherja eiga nú um tvo kosti að velja. Að fagna niðurstöðunni og halda áfram að gera það sem þeir gera best, að veiða fisk og selja. Í öðru lagi geta Samherjamenn troðið illsakir við meginstofnanir samfélagsins með þeim rökum að sakir á hendur þeim voru rangar.
Meginstofnanir samfélagsins sjá til þess að undirkerfin samfélagsins virki. Eitt mikilvægt undirkerfi er fiskveiðistjórnunarkerfið. Það var sett á þegar Samherji sleit barnsskónum sem lítil útgerð á Akureyri um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Samherji er orðið að einu stærsta fyrirtæki landsins, þökk sé þeirri staðreynd að meginstofnanir samfélagsins eru starfi sínu vaxnar og undirkerfin tikka eins og til er ætlast.
Við hrunið riðuðu meginstofnanir samfélagsins til falls. Æstur múgur gekk um götur og torg og heimtaði uppstokkun á helstu stofnunum samfélagsins og svo sannarlega vildi múgurinn fiskveiðistjórnarnarkerfið feigt.
Meginstofnanir samfélagsins stóðu af sér atlöguna í kjölfar hrunsins. Ekki síst vegna þess að þær sýndu almenningi með verkum sínum að stofnanir starfa í þágu almannaheilla en ekki þröngra sérhagsmuna.
Áður en eigendur og stjórnendur Samherja gera upp við sig hvort þeir ætla una sáttir við málalok í vegna gjaldeyrishaftanna eða efna til ófriðar ættu þeir að íhuga fordæmi Sókratesar. Enginn biður Þorstein Má og Samherjamenn að drekka eiturbikar enda var hann þeim aldrei réttur; þeir eru sýkn saka. Í fullri vinsemd eru Samherjamenn beðnir að fallast á það sjónarmið að ábyrgir aðilar ættu ekki nema í lengstu lög að leggja til atlögu meginstofnanir samfélagsins með það að markmiði að grafa undan trúverðugleika þeirra.
Sakamál vegna Samherja fellt niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eins og svo oft áður þá er málið ónýtt vegna tæknigalla Páll. Málinu er vísað frá vegna þess að ráðherra undirritaði ekki reglur Seðlabankans. Sem þýðir náttúrulega ekki að stjórnendur Samherja hafi ekki sniðgengið reglurnar sem almenningur þarf að fara eftir. Hvort forstjóri Samherja lætur gott heita efast ég um. Þessir menn sem eiga kvótann eru orðnir of valdamiklir til að láta embættismenn setja sér stól fyrir dyr. Már verður ofsóttur með hjálp pólitískra leiguliða uns hann verður flæmdur úr starfi og sennilega flæmdur úr landi.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 5.9.2015 kl. 13:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.