Laugardagur, 7. maí 2022
Þögn á alþingi um Þóru og RÚV
Þóra Arnórsdóttir yfirmaður á RÚV er með stöðu sakbornings í rannsókn lögreglu á byrlun Páls skipstjóra og stuldi á síma hans. Hún var boðuð til yfirheyrslu 14. febrúar, fyrir nær 3 mánuðum. Hún fer alla lagakróka að komast hjá heimsókn til lögreglu að gefa skýrslu. Síðasta útspilið felur í sér að ríkisstofnunin RÚV krefst dóms um að önnur ríkisstofnun, lögreglan á Akureyri, sé vanhæf. Þetta eru nýmæli og tíðindi til að ræða og greina. En það ríkir dauðaþögn á alþingi.
Byrlun Páls og stuldur á síma hans var forsendan fyrir umfjöllun um ,,skæruliðadeild" Samherja fyrir ári síðan. Þá var málið tekið upp á alþingi og fóru sumir þingmenn hamförum.
Svokölluð skæruliðadeild Samherja var aldrei sökuð um nokkurn glæp og engin lögreglurannsókn stendur yfir á athöfunum meintra liðsmanna hennar. En samt var hún á dagskrá alþingis, tóku þingmenn stórt upp í sig og ráðherrar fordæmdu.
Þrír blaðamenn hið minnsta, auk Þóru, eru grunaðir um saknæmt athæfi. Á meðal málsgagna, sem hafa verið gerð opinber, er skýrsla lögreglunnar fyrir héraðsdómi 28. febrúar. Þar segir m.a.
Hafa ber í huga að í síma einstaklinga í dag er allt líf þeirra skráð. Þar er að finna mikið af upplýsingum um einkalíf þeirra, einkasamtöl við fjölskyldu, vini og kunningja og jafnvel lækna, sálfræðinga, lögfræðinga ofl. Þar er að finna ljósmyndir og myndskeið, jafnvel sjúkraupplýsingar og aðrar persónuupplýsingar.
Þóra fékk allar upplýsingarnar sem voru í síma Páls skipstjóra. Segir í lögregluskýrslunni: ,,þeir sem afrituðu símann hafa þurft að skoða allt sem í símanum var...". Hún hafði allt einkalíf Páls í hendi þér. Skýrsla lögreglunnar ber með sér að Þóra deildi á aðra fjölmiðla einkamálum Páls. En hún birti sjálf ekki stafkrók, ekki eina einustu frétt. Þóra getur ekki borið við að hún hafi verið að afla frétta. Eitthvað annað og verra bjó að baki en að afla frétta og upplýsa almenning.
RÚV er á fjárlögum sem alþingi lögfestir. RÚV er opinber stofnun. Hvers vegna spyr enginn þingmaður hvernig því víkur við að yfirmenn RÚV eru grunaðir í lögreglurannsókn á alvarlegum glæp? Varla telst það sjálfsagt mál í siðuðu samfélagi.
Hvers vegna er ráðherra ekki spurður um háttsemi RÚV, að stunda glæpi og flytja afraksturinn í aðra fjölmiðla, Stundina og Kjarnann, til birtingar? Ráðherra ber ábyrgð á RÚV gagnvart þingheimi.
Hvers vegna er Stefán útvarpsstjóri ekki kallaður á fund þingnefndar og spurður hvað hann hafi gert til að upplýsa málsaðild starfmanna stofnunarinnar? Hvers vegna létu Rakel Þorbergsdóttir, Einar Þorsteinsson og Helgi Seljan skyndilega af störfum í haust og vetur? Greiðir RÚV lögfræðikostnað Þóru?
Stefán er fyrrum lögreglustjóri. Finnst honum eðlilegt að starfandi yfirmaður á RÚV krefjist dóms um vanhæfi lögreglunnar á Akureyri að rannsaka sakamál? Ein ríkisstofnun stundar málarekstur gegn annarri ríkisstofnun og hvorki heyrist hósti né stuna frá alþingi.
Er það svo að gjörvallur þingheimur er undir járnhæl RÚV, þorir hvorki að æmta né skræmta, þegar Efstaleiti líkist meira skipulögðum glæpasamtökum en þjóðarfjölmiðli?
Þingmenn sperrtu sig og reigðu þegar Páll skipstjóri nýtti sér tjáningarfrelsið en þegar hann verður fyrir byrlun og gagnastuldi er enginn þingmaður sem spyr hverju sæti. Hversdags-Páll er tekinn á beinið fyrir að tjá sig en Þóra sakborningur fær friðhelgi í umræðunni.
Óttast þingmenn að fara á bannlista RÚV ef þeir vekja máls á að ekki sé allt með felldu á Efstaleiti?