Mánudagur, 4. janúar 2010
Stjórnvöld án innistæðu
Dagarnir fjórir sem forseti tók sér til að íhuga hvort hann neitaði undirskrift sinni á Icesave-frumvarpið sýna ríkisstjórn án innistæðu hjá þjóðinni. Icesave-málið er stærsta mál ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Ef allt væri með felldu ættu rök stjórnarinnar að hljóma sem aldrei fyrr. En hvað gerist?
Jú, Hans Haraldsson hittir naglann á höfuðið þegar hann líkir málflutningi stjórnarsinna við landsmót í kjánaskap. Rökin fyrir málstað stjórnarinnar eru svo hjákátleg að menn fara hjá sér.
Í kringum sérhverja ríkisstjórn myndast kúltúr þar sem kristallast það erindi sem stjórnin á við samtíðina. Kúltúr ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttir er frekjulegt dramb nývaldsins sem telur sig ekki þurfa réttlætingu. Í Icesave-málinu kemur stjórnin fram sem illa uppdreginn frekur krakki; belgir sig heima en lyppast niður þegar komið er út fyrir túnfótinn.
Ummæli, ættuð úr forsætisráðuneytinu, um að það sé sama hvaðan gott kemur, þegar til umræðu var lagasetning fyrir gagnaver Björgólfs Thors auðmanns og ábyrgðarmanns Icesave, undirstrikar að ríkisstjórnin á ekkert erindi við eftirhrunsþjóðafélagið.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.