Baugslýðveldið og heiðarlegasta fjölskyldan

Í Baugslýðveldinu er það vanþakklæti að setja sig upp á móti heiðarlegustu fjölskyldu landsins. Maður kaupir matvöruna í verslun fjölskyldunnar og spjarirnar einnig; les dagblöð og tímarit fjölskyldunnar, horfir á sjónvarpið hennar og skiptir við símafyrirtækið sem er í sömu eigu auk þess að vera með reikning í banka grandvöru fjölskyldunnar. Það gefur auga leið að réttlætið hlýtur að standa við hlið góðmennsku slíkrar fjölskyldu.

Lögmaður sem tekur að sér málarekstur í óþökk vammlausu fjölskyldunnar brýtur gegn fyrsta lögmáli Baugslýðveldisins. Í orðastað fjölskyldunnar hljómar það svona: Við erum rík og rétturinn er okkar megin.


mbl.is Hreinn: Spurning um hvaða hópur áhrifamanna ætlaði að beita sér gegn Baugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Páll, ef maður rennir yfir annars ágætar færslur þínar skín í gegn hve gífurlega þú ert á móti öllu og öllum sem gengur vel, hverju sætir þetta?

Sigfús Sigurþórsson., 22.3.2007 kl. 12:24

2 identicon

Þú ert greinilega með Geislabauginn á heilanum, elsku kallinn minn. Þeir eru með fyrirtaks meðferð við þessari plágu, bæði uppi á Vogi og suður í Egyptalandi.

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 13:19

3 identicon

Þetta er allt hárrétt hjá þér Páll. Haltu ótrauður áfram !

johann (IP-tala skráð) 22.3.2007 kl. 15:29

4 Smámynd: Ólafur Als

Steini, sæll félagi, gengur ekki bara vel hjá stráknum? Ertu nú farinn að vísa fólki í meðferð? Hverju sérhæfa þeir sig í, suður við ósa Nílar? Er ekki jafn vel að mér í lækningalistinni og áður. Páll bregður hér upp umhugsunarverðri sýn á íslenskan raunveruleika, þykir mér, hvað sem öðru líður.

Kveðja til ykkar beggja, Steina og Páls.

Ólafur Als, 22.3.2007 kl. 16:22

5 Smámynd: Auðun Gíslason

Er nú ekki málið það, að Baugsmenn er fyrir rétti og hafa fram að þessu verið sýknaðir og verða væntanlega sýknaðir í þessum síðasta hluta þessarar lönguvitleysu. Það hafa ýmsir þolað heldur illa.  Öfundin er slæmur brestur, sem menn ættu að reyna að losa sig við. Ég hef hingað til ekki haft samúð með kapítalistum og tilburðum þeirra, en þetta eru altént manneskjur, sem í hlut eiga. Ég hef hins vegar ekki getað séð betur en að Baugsmálið sé birtingarmynd á einhvers konar uppgjöri í íslensku viðskiptalífi. Gamla veldið á eitthvað bágt með að þola fólk sem ekki er af réttum ættum og/eða úr réttum "kredsum". Það mátti sjá einn úr gamla veldinu reyna að réttlæta úreltar aðferðir gamla heildsala- og sambandsveldisins í Kastljósinu. Vitanlega hafa einhverjir farið illa útúr viðskiptum við Baugsmenn, en það ekki bara þannig í viðskipalífinu. Það væri kannski hollt að rifja upp, hvernig ýmsir hvolpar ötuðust í Óla Kr. í Olís á sínum tíma.

Saksóknari er hinsvegar eins og steingeldur högni að eltast við kisurnar. Ekkert gengur. Aftur og aftur. Og ekkert gengur. Hversvegna? Það er bara engin innistæða fyrir tilburðunum! Aftur og aftur!

Auðun Gíslason, 22.3.2007 kl. 21:58

6 identicon

Ég þakka góðar kveðjur sunnan úr Daníá, Óli minn Als. Vona að danskurinn fari vel með þig og engin vanhöld séu á fé þar syðra. Alexander og félagar í Soundspell sungu og spiluðu ásamt Lay Low við góðar undirtektir í Hljómalind í kærkveldi.

Já, ég minntist hér á lækningar suður í Egyptalandi vegna þess að farsóttasagnfræðin hefur mátt þola harðar árásir póstmódernista á undanförnum árum og sér raunar ekki fyrir endann á þeim átökum enn. Til að glöggva okkur á eðli þessarar deilu er rétt að taka lítið dæmi:

Árið 1998 ritaði franski vísindafélagsfræðingurinn Bruno Latour merka grein í tímaritið La Recherche sem bar heitið “Ramsès II est-il mort de la tuberculose?” Eins og nafnið gefur til kynna fjallaði hún um dauða Ramsesar II faraós í Egyptalandi en hann er talinn hafa dáið um 1225 fyrir Krist. Árið 1976 rannsakaði hópur vísindamanna múmíu einvaldsins með hjálp röntgentækni og komst að þeirri niðurstöðu að banamein hans hafi verið berklar. Hefur sá fróðleikur ratað inn í ýmis uppflettirit og kennslubækur.

En Latour er öldungis ekki sammála þessari sjúkdómsgreiningu. Að hans mati er jafn fráleitt að halda því fram að berklar hafi komið Ramsesi fyrir kattarnef og að segja að hann hafi verið sallaður niður með vélbyssu eða dáið úr hjartaáfalli í kjölfar hruns á hlutabréfamarkaðnum. Hann bendir á að berklabakteríunni hafi fyrst verið lýst af Robert Koch árið 1882, löngu eftir að faróinn umræddi var allur. Þetta litla atriði bendir því allt til fyrirmyndar lækninga í Egyptalandi, samkvæmt póstmódernískum fræðum, Óli minn. Farðu vel með þig ævinlega.

Steini Briem (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 02:40

7 identicon

Varstu búinn að sjá þetta Páll?

Fyndinn ómerkingur hjá Rannís
22 mar. 2007
Eitthvert fyndnasta Moggabloggið á Páll Vilhjálmsson, sviðsstjóri upplýsinga- og útgáfusviðs Rannís, sem nær daglega lætur í ljósi óbeit sína á Baugi og öllum sem því fyrirtæki tengjast. Sviðstjórinn á ríkisjötunni situr dagana langa við að semja níð um sakborninga Baugssmálsins og hefur fyrir löngu gefið til kynn að þeir séu sekir þótt Hæstiréttur hafi ekki kveðið upp sinn dóm. Páll er sjálfur ekki ókunnugur því hvernig er að vera fyrir dómi því hann var á sínum tíma dæmdur ómerkur orða sinna. Hann stýrði þá einum umdeildasta fjölmiðli landsins, Helgarpóstinum, og klóraði í æru Hreggviðs Jónssonar, forstjóra Íslenska útvarpsfélagsins, sem fór í mál og vann. Á þessum árum var svo að sjá sem Páll væri með Jón Ólafsson, athafnamann og samstarfsmann Hreggviðs, á heilanum og bar Helgarpósturinn þess merki. Nú hefur Jón vikið fyrir Baugsmönnum. Sviðstjóri Rannís var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur til að greiða Hreggviði verulegar bætur og sem ómerkingur bar honum að kosta birtingu dómsins í þremur dagblöðum eða sæta fangelsi ella. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvort hann sat inni vegna málsins ....

Friðjón B (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 10:40

8 Smámynd: Auðun Gíslason

Friðjón! Takk fyrir upplýsingarnar. Hef einmitt verið að velta þessu fyrir mér. Hvað starfa menn sem eru svona miklir bloggarar? Hvernig hafa þeir tíma í allar þessar skriftir? Páll er sem sagt í sömu stöðu og Hannes Hólmsteinn. Báðir á framfæri hins opinbera. Vona bara að staðan sé ekki klæðskerasaumuð, eins og fyrsta starf Hannesar við Háskólann!

Einu sinni þekkti ég mann sem samkv. framtali var á framfæri aldraðrar móður  sinnar, en varla var í BSRB eins Páll.

Auðun Gíslason, 23.3.2007 kl. 11:30

9 identicon

Friðjón. Páll á nú sinn rétt á sínum frítíma eins og aðrir og líklega skrifar hann pistla sína þá. Hvað kemur það síðan málinu við að Páll sé ríkisstarfsmaður ???

Johann (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 18:51

10 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Rannsóknavinnan sem Friðjón B. vitnar í er heldur gloppótt en í henni  er skemmtileg tilviljun. Lögmaður Hreggviðs, en ég skrifaði 1997 um hann og viðskiptin sem hann átti við trillusjómann á Þórshöfn, var Gestur Jónsson sem núna er verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannssonar.

Og af því að við erum að tala um lögmenn, þá ætti Friðjón B. líka að fræða lesendur um ritdeilu mína við Jóns Steinar Gunnlaugsson þáverandi hæstaréttarlögmann um tilraun til sölu á stofnfé Spron og í leiðinni ritdeilu mína við Staksteina Morgunblaðsins um skipun Jóns Steinars í stöðu hæstaréttardómara. En það spillir samsæriskenningunni.

Ég er opinber starfsmaður, hef starfað hjá Rannís síðan 1998, en kynni mig sem blaðamann þegar ég skrifa um almenn málefni í frítíma mínum.

Í Baugslýðveldinu ætti vitanlega að banna málfrelsið ef það er nýtt til annars en að mæra heiðarlegustu fjölskyldu landsins. 

Páll Vilhjálmsson, 23.3.2007 kl. 20:10

11 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Bara gott mál að styðja þá sem hafa reynst almenningi í landinu best, tek hatt minn ofan fyrir þessari kjarnorku fjölskyldu, sem svo sannarlega hefur verið þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu stoð og styrkur. Bónus og Baugur er án nokkurs vafa mesta lán sem venjulegu verka og launafólki á Íslandi hefur hlotnast, ekki vil ég til þess hugsa hvernig hefði gengið að láta enda ná saman undanfarin ár ef ekki væri fyrir Bónus.

Fyrir fáum Íslendingum ber ég jafnmikla virðingu og þeim feðgum Jóhannesi og Jóni Ásgeir þó ég hafi aldrei þá hitt...en þeirra verk lifa og munu halda nafni þessara stórmenna á lofti um ókomna tíð...löngu eftir að raftarnir sem naga í hælanna á þeim og stóðu að hinni aumkunarverðu aðför að þeim verða öllum auðgleymdir, þótt smán þeirra og háðung blasi við öllum réttsýnu fólki.

Það er allavegana dagljóst í mínum huga hverjir standa sterkir eftir og hverjir hafa orðið sér til minnkunar í þessum farsa sem Baugmálið er.

Georg P Sveinbjörnsson, 26.3.2007 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband