Jólapakkinn til Úkraínu: meira stríð

Vopnapakkinn sem Biden bandaríski gaf Selenskí Úkraínuforseta er meira stríð. Yfirhershöfðingi Úkraínuhers, Valery Zaluzhny, hvetur til harðari refsinga gegn liðhlaupum, sem vilja ekki fórna lífi fyrir rússneskumælandi land.

Stríðið í Úkraínu er 300 daga. Bjartsýnar spár gera ráð fyrir stríðslokum í vor. Líklega hafa um 150 þúsund týnt lífi. Fjöldi örkumlaðra og alvarlega særðra er sennilega 200 þúsund. Um 350 þúsund týnd og ónýt líf fyrir hvað?

Jú, land, segir æðsti foringi úkraínska hersins, Zaluzhny. ,,Ef ég fæ frá vesturlöndum 300 skriðdreka, 600 til 700 brynvagna og 500 fallbyssur gæti ég fært landamærin aftur til 23. febrúar, áður en innrás Rússa hófst."

Generállinn fær aldrei vopnabirgðirnar sem hann þarf til að hrekja Rússa frá þeim hluta Úkraínu sem er rússneskumælandi. Vopnin er ekki til.

Zaluzhny fær ekki stálið til að sigra og hann kvartar undan liðhlaupum, sem ekki vilja stríða. Í viðtalinu þar sem Zaluzhny biður um vopnin, er birtist upphaflega í Economist 15. desember, segist herforinginn ekki enn tilbúinn að halda Mannerheim-ræðu yfir herliði sínu.

Hvaða Mannerheim-ræðu?

Mannerheim var finnskur starfsbróðir Zaluzhny í vetrarstríðinu við Sovétríkin 1939-1940. Stríðið hófst vegna landakröfu Sovétríkjanna sem vildu tryggja öryggi Pétursborgar sem þá hét Leníngrad. Í staðinn var Finnum boðið annað svæði á landamærum ríkjanna. Finnar neituðu, stríð hófst. Friður var saminn 13. mars 1940, Sovétríkin fengu það sem þau vildu en Finnar ekkert.

Daginn eftir friðarsamninga flutti Mannerheim yfirhershöfðingi Finna ræðu yfir hermönnum sínum til að útskýra fórnir tugþúsunda fyrir ekkert. Við vorum ekki í stakk búnir að heyja stríð við stórveldi, loforð um vestrænan stuðning voru ekki efnd, sagði sá finnski. Hljómar kunnuglega.

Ég er ekki enn tilbúinn að flytja Mannerheim-ræðu, segir Zaluzhny. En hann þykist vita að til þess komi. Annars væri finnska uppgjafarræðan ekki í huga þess úkraínska.

Stríð lúta hörðum lögmálum. Eitt lögmálið er að sá voldugri sigrar þann veikari. Annað er að samningsstaða þess er halloka fer versnar er teygist úr stríðinu. Úkraínumenn voru tilbúnir til samninga í mars - en þá barst þeim vestrænt loforð um aukinn stuðning ásamt hótun um að engin aðstoð kæmi yrði saminn friður.

Þriðja lögmálið er að valdhafar með veikari stöðu geta ekki samið af ótta við stjórnarbyltingu nema vígstaðan sé gjörtöpuð. Ef hernum er ekki slátrað á vígvellinum sækir hluti hans heim Zaluzhny herforingja og Selenskí forseta og lætur þá finna til tevatnsins. Enn á úkraínski herinn mannskap til að etja á foraðið, láta þá blæða út í stríði sem var tapað fyrirfram.

Stærstu mistökin voru að láta koma til stríðs. Það var búið að semja, Minsk I og II. En það voru jú vestrænu loforðin, gomma af peningum og mikið stál. Valdhafar í Kænugarði sáu sig sem vestræna frelsara í austurvegi. Um leið urðu þeir stórríkir. Freistingin var of mikil til hægt væri að standast hana; stríð færir sigurvegaranum herfang og orðstír. 

Rússar eru 145 milljónir, Úkraínumenn rúmar 40. Rússar eiga kjarnorkuvopn, Úkraína ekki. Engin geimvísindi þarf til að sjá fyrir niðurstöðuna. Frjálslyndir og vinstrimenn annars vegar og hins vegar kaldastríðshaukar vildu stríð. Þeir búa á vesturlöndum og sjá ekki bræður sína og syni verða að fallbyssufóðri. Þeir herskáu eru aftur ósparir á loforðin. 

Þýska hægrikonan Alice Weidel líkir hugarfari stríðsæsingamanna við ráðandi sjónarmið í upphafi fyrra stríðs. Löngun í smáskærur leiddi Evrópu í blóðugt heimsstríð í tveim þáttum, fyrri og seinni heimsstyrjöld. Stríðsæsingurinn var mestur hjá þeim sem ekki fóru sjálfir á vígvöllinn. Óábyrgt, segir sú þýska. Það er háttvíst orðalag á hatursblinda heimsku.

Hægrimenn af íhaldsætt eru sá pólitíski hópur sem sér í gegnum klisjur hermangaranna. Tucker Carlson sallaði niður í fáránleika skrautsýninguna sem var heimsókn Selenskí á Bandaríkjaþing.  

Selenskí getur þegið hvaða jólagjöf sem vera skal frá Biden bandaríska. Zaluzhny mun flytja Mannerheim-ræðuna fyrr heldur en seinna.

 

 


mbl.is Selenskí lentur í Washington
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband