Íslensku ESB-rökin og evrópsk samstaða

,,Ónýta Ísland" eru lífseigustu rökin fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Rökin eru vinstriflokkunum sérstaklega hjartfólgin enda sannfærðir að Sjálfstæðisflokkurinn beri meginábyrgðina á ,,ónýta Íslandi." Andspænis okkar ónýti stóð Evrópusambandið sem draumalandið.

Vanmetakenndin sem birtist í áróðrinum um ónýti lýðveldisins er bakhliðin á barnalega ofmatinu um að Ísland sé best í heimi. Hirðskáld Samfylkingarinnar, Hallgrímur Helgason, skrifaði hjákátlegan slefberatexta um hvað það væri frábært að vera í kóngsins Köben þegar Baugur og útrásin íslenska áttu verslunarhallir og hótel þar í borg. 

Samfylkingin er heimili harðdrægustu ESB-sinanna á Íslandi. Heimskustu klappstýrur útrásarinnar, Björgvin G. Sigurðsson og slíkir, eru líka með heimilisfestu í Samfylkingunni. Glær bjálfaháttur leiðtoga Samfylkingarinnar, t.d. Össurar utanríkis sem viðurkennir að hafa ekki hundsvit á efnahagsmálum, aftrar þeim ekki að bera á borð bull um yfirburði evrunnar þegar hlutlæg skoðun getur ekki leitt til annarrar niðurstöðu en að evran sé í besta falli misheppnuð tilraun.

Evrópusambandið er byggt á samstöðu, skrifar Philip Stephens í Financial Times, þar sem þjóðir meginlandsins litu svo í upplýstri eiginhagsmunagæslu að samruaþróun væri þeim hagkvæm. (,,...enlightened self-interest that leads governments to identify national goals in a shared and sustained strategy of integration.")

Upplýst hagsmunavarsla þjóðríkja og samrunaþróun álfunnar hlaut fyrr eða síðar að leiða til árekstra þar sem hagsmunir þjóðríkja stóðu annars vegar og hins vegar samrunaferli álfunnar. Evran er þessi árekstur.

Evrukreppan er um það bil að leysa upp evrópsku samstöðuna sem Evrópusambandið byggir á. Þjóðverjar og önnur Norður-Evrópuríki í evrulandi eru ekki tilbúin að niðurgreiða lífskjör í Grikklandi og Suður-Evrópu. Á móti eru þjóðríkin í suðri ekki tilbúin að gera grundvallarbreytingar á efnahagskerfum sínum til að þau líkist meira þýska kerfinu.

Um helgina sagði fyrsti þýski ráðherrann upphátt sem margir segja í hálfum hljóðum: Grikkir verða að fara út úr evrulandi.

Engin leið er að spá fyrir um hvað verður um Evrópusambandið þegar gríski vandinn verður leystur. Stórveldi reyna í lengstu lög að halda sér á floti og Evrópusambandið mun reyna það í lengstu lög. En þegar búið er að afhjúpa grunnstoð sambandsins - evrópska samstöðu - sem feyskna verður ekki byggt meira ofan á þann grunn.

Rökin um ónýta Ísland verða dálítið hjárænuleg þegar draumalandið í austri liðast í sundur. Íslenskir vinstriflokkar ætla seint að læra af reynslunni. Kommúnistar trúðu lengi á síðustu öld á hjálpræði frá Mosvku. Íslenskir sósíaldemókratar leggjast flatir fyrir Brussel og halda það gulls ígildi sem þaðan kemur.

Gömlu kommúnistum til hróss verður að taka fram að þeir studdu stofnun lýðveldis á Íslandi 1944. Einu andmælin komu frá sósíaldemókrötum eins og Hannibal Valdimarssyni hvers sonur er eitilharður, að ekki sé sagt beinstífur, ESB-sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Algjörlega sammála þér.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.2.2012 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband