Forsetalegur Arnar Þór

Forsetakosningar snúast að jafnaði um persónur en minna um málefni. Ávallt er þó pólitískur undirtónn. Arnar Þór Jónsson mætir snemma til leiks og tilkynnir framboð á forsendum fullveldis.

Arnar Þór gat sér fyrst orð sem skeleggur greinarhöfundur. Sjónarmið sjálfstæðisbaráttu einstaklinga og þjóðar voru efst á baugi. Á seinni tíð varar hann við yfirþyrmandi ríkisvaldi og deigum stjórnmálamönnum í spennitreyju alþjóðastofnana. Ef Arnar Þór hefði verið uppi á 19. öld fyllti hann flokk fríþenkjara, sem guldu varhug við kennivaldi þess tíma, klerka og konunga.

Arnar Þór kemur af hægri væng stjórnmálanna. Seint verður þó varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins sakaður um að ganga erinda flokkseigenda. Hann dansaði ekki við Valhallartakt og virtist á útleið með sjálfstæði sitt.

Djarfur leikur, að bjóða sig fram snemma, og renna blind í sjóinn, setur þá værukæru í vanda. Þungavigtarmenn, meintir og raunverulegir, bíða færis, kanna landið, hinkra eftir áskorunum og lesa í umræðuna áður en þeir gera upp hug sinn. Þær vikur sem ,,umræðan" leitar að frambjóðendum er Arnar Þór einn á sviðinu.

Ekki er hægt að segja að varaþingmaðurinn sé þjóðþekktur. Aftur er nafn hans nógu kunnugt til að flestir fjölmiðlar kynntu væntanlegan blaðamannafund frambjóðandans og sögðu frá erindi Arnars Þórs við þjóðina.

Fyrstur fram haslar Arnar Þór sé völl. Ekki er víst að orustan um Bessastaði fari fram á þeim velli. En þeir sem á eftir koma eru knúnir til að standa fyrir eitthvað annað en sjálfa sig, leggja á borðið málefni, líkt og lögmaðurinn, dómarinn og varaþingmaðurinn.

Tilfallandi giskar á að Arnar Þór eigi sjö til tíu prósent harðlínufylgi og annað eins sé vonarpeningur, kjósendur sem hvorki eru sannfærðir né frábitnir. Það gera 14 til 20 prósent. Það má vinna á þeim akri og vænta uppskeru. Annað gisk er að einir fjórir til sex frambjóðendur mæti til leiks er teljast mögulegir til afreka og að álíka fjöldi fari fram á óskhyggjunni einni saman. Næsti forseti gæti náð kjöri með fjórðungs fylgi eða þar um bil.

Þetta er sagt með fyrirvara. Enn er langt í kosningar og flest á huldu um valkosti.

Síðustu þrír forsetar náðu frumkjöri með fylgi vinstrimanna en héldust í embætti fyrir atbeina hægrimanna. Gildir einkum um þá Ólaf Ragnar og Guðna. Teikn eru á lofti að vinstrikreðsan sé klofnari og vanmáttugri en löngum áður. Þeir sem tala um ,,RÚV-frambjóðanda" gæti að: Glæpaleiti hýsir byrlara og skattsvikara. RÚV-stimpill yrði frambjóðanda fjötur um fót.

Verkefni Arnars Þórs næstu vikur er að sýnast eldri en hann er annars vegar og hins vegar sannfæra kjósendur að hann sé maður hófstillingar en ekki umbrota. Æskufjöri fylgir óútreiknanleiki sem húsráðandi á Bessastöðu skyldi ekki hafa. Hvað aldurinn áhrærir þvælist hárlubbinn ekki fyrir frambjóðandanum. Hófsemd og ræktarsemi við gróin gildi haldast í hendur. Eiginkona Arnars Þórs, Hrafnhildur Sigurðardóttir, bar kross á brjósti þegar hjónin kynntu framboðið.

Á Bessastaðakirkju er enginn kross.

 

 

 


mbl.is Arnar Þór býður sig fram til forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. janúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband