Þriðjudagur, 12. apríl 2022
Þórður Snær í yfirheyrslu lögreglunnar
Ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, er á leið í lögregluyfirheyrslu sem sakborningur í rannsókn á byrlun Páls skipstjóra og stuldi á síma. Ekki er hægt að skilja orð ritstjórans á annan veg þegar hann skrifar í gær ,,Nú þegar við blasir að blaðamenn verði kallaðir til yfirheyrslu..."
Síðast skrifaði Þórður Snær um málið í heild sinni 18. nóvember sl. með krassandi fyrirsögn Glæpir í höfði Páls Vilhjálmssonar.
Glæpir í tilfallandi höfði eru staðfestir með lögreglurannsókn. Páli skipstjóra var byrlað, síma hans stolið og hann afritaður á RÚV í byrjun maí á síðasta ári. Fyrir glæpinn var Aðalsteinn Kjartansson fréttamaður RÚV fluttur á Stundina. Þetta var gert 30. apríl. RÚV, Stundin og Kjarninn (RSK-miðlar) höfðu náið samstarf i skipulagi og framkvæmd afbrotsins.
Aðalsteinn á Stundinni og Þórður Snær á Kjarnanum birtu efni úr einkasíma Páls skipstjóra með samræmdum fréttaflutningi 21. maí, sjá hér og hér. RÚV samræmdi fréttaflutning Kjarnans og Stundarinnar en birti ekkert á vettvangi þjóðarfjölmiðilsins. Þóra Arnórsdóttir á RÚV, fyrrum yfirmaður Aðalsteins, er einnig sakborningur.
Viku áður, eða 14. maí, hafði Páll skipstjóri kært til lögreglu að átt hafi verið við síma hans á meðan hann lá á gjörgæslu vegna byrlunar. Skipstjórinn vissi ekki hverjir áttu aðild að málinu. En það rann upp fyrir honum 20. maí þegar Aðalsteinn og Þórður Snær hringdu í Pál með tíu mínútna millibili.
Núna í febrúar upplýsti lögreglan í greinargerð að X, einstaklingur nákominn Páli, stal símanum og fór með hann á Efstaleiti. Þórður Snær viðurkenndi í fréttinni 21. maí að ,,lögbrot" var ,,framið" en bara ekki af ritstjórn Kjarnans. Aðrir sáu um glæpinn en Kjarninn naut góðs af - er þjófsnautur.
Eftir að glæpurinn var framinn og afraksturinn birtur í fjölmiðlum héldu blaðamenn RSK-miðla áfram sambandinu við X, verktakann sem sá um byrlun og stuld. En þá var lögreglan komin á sporið og fylgdist með atburðarásinni. Stundum er það yfirhylmingin kemur glæpamönnum í koll.
Þórður Snær og félagar hans á RSK-miðlum vilja friðhelgi blaðamanna til að stunda afbrot, ef í húfi er fréttaefni. Í siðuðu samfélagi gengur það ekki. Allra síst þegar glæpamenn er að finna innan raða blaðamanna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)