Blaðamenn sem óvinir lýðræðis

,,Öflug og vönduð blaðamennska, þar sem tjáningarfrelsið er í fyrirrúmi, er forsenda lýðræðis," er fyrsta setningin í nýjum siðareglum Blaðamannafélags Íslands. Þrír blaðamenn, Þórður Snær, Arnar Þór og Aðalsteinn Kjartansson, allir á Heimildinni, hafa ýmist stefnt tilfallandi bloggara eða hóta stefnu vegna umfjöllunar á lögreglumáli þar sem blaðamennirnir eru sakborningar. Ekki sýnir það virðingu fyrir tjáningarfrelsi.

Blaðamennirnir vita að bloggari er með heimildir fyrir umfjöllun sinni. Lögmaður Aðalsteins skrifar í hótunarbréfi til bloggara: ,,Af lestri vefsíðu þinnar er ljóst að þú hefur undir höndum rannsóknargögn lögreglu um málið sem lögreglan á Norðurlandi eystra er með til rannsóknar."

Blaðamenn hafa sem sakborningar aðgang að rannsóknargögnum. En þeir skrifa ekkert heldur þegja blaðamenn og vilja að allir aðrir þegi. Bloggari skrifar um byrlunar- og símastuldsmálið og fær á sig stefnu fyrir að tjá sig.

Hvers vegna fjalla blaðamenn ekki sjálfir um málið? Sakborningarnir vita manna best hvernig þeir komust yfir síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Það þýðir ekki að bera fyrir sig vernd heimildamanna. Lögreglan segir í febrúar í fyrra að hún viti hver heimildamaðurinn er, andlega veika konan sem byrlaði skipstjóranum.

Blaðamennirnir vissu að lögbrot var framið. Arnar Þór og Þórður Snær skrifuðu þegar þeir birtu fyrstu fréttina úr síma skipstjórans að afbrot var undanfari en tóku fram að þeir sjálfir hefðu ,,engin lögbrot framið." Er það ekki hlutverk blaðamanna upplýsa afbrot? Hvers vegna ganga blaðamenn RSK-miðla ekki fram fyrir skjöldu og greina almenningi frá vitneskju sinni um tilræðið gegn skipstjóranum, stuldi á síma hans og meðferðina á einkagögnum? 

Í nýjum siðareglum segir að almenningur eigi rétt á ,,að fá sannar upplýsingar." Hvert á almenningur að leita ef blaðamenn þegja sem fastast um sakamál þar þeir sjálfir eru sakborningar? Nú, auðvitað til þeirra sem fjalla um málið, s.s. tilfallandi bloggara. Ekki er um auðugan garð að gresja hjá öðrum blaðamönnum og fjölmiðlum. Þeir meira og minna þegja í þágu félaga sinna og vina - sakborninganna.

Með framferði sínu grafa blaðamenn eigin gröf. Blaðamenn og fjölmiðlar sem þegja um mikilsverð málefni þjóna ekki hagsmunum almennings. Blaðamenn sem krefjast þöggunar og höggva að tjáningarfrelsinu eru, samkvæmt eigin skilgreiningu, óvinir lýðræðisins.


Bloggfærslur 3. apríl 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband