Skóli í þágu einkaaðila eða almennings

Skólakerfið á Íslandi er rekið af ríki og sveitarfélögum til að tryggja öllum jafnan rétt til skólagöngu. Lýðræðisvæðing samfélagsins á síðustu öld hefði verið óhugsandi án almennrar skólagöngu. Í skjóli opinbers reksturs á skólum hafa einkaaðilar sótt um og fengið leyfi til skólahalds.

Einkarekstur skóla hefur í sumum tilvikum gengið vel, t.d. Ísaksskóli, en í öðrum tilvikum miður, samanber Menntaskólann hraðbraut sem var lagður niður. Meginatriðið er þó það að einkareknu skólarnir eru að langstærstum hluta fjármagnaðir með skattfé almennings. 

Það hefur einfaldlega ekki verið markaður fyrir einkarekna skóla sem standa undir nafni; þ.e. eru ekki á framfæri hins opinbera. Einkareknu skólarnir rukka nemendur um skólagjöld þótt þeir séu fjármagnaðir með almannafé. Skólagjöldin eru notuð til að skapa viðkomandi skóla sérstöðu.

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð  eru í herferð gegn framhaldsskólum landsins. Markmið samtakanna er að þvinga fram styttingu á námi. Rökin sem samtökin beita fyrir sig eru fyrst og fremst hagtölur. Atli Harðarson gerir hagtöluröksemdum skil í greininni ,,Menntun og menntunarstig." 

Samtök atvinnulífsins eru með ítök í Verslunarskóla Íslands og Menntaskóli Borgarfjarðar er flokkaður með einkareknum skólum. Báðir skólarnir eru miskunnarlaust notaðir til að knýja á um málstað Samtaka atvinnulífsins.

Ef Samtök atvinnulífsins fá sínu framgengt verður íslenska skólakerfið gert ósveigjanlegra, nemendum verður gert að ljúka stúdentsprófi á þremur árum. Í núverandi fyrirkomulagi eiga nemendur val og geta útskrifast á þrem til fimm árum.

Björn Bjarnason fyrrverandi menntamálaráðherra hefur fjallað um röksemdir Samtaka atvinnulífsins. Björn skrifar

Stytting framhaldsskólanáms í þrjú ár með lagaboði. Hvers vegna að draga úr sveigjanleikanum? Nemendur geta nú ráðið hve löngum tíma þeir verja til að ljúka framhaldsskóla. Talið um að brottfall sé meira hér en annars staðar er reist á því að borin eru saman epli og appelsínur.

Samtök atvinnulífsins halda fram sjónarmiðum í skólamálum sem ganga þvert á rök og reynslu. Spurningin er hvort skólamál á Íslandi eigi að lúta sértækum hagsmunum eða almannahag.  

 


mbl.is Vel undirbúin undir háskólanám
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Sæll.

Ég er búinn að kenna við MB í nokkur ár og finnst þess vegna mjög forvitnilegt að sjá að skólinn sé miskunnarlaust notaður til að knýja á um málstað SA. 

Veistu hvers vegna MB er skipulagður sem þriggja ára skóli? Veistu hver það var sem bjó til það skipulag? Veistu hvort sá maður tengist SA? Veistu hvaða hugsjón bjó að baki þessari skipulagningu?

Þú einfaldar flókið mál verulega og veist ekkert hvað þú ert að tala um, svo ég noti nú jafnöfgafengið orðalag og þú oftast gerir í bloggfærslunum þínum. Hættu þessu bulli, maður.

Kristján G. Arngrímsson, 12.7.2013 kl. 13:44

2 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Sæll Kristján,

viðtengd frétt við bloggið fjallar um ágæti þess að stytta nám til stúdentsprófs um eitt ár, - rétt eins og raðfréttir undanfarna daga og vikur hlaða undir málstað Samtaka atvinnulífsins.

Ég þekki ekki MB og sagði ekkert um þann skóla nema að hann væri misnotaður af Samtökum atvinnulífsins. Og jú, líka að hann sé einkarekinn - en það stendur í fréttinni.

En með jafnágæta kennara og þig innanborðs er ég viss um að MB sé prýðilegur skóli.

Páll Vilhjálmsson, 12.7.2013 kl. 14:11

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Í hverju er þessi misnotkun nákvæmlega fólgin?

Hafa SA "þvingað fram" þriggja ára nám við MB?

Veistu hver skólagjöldin eru í MB?

Veistu hvaðan MB hefur rekstrartekjur sínar?

Kristján G. Arngrímsson, 12.7.2013 kl. 16:25

4 Smámynd: Páll Vilhjálmsson

Kristján, SA vill stytta nám til stúdentsprófs um fjórðung. Til að ná sínu markmiði er SA í herferð í fjölmiðlum. Fréttin um MB er hluti af þeirra herferð. Ég sagði ekki að SA hafi þvingað fram þriggja ára nám við MB.

Ég hef ekki kynnt mér skólagjöldin í MB né rekstarreikning einkahlutafélagsins sem rekur skólann - enda snerist bloggafærslan ekki um MB heldur um herferð SA.

Páll Vilhjálmsson, 12.7.2013 kl. 16:55

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

SA hafði ekkert með það að gera að MB er þriggja ára skóli. Hvernig það er "misnotkun" að benda á hann sem dæmi um það að þriggja ára nám geti gengið upp fæ ég ekki skilið.

En gaman væri ef þú gætir útskýrt það fyrir mér.

Kristján G. Arngrímsson, 13.7.2013 kl. 15:03

6 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Mér sýnist að reynslan af þriggja ára námi í MB styðja sjónarmið SA, en ekki ganga þvert á þau, eins og þú fullyrðir. Ef þú vilt svo kynna þér rökin fyrir þriggja ára náminu í MB gætirðu komist að því hvort sjónarmið SA ganga líka þvert á rök - en ég held að svo sé ekki.

Ekki misskilja mig. Ég er enginn sérstakur fylgismaður SA. Afstaða mín til þriggja ára náms byggist einfaldlega á rökum og reynslu og er algjörlega óháð afstöðu SA, jafnvel þótt mín afstaða kunni að vera hliðstæð afstöðu SA. 

Og eitt enn: Skóli er fyrst og fremst í þágu nemenda - ekki einkaaðila eða almennings. Er ekki Versló einkaskóli? Hefur hann staðið menntun á Íslandi fyrir þrifum? (Kannski mætti segja að Versló-snobbið standi menntun fyrir þrifum en það er annar handleggur, og ef út í það er farið þá er nú MR-snobbið ekki minna, og ekki er MR einkaskóli).

Kristján G. Arngrímsson, 13.7.2013 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband