Föstudagur, 31. maí 2013
Árni Þór: Össur sleit ESB-ferlinu
Helsti ESB-sinni VG, Árni Þór Sigurðsson, fyrrum formaður utanríkismálanefndar, telur að Össur Skarphéðinsson þáverandi utanríkisráðherra hafi í reynd slitið ESB-ferlinu í vetur þegar hlé var gert á aðildarferli Íslands.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sig. gerði hlé á ESB-ferlinu með sérstakri ríkisstjórnarsamþykkt síðast liðinn vetur. Árni Þór segir nýja ríkisstjórn taka upp stefnu fráfarandi ríkisstjórnar að þessu leyti og bæta því einu við að ekki skuli taka upp þráðinn að nýju nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Hléið sem ríkisstjórn Jóhönnu Sig, gerði á ESB-ferlinu stafaði af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi er afgerandi andstaða við aðild að Evrópusambandinu. Í öðru lagi hjakkaði ESB-ferlið í sama farinu vegna þess að Evrópusambandið gerði aðlögunarkröfur sem íslensk stjórnvöld gátu ekki framfylgt á alþingi enda með nauman meirihluta
Í ofanálag viðurkenndu íslensk stjórnvöld aldrei þá staðreynd að ESB-ferlið er aðlögunarferli þar sem umsóknarríki tekur jafnt og þétt upp regluverk sambandsins. Árni Þór, Össur og aðrir ESB-sinnar seldu þjóðinni ESB-umsóknina með þeim orðum að við ætluðum aðeins að fá samning, ,,kíkja í pakkann." Evrópusambandið býður ekki upp á slíka samninga. Í Brussel er það tekið sem gefin forsenda að umsóknarríki ætli sér inngöngu í sambandið, - annars hefðu þau ekki sent umsókn.
Nú þegar Árni Þór viðurkennir að Össur Skarphéðinsson hafi slitið ESB-ferlinu í vetur með því að undirgangast samþykkt ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. er næsta skrefið hjá Árna Þór að viðurkenna mistökin frá 16. júlí 2009 þegar þorri þingmanna VG samþykkti ESB-umsókn Samfylkingar á alþingi þrátt fyrir að yfirlýst stefna VG sé að Ísland eigi að standa utan Evrópusambandsins.
Össur og Samfylkingin þurfa ekki að viðurkenna eitt eða neitt. Þjóðin veitti þeim 12,9 prósent fylgi í nýafstöðnum þingkosningum. Það segir alla söguna um fylgið við ESB-umsókn Samfylkingar.
Segir ESB-stefnuna óskýra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er rétt að hléið sem nú hefur verið gert er meira afgerandi en það fyrra, en það breytir ekki því Palli að stjórnin á eftir að standa skil á loforðinu um að draga umsóknina til baka.
Betur má því ef duga skal og en sem komið eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki sérlega traustvekjandi í málinu. Nú ber að gagnrýna ríkisstjórn Sigmundar Davíðs fyrir vöntun og loðmælgi og krefjast sýnilegra efnda.
Sandkassinn (IP-tala skráð) 31.5.2013 kl. 17:22
Heyr, heyr Gunnar Waage !
Það er fyllsta ástæða til að við séum á verði.
Gunnlaugur I., 31.5.2013 kl. 22:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.