Hjálenduhugarfar, stjórnmálastéttin og töfralausnir

Á bakvið yfirlýsingar um að Ísland verði að fá nýjan gjaldmiðil er hjálenduhugarfar um að Íslendingar geti ekki rekið eigin gjaldmiðil. Hjálenduhugarfar er útbreitt hjá fátækum þjóðum þriðja heimsins, sem reka einhæft efnahagskerfi byggt á hrávöru og/eða ferðamennsku. Grænhöfðaeyjar er ein þessara þjóða, sem íhugaði að taka upp evru og fékk ráðgjöf frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

Skýrsla Alþjóða gjaldeyrissjóðsins tekur saman reynslu þjóða af því að hætta með eigin gjaldmiðil. Um og eftir seinni heimsstyrjöld tóku nokkur ríki upp erlendan gjaldmiðil. Forsendurnar voru iðulega pólitískar, - gamla nýlendan sóttist eftir hjálendustöðu hjá fyrrum nýlenduveldi.

Seinni tíma saga upptöku erlends gjaldmiðils markast af pólitískri upplausn eða stríðsástandi þeirra ríkja sem eiga í hlut. Ekvador, El Salvador, Kosovo og Svartfjallaland eru meðal þessara ríkja.

Við hrunið missti íslenska stjórnmálastéttinn móðinn. Búsáhaldabyltingin hræddi þingmenn og jafnvel þeir sem komu nýir á þing við síðustu kosningar voru litlir í sér.

Lítið sjálfstraust skóp eftirspurn eftir töfralausnum sem í einni hendingu myndi bjarga ástandinu. Árni Páll Árnason fyrrum viðskiptaráðherra beinlínis sagði í kosningabaráttunni að umsókn um aðild að Evrópusambandinu væri töfralausn.

Sölumenn úr hópi hagfræðinga buðu Kanadadollar sem töfralausn. Erlendis þykir það fyndið þar sem Kanadadollar er kallaður ,,loonie" og þykir ekki merkilegur. Ekki vera hallærislegir, Íslendingar, takið heldur upp krónu á gullfæti, segir raffréttabréfið Morgunstund-gefur-gull-í-mund (Money Morning).

Hjálenduhugarfar stjórnmálastéttarinnar er sumpart skiljanlegt. Stjórnmálamenn voru samábyrgir útrásinni en gengur illa að játa syndir sínar, samanber vitnaleiðslur fyrir landsdómi. Þá er þægilegt að grípa til þeirrar afsökunar að krónunni sé um að kenna. Krónan er hentug sem blóraböggull þar sem hún stendur vel til höggs og á sér ekki marga málssvara.

Þjóðin, mínus stjórnmálastétt og hrunkvöðlar, er ekki þjökuð af hjálenduhugarfari og mun hrista af sér umræðuna um töfralausnir, hvort heldur það sé ESB, Kanadadollar eða sænsk króna.

 


mbl.is Segir sænsku krónuna vænlegri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Hjálenduhugarfarið er þægilegt fyrir getulausa Íslenska stjórnmálamenn enda er þá hægt að halda áfram að gera ekki neitt og þyggja dagpeninga fyrir.

Listi yfir gjaldmiðla sem eru sjálfstæðir og ekki tengdir öðrum gjaldmiðlum:

1. Minnsti gjaldmiðill heimsins er Seychellois rupee. Mannfjöldi 84.000.
http://en.wikipedia.org/wiki/Seychellois_rupee

2. Næst minnsti Gjaldmiðillinn: Tala. Mannfjöldi 179.000.
http://en.wikipedia.org/wiki/Samoan_tala

3. Þriðji minnsti Gjaldmiðillinn: Vanuatu vatu. Mannfjöldi 246.000.
http://en.wikipedia.org/wiki/Vanuatu_vatu

4. Fjórði minnsti gjaldmiðillinn: Icelandic króna. Mannfjöldi 318.000.

Tugir annarra gjaldmiðla er til hjá mun smærri þjóðum en Íslandi en þeir eru tengdir myntkörfum eða öðrum gjaldmiðlum.
http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_population

Eggert Sigurbergsson, 11.3.2012 kl. 10:11

2 identicon

Ísland er eina landið sem hefur færri en milljón sem fleytti gjaldmiðli sínum "plain vanilla" (SIC) ;)

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 11:24

3 identicon

Stjórnlaus peningaprentun: http://www.cargocultist.com/?p=980 

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 11:59

4 identicon

Ég ætlaði að kjósa Lilju en nú hefur fyrsta viðvörunarbjallan klingt hjá mér. Svíþjóð var eitt sinn merkilegt land, og er það stutt síðan, en fáum löndum hefur hnignað jafn mikið á jafn stuttum tíma, bæði siðferðislega og efnahagslega og er það nú svipur hjá sjón eða þegar ég var að alast þar upp. Að taka upp Kanadadal væri mun framsýnna, Kanada er órasískasta og að mörgu leyti framsýnasta land heims, og þar eru hlutir á uppleið. Þar að auki býr þar fjöldi fólks af íslensku bergi brotið, sem vill styrkja tengsl við Ísland og lætur sig hag landsins varða, þar á meðal áhrifafólk og frammámenn, og sumt af þessu fólk talar enn íslensku, þó ófullkomin sé, afa og amma kenndu þeim. Í eldgosunum miklu dó 1/3 íslensku þjóðarinnar og það margir flúðu til Kanada, og þar voru það mikið betri lífsskilyrði, minni vöggudauði og betra barnalán, að í dag búa um 300.000 manns af íslenskum ættum þar, svipað og býr hér. Við erum því nátegnd Kanada á marga vegu. Tengsl við Kanada myndu líka efla bæði tengslin til Ameríku, sem er andlega skyld Íslandi, þangað fluttu menn líka til að verða frjálsir og lausir við yfirvald kónga og presta sem einkenndi Evrópu (og hefur því mikla samúð með Íslandi, afþví goðsagan um Ísland er mjög svipuð goðsögunni um Bandaríkin. Og aukin tegnsl við Kanada efla líka tengslin við Asíu, sem er enn mikilvægara, því ekkert vestrænt ríki hefur jafn blómleg, lifandi og lífleg tengsl við Asíu eins og Kanada hefur í dag.

sigurður (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 12:54

5 Smámynd: Elle_

>Kanada er órasískasta og að mörgu leyti framsýnasta land heims, og þar eru hlutir á uppleið.<

Já, eg held það kannski.  Líka eru allir bankar þar reknir af ríkinu eða voru það 2008 og væntanlega enn.  Innan bankanna voru ekki óheftir ræningjar að verki eins og í sumum öðrum löndum.

Elle_, 11.3.2012 kl. 14:47

6 identicon

Íslenskir stjórnmálamenn hafa almennt ekki hugrekki, greind eða dugnað til þess að ráðast í nauðsynlega vinnu til að tryggja stöðugleika.

Þess í stað bjóða þeir okkur upp á lausnir, sem byggja á því að þeir geti áfram setið við völd, án þess að þurfa að sýna hugrekki, greind og dugnað.

Við þurfum ekki að skipta um gjaldmiðil. Við þurfum að skipta um stjórnmálamenn. Við þurfum líka að skipta um í kerfinu og við þurfum að skipta um í lífeyrissjóðunum.

Ísland verður aldrei land stöguleika, ef við sitjum uppi með rusl sem hugsar fyrst og fremst á flokkalínum, býr til kjaftæði eins og kynjaða hagstjórn og álítur að fleiri lög og reglugerðir reddi vandamálum sem eru til komin vegna vanhæfni, leti og klíkuskapar.

Vandamál Íslands verða sannarlega ekki leyst með því að ganga inn í ESB samband, sem byggir á öllum þeim ókostum sem hrjáir Ísland. Kandadollar eða sænsk króna, heldur ekki úr skák, en útiloka að hugrakkir, greindir og duglegir stjórnmálamenn geti náð stjórn á ástandinu.

Hilmar (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 15:16

7 identicon

Seychellois rupee var fastbundin myntkörfu þar til 2008 en þá var miðlinum fleytt í tilraun til að auka erlendar fjárfestingar. Nú er 7,5% verðbólga þar og ferðaiðnaður í raun eini vaxtabroddurinn.

Talan var bundin við Nýsjálenskan dollar til 1975, þar er nú 6% verðbólga

Þú fékkst 80 vatu fyrir 1 ástralskan dollara í desember 2009. Núna færðu 94 vatu fyrir 1 ástralskan dollara. Í febrúar fékkstu 96 vatu fyrir dollarann.

Allir þessir gjaldmiðlar eru í eyjaklasasamfélögum hinum megin á hnettinum og í raun allt í kringum þessi þjóðfélög ósambærilegt við Ísland fyrir utan ferðaiðnað.

Páll (IP-tala skráð) 11.3.2012 kl. 17:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband