Keynes er dauður; marxísk frjálshyggja verður valkostur

Heimhagkerfið stendur frammi fyrir djúpri kreppu og hagpólitísk leiðsögn síðustu áratuga er fallin í ónáð. Hagspeki John Maynard Keynes um að á tímum samdráttar skuli ríkisvaldið auka útgjöld og skapa þar með eftirspurn og fá hjól atvinnulífsins til að snúast er ekki við hæfi í ofurskuldsettum hagkerfum.

Sumir, t.d. John Gray, efast um að Keynes myndi leggja til sömu meðölin í dag og hann gerði á tímum heimskreppunnar á fjórða áratugnum. Gray er gamall frjálshyggjumaður, kenndi m.a. Hannesi Hólmsteini, en varð fráhverfur efnishyggjunni sem fylgdi nýríka hyskinu er setti Ísland á hausinn, svindlaði á libor-vöxtum og spilavítisvæddi bankastarfsemina.

Keynes er hagpólitískt dauður þó enn lifi í glæðunum. 17 hagfræðingar, þar á meðal alþjóðlegar kanónur, sbr. Paul De Grauwe, skrifa upp á yfirlýsingu til bjargar evrunni sem er innblásin af keynesisma. Hagfræðingarnir boða fimm ára neyðaráætlun til bjargar evrunni með stórfelldum opinberum afskiptum, t.a.m. nýjum stofnunum á evru-svæðinu til að halda utanum ríkisfjármál aðildarríkja.

Hagfræðingarnir 17 eru löngu búnir að tapa umræðunni, evrunni verður ekki bjargað í óbreyttri mynd. Þjóðverjar, sem ráða örlögum evrunnar, fá reglulega og vaxandi mæli greiningu eins og þessa í Die Welt sem segir evruna valda hættu á þjóðargjaldþroti Þýsklands, hvorki meira né minna.

Frjálshyggja Thatchers og Reagans er annar höfuðsökudólgur kreppunnar en hinn er stórveldakomplex elítunnar í Brussel, - sem m.a. sótti rök fyrir ríkisforsjá til Keynes.

Marxismi í skilningnum 'sérhver fái samkvæmt þörfu og leggi fram eftir getu' fær aukna athygli í kreppunni. Þegar pælingu úr sígildri frjálshyggju (ekki auðmannadekursútgáfunni) um járnhörð markaðslögmál er splæst við marxísku hugmyndina er komið virklega áhugavert stöff.

Það finnst tímaritinu Spiegel í það minnsta og veitir hugmyndum róttæklingsins Söru Wagenknecht lofsamlega umsögn. Spiegel segir hingað til tvær öfgalausnir á evru-kreppunni einkum til umræðu. Ein er að láta allt í gjaldþrot, bæði Suður-Evrópu og bankana, og hin er að setja allar skuldirnar undir einn hatt með evru-skuldabréfum.

Wagenknecht gæti að nokkru hafa sótt fyrirmynd sína til Íslands og neyðarlaganna. Hugmynd hennar er að sameiginleg ákvörðun ríkja að lækka skuldir sínar einhliða niður úr 60 prósent af þjóðaframleiðslu. Wagenknecht gerir ráð fyrir að öll evru-ríkin grípi til þessa ráðs, líka Þýskaland sem skuldar 80 prósent þjóðarframleiðslunnar í dag. Við það færu bankar unnvörpum í gjaldþrot. Ríkið myndi endurfjármagna gjaldþrota banka og verja innistæður almennings, þó með þaki upp á 1 milljón evra. Fjárfestingarbankar yrðu ekki endurreistir. Í krafti endurfjármögnunarinnar myndi ríkið setja nýjar reglur um starfssemi fjármálastofnana og taka af þeim réttinn til að ,,framleiða" peninga með því að lána hátt margfeldi af innistæðum. Þarna virðist þýski róttæklingurinn á sama máli og hófsemdarmaðurinn Frosti Sigurjónsson sem boðar endurreisn íslenska bankakerfisins á nýjum forsendum.

Tæplega er hætta á að hugmyndir Wagenknecht fái framgang - til þess eru þær of róttækar. Tillögur hennar, og athyglin sem þær fá, eru þó til marks um hversu umræðan er komin langt fram úr  viðurkenndum mörkum. Á meðan viðfangsefnin, heimskreppan og evru-skuldafenið, verða áfram í forgrunni vex áhuginn á óhefðbundnum lausnum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Keynes var yfirstéttarskoffín sem þóttist yfir flesta hafin í krafti fjármagns.

Í kreppunni tapaði hann miklu.

Í krafti áhrifa sinna setti hann fram "kenningar" um afskipti ríkisvaldsins til að forðast kreppu, og þar með auðvitað helst að bjarga heimskum ríkisbubbum með gamla peninga.

Þetta hafa seðlabankar heimsins keppst um að gera upp á það síðasta.

Nær aðeinst þeim alríkustu til góða.

Er það furða þó peningaprentunin og skuldsetningin sýni sig að vera afskaplega lélegt meðal?  Keynes var elítupinni af verstu sort.

jonasgeir (IP-tala skráð) 26.7.2012 kl. 15:34

2 Smámynd: Jóhann Elíasson

Vissulega var John Maynard Keynes, mjög merkilegur og kenningar hans á sínum tíma (1936), ollu straumhvörfum innan hagfræðinnar þá.  Meira að segja svo miklum að hagfræðingar sem aðhylltust kenningar þær sem komu fram fyrir þennan tíma kölluðust "klassískir hagfræðingar".  En sem betur fer verða framfarir á öllum sviðum og þá í hagfræði líka.  Árið 2001 kom út bók eftir Ástralska hagfræðinginn Steve Keen, þessi bók heitir "DEBUNKING ECONOMICS". Bókin hefur valdið miklum deilum meðal hagfræðinga og verið gagnrýnd mikið og margir hafa gengið svo langt að segja að  margar kenningar hennar hafi ekki við neitt að styðja.  Árið 2011 kom svo út ný útgáfa af bókinni þar sem tekið er á þeirri gagnrýni, sem hún hafði fengið á sig og einnig var farið nokkuð vel yfir efnahagshrunið í heiminum.  Í bókinni eru þeir hagfræðingar, sem fylgja kenningum Keynes kallaðir "nýklassískir hagfræðingar".   Ég hvet menn til að kynna sér þessa bók því margt í henni er ansi áhugavert og þó svo að allir séu ekki sammála höfundi er alltaf gott að kynna sér önnur sjónarmið...................  

Jóhann Elíasson, 26.7.2012 kl. 15:38

3 identicon

Nákvæmlega hvað, alveg í einstökum atriðum, gerðu Ronald Reagan, sem lét af embætti árið 1989, og Margaret Thatcher, sem lét af embætti árið 1990, til að koma af stað kreppu árið 2008? Eftir að pólitískir andstæðingar þeirra höfðu í áraraðir haft tækifæri til að breyta öllu því, sem þeir voru óánægðir með. Af hverju skall ekki kreppan á Reagan og Thatcher sjálfum, heldur lét bíða eftir sér í næstum tvo áratugi, ef þau réðu svona illa við verkefni sín sem stjórnmálamenn? Hvað þessa söguskýringu varðar, sleppurðu ekki svona röksemdalaust, Páll minn góður.

Sigurður (IP-tala skráð) 26.7.2012 kl. 23:33

4 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þegar Keynes var og hét þá átti ríkið pening. Nú til dags á ríkið bara skuldir. Þetta var ekkert góð aðferð, en hún virkaði nokkurnvegin. Svona eins og að pissa í skóinn sinn virkar svona nokkurnvegin.

Ef við tökum Marx upp, þá verður svo engin framleiðni af ástæðum sem Skinner gerir góða grein fyrir. Þetta hefur verði margsannað empírískt.

Hins vegar þá ættum við að taka upp hugmyndir þeirra fáeinu snillinga sem geta rekið heimili án þess að vera í stöðugum mínus. En það mun gerast þegar Hitler mætir í annað sinn á djettpakkinu sínu.

Ásgrímur Hartmannsson, 27.7.2012 kl. 07:48

5 identicon

Mjög góður pistill hjá þér Páll.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 29.7.2012 kl. 15:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband