Þriðjudagur, 13. maí 2014
Icelandair ekki of stórt til að fara í gjaldþrot
Ísland er ekki Vestmannaeyjar og Icelandair er ekki Herjólfur. Ef Icelandair er í raun ónýtt fyrirtæki, með óhæfa stjórnendur og óbilgjarna flugmenn, þá eigum við að leyfa fyrirtækinu að fara í gjaldþrot.
Ísland verður ekki án lífsnauðsynlegra samgangna ef Icelandair hættir flugi, líkt og Eyjamenn myndu einangrast án Herjólfs. Yfir tíu áætlunarflugfélög fljúga til Íslands.
Lífeyrissjóðirnir eiga Icelandair að stærstum hluta. Þeir bera ábyrgð á yfirgengilega heimskulegri launastefnu sem hyglar milljónafólkinu á toppnum en skilur launþega eftir. Meinsemd Icelandair er að æðstu stjórnendur eru oflaunaðir í hlutfalli við aðra starfsmenn.
Ef ríkisvaldið ætlaði að grípa inn í launadeilur Icelandair við flugmenn þá yrði jafnframt að setja lög á laun forstjóra og yfirmanna félagsins. Og þar með væri Icelandair orðið ríkisflugfélag enda bæri ríkisvaldið ábyrgð á rekstrinum.
Eigendur, stjórnendur og starfsmenn Icelandair bera sameiginlega ábyrgð á fyrirtækinu. Þessir aðilar munu tapa mestu ef fyrirtækið fer í þrot.
Skýr skilaboð ríkisstjórnarinnar um að lagasetning komi ekki til greina til að leysa launadeilu flugmanna er skynsamlegasta og ábyrgasta afstaðan.
Ógnar 500 flugferðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eru flugmenn ekki nokkuð vellaunaðir miðað við marga aðra?
Störf flugliða eru að mörgu leyti velmetin, þægileg, hreinleg og vellaunuð. Mér finnst að afnema beri verkföll í eitt skiptið fyrir öll en vísa kjaradeilum til gerðadóms sem skipaður væri að jöfnu milli deiluaðila. Það þarf að finna betri leið en verkföll til að leysa úr kjaradeilum.
Guðjón Sigþór Jensson, 13.5.2014 kl. 08:46
Það sem gleymist oft í umræðunni er að flugmenn borga námið sitt sjálfir. Það kostar flugmann á milli 10 og 12 milljónir að fá atvinnuflugmannsskírteini og líklega á bilinu 15 til 20 milljónir með þeim tímum sem hann þarf að safna til að eiga möguleika á vinnu.
Ef flugmaður á að eiga möguleika á að ná þeim tilkostnaði aftur á 40 árum þurfa laun hans að vera töluvert hærri heldur en þeirra sem fá námið gefins frá ríkinu eins og lögfræðinga, viðskiptafræðinga og hagfræðinga.
Ef reiknað er með fjármagnskostnaði þá má gera ráð fyrir að flugmaður þurfi 300.000 til 600.000 kr. hærri laun til að standa jafnfætis ríkisstyrkta viðskiptafræðingnum við lok ævistarfsins.
Eggert Sigurbergsson, 14.5.2014 kl. 13:24
Fjölmargir aðrir en flugmenn verða að borga námið sitt sjálfir. Allir einkaskólar landins innheimta allhá skólagjöld og einnig þeir skólar sem reknir eru fyrir opinbert fé þó lægra sé.
Guðjón Sigþór Jensson, 14.5.2014 kl. 15:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.