Þriðjudagur, 20. desember 2011
Siðferði bankamanna
Jón og Gunna sem kaupa í hlutabréfasjóðum banka fá að vita skýrt og skilmerkilega að ávöxtun í fortíð sé engin trygging fyrir ávöxtun í framtíð. En þegar yfirmenn Kaupþings skenktu sér verðmætum var annað upp á teningunum. Hækkun hlutabréfa bankans átti að falla þeim í skaut en lækkun hlutabréfa tók bankinn á sig og þar með eigendur sem m.a. voru lífeyrissjóðir.
Taugakerfi æðstu yfirmanna Kaupþings var svo viðkvæmt að þegar hlutabréf, sem þeir höfðu tekið lán fyrir, tóku að falla gátu þeir illa einbeitt sér að vinnunni. Viðskiptablaðið kemur með þessa útlistun á aðdraganda þess að bankastrákarnir afléttu ábyrgðum af sjálfum sér.
Starfskjaranefnd Kaupþings vissi að ýmsir af háttsettum stjórnendum bankans væru komnir í fjárhagsvandræði vegna lækkunar á gengi hlutabréfa í bankanum áður en skilanefnd tók hann yfir í október 2008. Stjórnendurnir höfðu fengið tugmilljarða krón að láni hjá bankanum til að kaupa hlutabréf í honum. Nefndin fól því Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrverandi bankastjóra Kaupþingssamstæðunnar, að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmannanna á lánunum svo þeir gætu einbeitt sér að rekstri bankans.
Bankastrákarnir létu Jón og Gunnu sitja uppi með tapið en afskrifuðu sínar skuldir. Bankamenn munu reyna selja okkur þá sögu að þetta hafi bara verið viðskipti. Dómstólar lýðveldisins Íslands geta ekki sýknað svona framferði.
Skal endurgreiða 717 milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Samkvæmt því sem komið hefur fram í umfjöllun Kastljóss um málefni Kaupþings (og hinna bankanna) að undanförnu, þá virðist sem ekkert hafi verið eftir í þessum banka nema hlutabréf í honum sjálfum. Auk þess sem stór hluti eignasafnsins voru lán til vildarvina fyrir kaupum á bréfum bankans. Með öðrum orðum, þá virðist sem í síðustu andarslitrunum hafi bankanum verið breytt í Ponzi-svikamyllu til þess að fresta hinum óhjákvæmilega dauðdaga, á meðan síðustu peningarnir voru tæmdir úr honum, þar á meðal síðustu evrurnar í gjaldeyrissjóði seðlabankans sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum voru lánaðir út á þessa svikamyllu og fóru lóðbeint til Luxemborg þaðan sem þeim var dreift til aflandsfélaga. Undarlegast er samt hvers vegna virðist sem aðeins eigi að saksækja hina ábyrgu fyrir hvítflibbabrot, þegar jafnframt ætti að koma til álita að ákæra þá skv. X kafla hegningarlaga um landráð:
91. gr. Hver, sem kunngerir, skýrir frá eða lætur á annan hátt uppi við óviðkomandi menn leynilega samninga, ráðagerðir eða ályktanir ríkisins um málefni, sem heill þess eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin, eða hafa mikilvæga fjárhagsþýðingu eða viðskipta fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum, skal sæta fangelsi allt að 16 árum.
Sömu refsingu skal hver sá sæta, sem falsar, ónýtir eða kemur undan skjali eða öðrum munum, sem heill ríkisins eða réttindi gagnvart öðrum ríkjum eru undir komin.
Lánveiting á stórum hluta af gjaldeyrissjóði þjóðarinnar hlýtur að geta fallið undir þá skilgreiningu að vera "leynileg ráðagerð" vegna bankaleyndar og sem hafði "mikla fjárhags- og viðskiptaþýðingu fyrir íslensku þjóðina gagnvart útlöndum". Jafnframt má líta svo á að gjaldeyrislánið hafi verið veitt m.a. á grundvelli falsaðra skjala og með undanskotinu hafi verið komið undan fjár-"munum sem heill ríkisins gagnvart öðrum ríkjum var undir kominn".
Man einhver hver það var sem veitti þessari svikamyllu gjaldeyrislánið?
Guðmundur Ásgeirsson, 20.12.2011 kl. 15:39
Jón og Gunna kaupa aldrei aftur hlutabréf í bönkum. Þau fóru flatt á því síðast, og höfðu þó aðeins notað eigið sparifé.
Eftirleiðis munu þau Jón og Gunna eftirláta vogunarsjóðum og áhættufíklum fjárfestingar í bönkum. Þau munu svo með tíð og tíma venjast því að sofa með hækkun undir koddanum.
Kolbrún Hilmars, 20.12.2011 kl. 17:21
Við sjáum nú til, Páll, hvað "dómstólar lýðveldisins Íslands geta ekki" en gera samt.
Sigurður (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 19:31
Það er auðvitað ekki skrýtið að kratarnir með Steingrím fremstan beili út bankamennina eins og þeir mögulega geta.
Og reki þá sem gagnrýna eða stoppi slíkt.
jonasgeir (IP-tala skráð) 20.12.2011 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.